Hjálmar Ragnar Hjálmarsson Fyrstu kynni okkar Ragnars voru þegar ég var barn, aðeins rúmlega eins árs. Þá komuð þið og fenguð mig lánaða í hálft ár, vegna þess að þið voruð ekki búin að komast yfir sorgina vegna andláts frumburðar ykkar. Seinna fæddust ykkur fimm dásamlegir synir, sem allir lærðu hjá þér og vinna við fyrirtækið ykkar, Kamb hf.

Elsku frændi, frá þeirri stundu þegar ég var hjá þér bundumst við sterkum böndum ævilangt. Þú varst ávallt svo einlægur og hjálpsamur. Ég á svo margar yndislegar minningar, þær sem fyrst koma upp í hugann eru þegar þú komst norður í heimsókn með fjölskylduna þína, þá var glatt á hjalla. Einnig vikan sem þið Pranon voruð hérna að vinna hjá mér. Það var svo gaman að sjá þig vinna. Þú varst svo glaður, kappsfullur og nákvæmur við þitt fag. Húsasmíðar lærðir þú aðeins 18 ára gamall hjá Skarphéðni Pálssyni frá Gili, föðurbróður þínum, og vannst við þá iðn alla tíð. Þú áttir hlut í sumarbústað norður í Skagafirði, en það er Kambur, æskuheimili ykkar systkinanna, áttir þú þar bestu stundir ævi þinnar. Þar gastu sinnt áhugamáli þínu, veiðinni, og varst þú mjög fiskinn. Þú áttir fleiri áhugamál, þá vil ég nefna brids, þú kepptir oft á mótum.

Hestamennskan var líf þitt og yndi og áttir þú marga góða reiðhesta. Lífsgleði þín var einstök og er það mjög mikið áfall fyrir alla að þú skyldir deyja svo fljótt.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.) Elsku Pranon, Siggi, Halli, Hössi, Hörður, Raggi og eiginkonur ykkar, börn og allir aðrir ættingjar, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Guð veri með ykkur.

Guðrún Hjálmdís Hjálmars-

dóttir og fjölskylda.