Sigríður Kristófersdóttir Kom, huggari, mig hugga þú,

Kom, hönd og bind um sárin,

Kom, dögg, og svala sálu nú,

Kom, sól, og þerra tárin,

Kom, hjartans heilsulind,

Kom, heilög fyrirmynd,

Kom, ljós, og lýstu mér,

Kom, líf, er ævin þver,

Kom, eilífð, bak við árin.

(V. Briem.) Mig langar að minnast Siggu vinkonu minnar með nokkrum orðum. Margar minningar koma upp í hugann, þegar litið er til baka. Við kynntust í Reykholti í Borgarfirði veturinn 1960­1961 er við vorum, þar í heimavistarskóla. Sigga var alveg einstök. Í skólanum var hún hrókur alls fagnaðar. Hún átti rafmagnsgítar og spilaði og söng alveg frábærlega. Við vorum saman í millirödd í blandaða kórnum en í bassa í kvennakórnum. Ég flutti til Reykjavíkur 1961 og héldum við okkar vinskap. Sigga bjó á Nýlendugötunni heima hjá mömmu sinni og systkinum, hún missti pabba sinn þegar hún var í Reykholti. Á Nýlendugötunni var alltaf opið hús fyrir vini Siggu og oft hef ég hugsað um það hvað mamma hennar var einstök að lofa okkur vinkonum hennar að vera meira og minna inni á heimili sínu. Þar var oft glatt á hjalla og mikið sungið. Sigga spilaði oft á píanóið eða gítarinn og við sungum gömlu kórlögin úr Reykholti.

Sigga kynntist Ásgeiri fyrri manni sínum og fór að búa og leiðir skildu eins og gengur, en þó aldrei alveg, við höfðum samband en öðruvísi. Sigga vann mest við verslunarstörf. 1982 setti Sigga upp sína eigin verslun, Tískuverslunina Rítu, í Eddufelli 2. 1983 fór ég að vinna hjá henni og vann ég þar í eitt ár. Þá var Ásgeir maðurinn hennar látinn. Þetta ár var yndislegur tími, það var gaman að vera í návist Siggu, hún var alltaf svo hress og lífsglöð. Það var sama hvað hún tók sér fyrir hendur, hún gat allt. Hún eignaðist þrjú dásamleg börn með Ásgeiri heitnum, þau Guðbjörgu, Kristófer og Berglindi, sem öll hafa komið sér vel áfram í lífinu og hafa örugglega fengið gott veganesti frá mömmu sinni. Svo kom Benni inn í líf Siggu og varð lífsförunautur hennar til hinsta dags, þau voru eins og sköpuð hvort fyrir annað, stórkostleg bæði tvö. Benni missti fyrri konu sína úr krabbameini og svo fær Sigga líka krabbamein. Hún er búin að berjast við þennan ljóta sjúkdóm í ein sex ár og Benni og börnin þeirra beggja eins og klettar með henni. Það er svo sárt að sjá á eftir henni Siggu minni að mig svíður í hjartað, en þó svo stolt og þakklát fyrir að hafa átt hana að vini.

Elsku Guðbjörg, Benni, Guðbjörg yngri, Kristófer, Berglind, Laufey, Benni yngri og fjölskyldur ykkar, ég bið algóðan Guð að styrkja ykkur og hugga í sorginni.

Kolbrún Ólafsdóttir.