Sigríður Kristófersdóttir Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga' og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.Dóttir, í dýrðar hendi

Drottins, mín, sofðu vært,

hann, sem þér huggun sendi,

hann elskar þig svo kært.

Þú lifðir góðum Guði,

í Guði sofnaðir þú,

í eilífum andarfriði

ætíð sæl lifðu nú.

(H. Pétursson) Þegar landsmenn voru að kveðja jólahátíðina og slökkva síðustu jólaljósin slokknaði líka skært og fagurt ljós. Elskuleg vinkona okkar hún Sigga var látin, myrkrið varð svartara en ella og sorgin greip okkur heljartaki. Við vissum að hverju stefndi en þegar kallið kemur er áfallið alltaf jafn mikið. Hugurinn reikar 23 ár aftur í tímann þegar við fluttumst báðar með fjölskyldum okkar í Möðrufell 5. Vinátta sem þar hófst hjá okkur, stóð hrein og tær fram á síðasta dag. Sigga var glæsileg og falleg kona sem enginn komst hjá að taka eftir, alltaf var hún vel snyrt og klædd og hugsaði vel um útlit sitt, heimili og fjölskyldu. Minningarnar eru ótal margar bæði í gleði og sorg en þannig er lífið. Hún var söngelsk mjög og spilaði á gítar, hljómborð og harmoníku ef svo bar undir. Við áttum það nú til að taka lagið og syngja saman af hjartans lyst í eldhúsinu hennar eða mínu. Stundum kannski of lengi frameftir, og stundum kannski of hátt, og þá var kvartað, en alltaf í góðu. Margt brölluðum við saman í gegnum árin og oft var hlegið dátt eftir á. "Hvað skyldi ykkur detta í hug að gera næst?" sagði maðurinn minn oft á tíðum. Við vorum með rautt veggfóður á holinu hjá okkur og eitt kvöldið fór ég eitthvað að tala um hvað ég væri orðin leið á þessu rauða, rauða veggfóðri. Þá sagði mín: "Elsku Della mín, rífum það bara af" og það var gert á stundinni og ekki var látið þar við sitja, heldur sótt málning í geymsluna og holið málað hvítt og fórum við alsælar að sofa undir morgun ánægðar með næturverkið. Ekki var minn maður eins ánægður og við Sigga þegar hann kom fram næsta morgun. Hann greip um höfuðið og starði í forundran á þessa hörmung sem blasti við honum í dagsbirtunni, en ýmislegt hafði farið fram hjá okkur Siggu um nóttina og langan tíma tók að skafa og laga þetta eftir okkur. En þetta atvik situr í okkur eins og það hefði gerst í gær og mikið búið að hlæja að þessu og öðru sem okkur datt í hug að gera og framkvæmdum. Það var gleðidagur þann 3. apríl 1982 þegar Sigga opnaði tískuverslunina Rítu sem hún rak með dugnaði og eljusemi í 15 ár og var haldið veglega upp á afmælið í apríl sl., en síðla sumars seldi hún hana vegna veikinda sinna. En sorgin knúði dyra. Árið 1983 missti Sigga fyrrum manninn sinn og stóð hún þá ein eftir með þrjú börn aðeins 38 ára gömul. En hún lét ekki bugast, lífið hélt áfram.

Skömmu síðar endurnýjuðust kynni hennar við gamlan skólabróður, Benedikt Benediktson, sem þá var líka búinn að ganga í gegnum þá sorg að missa maka sinn. Þau hófu sambúð og ástin blómstraði, betri og ástríkari mann hefði hún aldrei geta fengið. Sumarbústað í Borgarfirði eiga þau og var það þeirra paradís. Sigga sagði oft: "Ég þarf ekki til sólarlanda, ég fer frekar upp í bústað og verð þar". Sumarbústaðatalið og heimsóknir okkar uppeftir til þeirra smituðu út frá sér og þegar okkur bauðst land í næsta nágrenni við þau, hvöttu þau okkur eindregið til að taka það og buðu fram alla sína aðstoð. Það var úr, landið tókum við og byrjuðum að reisa, í dag stendur þar háreistur og fallegur bústaður sem okkur finnst að Sigga og Benni eigi ekki síðri hlut að en við. Frá þeim fengum við fyrstu gjafirnar í bústaðinn, stálskálina góðu "til að halda grilluðu kartöflunum lengur heitum, elskan", nú svo kom nýtt grill og sóltjald "þið verðið að hafa skjól á pallinum, annað dugar ekki" og síðast en ekki síst Flóra Íslands innrömmuð og falleg sem var hengd upp með viðhöfn að þeim báðum viðstöddum. Hjá þeim gistum við og bjuggum meðan verið var að reisa og loka, okkur var afhentur lykill og nota máttum við bústaðinn þeirra að vild og var hann óspart notaður þegar nánast öll fjölskyldan var upp frá að hjálpa til, þetta ber að þakka.

Í Borgarfirðinum áttum við yndislegar stundir saman sem aldrei gleymast og þar var sungið á björtum sumarnóttum, farið í heita pottinn og sungið meira. En nú er söngur hennar hljóðnaður að eilífu. Árið 1991 greindist Sigga mín með þann sjúkdóm sem að lokum felldi hana. Með æðruleysi tókst hún á við hann og bugaðist ekki. Viðkvæðið hjá henni var "Ég er búin að eiga svo mörg yndisleg ár með Benna mínum og fyrir það þakka ég Guði" og sannarlega voru árin þeirra góð. Þau ferðuðust mikið um landið og nutu lífsins og Benni dekraði við dúlluna sína á allan máta og bar hana á höndum sér. Sigga mín lést á heimili sínu, umvafin ást og kærleika sinna nánustu, og veit ég að eins vel hefur verið tekið á móti henni hinum megin og hún var kvödd hér. Elsku Sigga mín, ég kveð þig eins og við kvöddum gjarnan hvor aðra: "I love you ástin mín og Guð veri með þér".

Aldraðri móður, elsku Benna, börnum Siggu, barnabörnum, tengdabörnum og systkinum hennar vottum við okkar dýpstu samúð og biðjum ykkur Guðs blessunar.

Elín Pétursdóttir (Della), Kristján Baldursson, synir og fjölskyldur þeirra.