Sigríður Kristófersdóttir Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem.) Elsku vinkona.

Þakka þér fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar. Alltaf og alls staðar varst þú miðdepill gleðinnar. Minningarnar streyma fram, ekki síst þær, þegar við vorum ungar stúlkur, fullar af ákafa og áræðni. Þín umburðarlynda og yndislega móðir, sem opnaði dyrnar á Nýlendugötunni fyrir okkur, öllum þínum vinum, hlægjandi, spilandi og syngjandi. Og prakkarastrikin, þau eru bara okkar og ylja á erfiðri stundu. Ég geymi þær og allar minningar um þig í hjarta mér. Þú varst og ert hetja í mínum huga. Móður, börnum og öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur. Elsku Benni minn, þín er sárasta sorgin. Guð styrki þig og styðji.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.) Esther.