ÞAÐ VAR almennt mál manna að síðasta laxveiðivertíð hafi verið fremur rýr í roðinu. Reyndar var veiði mjög áþekk því sem var 1996, en það var mestmegnis vegna stóraukinnar veiði á Rangársvæðinu. Flestar árnar hins vegar rétt löfðu í tölunni sinni frá 1996 og margar voru lakari þó kannski hafi ekki munað svo ýkja miklu.
Eru þeir að fá 'ann?

Blanda ásamt Svartá og

Laxá í Kjós skáru sig úr 1997

ÞAÐ VAR almennt mál manna að síðasta laxveiðivertíð hafi verið fremur rýr í roðinu. Reyndar var veiði mjög áþekk því sem var 1996, en það var mestmegnis vegna stóraukinnar veiði á Rangársvæðinu. Flestar árnar hins vegar rétt löfðu í tölunni sinni frá 1996 og margar voru lakari þó kannski hafi ekki munað svo ýkja miklu. Ef litið er fram hjá Rangánum, sem byggðu stórveiði sína á stórauknum gönguseiðasleppingum , voru þó tvö svæði sem komu skemmtilega á óvart og skiluðu mun meiri veiði heldur en næstu sumur á undan. Það voru Blanda ásamt Svartá og Laxá í Kjós.

Á ellefta hundrað laxar veiddust í Blöndu og vel á fjórða hundrað laxar til viðbótar í Svartá. Óhagstætt árferði um haustið kom í veg fyrir að áin færi vel á fimmta hundrað fiska, því nóg var af laxi, bæði í Svartá og Blöndu í lok veiðitímans. Sama má segja um Blöndu, síðsumars gruggaðist áin mjög er sleppt var fram hjá stíflu á hálendinu, og dró þá mjög úr veiði um tíma.

Sigurður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar, sagði í samtali við blaðið að erfitt væri enn sem komið er að fullyrða um uppsveiflu Blöndu og Svartár, enn væri unnið úr gögnum frá sumrinu. Hins vegar sagði hann að árnar hefðu í sjálfu sér staðið sig eins og hann hefði búist við, það hefðu miklu fremur verið nágrannaárnar á Norðurlandi sem brugðust. Spáð hafði verið a.m.k. góðum smálaxagöngum á svæðinu öllu, en menn áttu von á því að lítið yrði um stórlax, sem var og raunin.

"Hvað Blöndu og Svartá varðar, þá var ágætt seiðaástand á bak við veiðina síðasta sumar og útlit er fyrir að seiðaframleiðsla Blöndu gæti hafa aukist eftir virkjun. Minna grugg er í ánni og það leiðir af sér meiri framleiðni á sama tíma og mikið af næringarefnum berast úr lóninu. Með tímanum mun draga úr útskolun þeirra næringarefna, en það er ekki þar með sagt að seiðaframleiðslan minnki. Það verður að koma í ljós," sagði Sigurður.

Laxá og netin

Veiðin í Laxá í Kjós rauk úr tæpum 700 löxum sumarið 1996 upp í tæplega 1200 stykki í fyrra. Sigurður Guðjónsson sagði enn fremur að laxveiðiár á mjög stóru svæði hefðu notið góðs af því að netalagnir við norðanverðan Hvalfjörð voru keyptar upp á vordögum í fyrra. Hann tók undir að búast mætti við að Laxá í Kjós væri sú á sem einna best kæmi út með hliðsjón af netauppkaupunum, enda ós hennar skammt frá umræddum netalögnum þar sem þúsundir laxa veiddust sumar hvert síðustu sumur. Veiðin í ánni í fyrra benti eindregið til þess.

Áður hefur verið sýnt fram á hvernig stangaveiði í Borgarfjarðaránum hefur styrkst við uppkaup netalagna í Hvítá og einnig benda skýrslur til að veiði í Langá hafi jafnast og aukist eftir því sem betri árangur náðist í að kaupa upp og leigja netalagnir á Mýrunum. Að Laxá í Kjós taki við sér við uppkaup svo stórtækra netalagna þarf því ekki að koma á óvart.

Nýtt hús við Miðá

Allt stefnir í að nýtt veiðihús verði tekið í notkun við Miðá í Dölum á sumri komanda. Verður það veglegt hús með öllum helstu þægindum að sögn Lúðvíks Gissurarsonar, leigutaka árinnar, í samtali við blaðið. "Ég var með ána í fyrra og fékk smjörþefinn af því að margir fastagestir árinnar hafa snúið baki við henni vegna slaks húsakosts. Gamla veiðihúsið er að mörgu leyti gott, en er nokkuð úr sér gengið. Maður verður að bregðast við og nú er byrjað að undirbúa byggingu nýs húss. Ég er að skoða ýmsa valkosti með staðsetningu í huga. Það er ekki afráðið neitt með það, en húsið ætti að vera klárt í vertíðarbyrjun," sagði Lúðvík.

Leiðrétting

Prentvilla var í síðasta veiðipistli er greint var frá útleigu á Laugardalsá við Djúp. Stóð þar að áin hefði verið leigð Árna Baldurssyni fyrir 2,5 milljónir. Rétt er að áin var leigð á 3,5 milljónir. Er það hér með leiðrétt og lesendur beðnir velvirðingar.

VEIÐIMAÐUR fetar sig varlega eftir efri hluta Fossbreiðu í Laxá í Kjós.