KYNNISFERÐIR-FLUGRÚTAN byrjaði í desember 1997 að þjónusta farþega íslenskra ferðaskrifstofa í Mið-Evrópu með eigin rútum og íslenskum bílstjórum. Fyrirtækið hefur fest kaup á nýjum langferðabifreiðum sem fara á áfangastaði Flugleiða í Mið- og Suður-Evrópu..
Íslenskar flugrútur í Evrópuferðum Íslenskir hópferðalangar í Mið- og Suður-Evrópu geta nú vænst þess að íslenskir bílstjórar stýri rútum á vegum Kynnisferða.

KYNNISFERÐIR-FLUGRÚTAN byrjaði í desember 1997 að þjónusta farþega íslenskra ferðaskrifstofa í Mið-Evrópu með eigin rútum og íslenskum bílstjórum. Fyrirtækið hefur fest kaup á nýjum langferðabifreiðum sem fara á áfangastaði Flugleiða í Mið- og Suður-Evrópu..

Kristján Jónsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að fyrirtækið hafi sótt um leyfi til þessara fólksflutninga til samgönguráðuneytis og það hafi verið veitt með tilvísun í samninginn um EES. Núna er einmitt að hefjast annatími sem stendur til marsloka vegna skíðatímabilsins í Austurríki, Sviss, Frakklandi og á Ítalíu en Íslendingar fara þangað gjarnan í hópferðum. "Við verðum með þrjár rútur til að byrja með og þjónum með þeim íslenskum ferðaskrifstofum allt árið," segir Kristján.

Eftir skíðatímabilið taka við ýmiss konar hópferðir um Rínarlönd, Alpana, Ítalíu og Frakkland. "Við keyptum rúturnar með öllum hugsanlegum þægindum eins og loftkælingu og salerni," segir Kristján.

Forstöðumaður þessarar starfsemi í Evrópu verður Grétar Hansson sem hefur níu ára reynslu af svipuðum rekstri á þessum slóðum með Íslendinga. Aðsetur hans og höfuðstöðvar bifreiðanna verða við Móselfljótið skammt frá Lúxemborg.

Hugmyndin er að þjónusta á áfangastöðum Flugleiða og sækja farþega á flugvelli eins og í Lúxemborg, Amsterdam, Frankfurt, Hamburg og París. Starfsemin felst í rekstri bifreiða en ekki ferðaskrifstofu.

Kristján segir að farþegum í hópferðum frá Íslandi hafi þótt fengur í því að hafa íslenska bifreiðastjóra á rútunum og er það ef til vill forsendan fyrir þessari nýju starfsemi Kynnisferða.

ÞRJÁR nýjar langferðabifreiðar munu þjónusta farþega íslenskra ferðaskrifstofa í Mið-Evrópu.