Halla Einarsdóttir Hún var svo sannarlega mikil kona. Nú hefur hún kvatt okkur. Tilbúin að kveðja nærri 95 ára að aldri. Löngu og farsælu lífi er lokið hjá þessari góðu konu. Öllum er Höllu kynntust varð hún minnisstæð. Hún varð góð vinkona okkar, þótt áratugir skildu að í aldri. Við vorum tvær litlar fimm ára hnátur, dóttir Höllu og ég, sem hittust á leið í Ísaksskóla í fyrsta sinn fyrir ótal mörgum árum. Báðar áttum við heimili í nánd við Skólavörðuholtið. Bryndís var brosmild og ljúf eins og hún er ennþá. Móðir hennar varð fljótt einnig vinkona okkar. Halla var bráðgreind og skemmtileg kona, sem sópaði að. Hún átti sinn bíl sem hún ók um á eins og drottning. Það þótti okkur vinkonunum mikið til um og "flott". Hún var á ýmsan hátt á undan sinni samtíð. Þegar konur höfðu sig lítt í frammi stóð Halla venjulega upp í fjölskylduboðum og stórum samkvæmum, mælti nokkur orð sem urðu viðstöddum minnisstæð. Halla er mér sérstaklega minnisstæð frá sérstöku "dömuboði" sem við báðar tókum þátt í hjá sameiginlegri kunningjakonu. Þar sagði hún á sinn skemmtilega máta kímnisögur, sem okkur yngri konum fannst talsvert til um, sérstaklega af vörum eldri dömu. Halla var sem drottning í sinni góðu fjölskyldu. Henni var hún afar góð og fjölskyldan mat hana mikils og virti. Vert er að minnast vina hennar á Leifsgötunni. Leigjendur í húsi hennar á Leifsgötu 14 urðu einnig góðir vinir hennar. Svo góðir vinir að þeir fylgdu henni nánast í öll meiriháttar fjölskylduboð og jafnvel fjölskyldur þeirra líka. Fram á síðasta dag heimsótti hún þessa vini sína í kirkjugarðinn og sinnti þeim jafnvel eftir að þeir voru farnir. Aðdáunarvert var að sjá hversu vel hún fylgdist með öllu sínu ættfólki, bæði stórum og smáum. Minnið ótrúlegt og við hvert tilefni naut hún þess að vera góð við fjölskyldu sína og aðra, enda uppskar Halla eins og hún sáði. Fjölskylda hennar þreyttist aldrei á að sinna henni og heimsækja og voru þar fremst í flokki dætur hennar tvær Bryndís og Svava svo ekki sé minnst á tengdasynina Jón Þór og Ólaf. Við heimsóttum í haust sem oftar vinkonu okkar Höllu á Dalbrautarheimilið, tvær skólasystur Bryndísar. Halla fannst ekki fyrr en eftir nokkra leit. Hún hafði farið að líta eftir nýrri vistkonu, sem hún hafði áhyggjur af, sú hafði ekki komið til hádegisverðar. Halla var sem áður. Fór til að sinna þessari konu og hafa ofan af fyrir henni. Slík var hún og henni þótti þetta sjálfsagt. Smástund grínuðumst við hjá Höllu yfir smá sérrýdropum. Það var í síðasta sinn, sem fundum okkur bar saman. Guð geymi Höllu Einarsdóttur, blessi hana og fjölskyldu hennar alla.

Edda Sigrún Ólafsdóttir.