YFIRSKATTANEFND var harðlega gagnrýnd á ráðstefnu um skattamál á föstudag og var því haldið fram að nefndin hefði ítrekað virt jafnræðisreglu að vettugi á kostnað skattborgara. Fram kom að lögum samkvæmt ætti nefndin að vera óháð en á því léki mikill vafi. Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði undirbúning hafinn að skipan umboðsmanns skattgreiðenda.
VIKAN 11/1-17/1 YFIRSKATTANEFND var harðlega gagnrýnd á ráðstefnu um skattamál á föstudag og var því haldið fram að nefndin hefði ítrekað virt jafnræðisreglu að vettugi á kostnað skattborgara. Fram kom að lögum samkvæmt ætti nefndin að vera óháð en á því léki mikill vafi. Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði undirbúning hafinn að skipan umboðsmanns skattgreiðenda.

FERÐ samgöngunefndar Alþingis í boði samgönguráðherra til Brussel í byrjun vikunnar, þar sem nefndin kynnti sér breytingar á starfsumhverfi fjarskipta í heiminum, var greidd af Landssíma Íslands og Íslandspósti.

FRAMBOÐSLISTI sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar hefur verið ákveðinn. Átta efstu sæti listans verða skipuð í samræmi við úrslit prófkjörs og í níunda sætinu verður Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar HÍ.

VIGDÍSI Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, hefur verið falin formennska Alþjóðaráðs um siðferði í vísindum og tækni, sem mun starfa á vegum UNESCO, Menningar- og vísindamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

VERÐ á tóbaki hefur hækkað um þriðjung umfram almennar verðhækkanir á síðustu sjö árum. Í nýlegri athugun Þjóðhagsstofnunar kemur fram að 10% raunverðhækkun tóbaks á ári leiðir til 4,5% samdráttar í neyslu á mann á sama tímabili.

Sjúklingar geymi reikninga sérfræðinga

INGIBJÖRG Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur beint því til sjúklinga að geyma reikninga frá sérfræðingum sem ekki eru á samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Reikningarnir verða greiddir þegar samið hefur verið við sérfræðinga og munu greiðslurnar miðast við samninga.

Enginn árangur í sjómannadeilu

VIÐRÆÐUR í sjómannadeilunni hafa tafist vegna klofnings sjómanna en ríkissáttasemjara hefur ekki tekist að fá fulltrúa sjómannasamtakanna til að koma að sameiginlegu borði. Enn er þannig um tvær deilur að ræða, annars vegar deilu Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins við útgerðarmenn og hins vegar deilu Vélstjórafélagsins við útgerðarmenn. Enginn árangur varð af stuttum fundi sjómanna og útgerðarmanna hjá ríkissáttasemjara á föstudag. Næsti fundur er boðaður á þriðjudag.

Norðurálssamningar til sjö ára

UNDIRRITAÐUR hefur verið kjarasamningur Norðuráls hf. og samninganefndar stéttarfélaga væntanlegra starfsmanna við álverið á Grundartanga og gildir hann til sjö ára. Meðal nýmæla í samningnum er að Norðurál mun greiða í séreignadeildir lífeyrissjóða samkvæmt fyrirmælum hvers starfsmanns og nemur framlag fyrirtækisins um 4% á móti 1% framlagi launþegans, til viðbótar skylduiðgjaldi í lífeyrissjóði. Þá er miðað við að starfsmenn hætti störfum í lok þess árs sem þeir verða 62 ára.

Suðurskautsfararnir komnir heim

SUÐURSKAUTSFARARNIR Ólafur Örn Haraldsson, Haraldur Örn Ólafsson og Ingþór Bjarnason komu heim á miðvikudag en þeir komust gangandi á Suðurskautið heilu og höldnu á nýársdag. Veður tafði heimferðina.

Skilmálar greiðslukortafyrirtækja bannaðir

SAMKEPPNISRÁÐ hefur bannað skilmála greiðslukortafyrirtækja í samningum við verslanir og þjónustufyrirtæki, sem kveða á um að seljanda vöru sé skylt að veita korthöfum sömu viðskiptakjör, verð og þjónustu og þeim sem greiða með reiðufé, og að seljanda sé óheimilt að hækka verð á vöru eða þjónustu sé korti framvísað við kaupin.