Sigríður Kristófersdóttir

Með nokkkrum orðum langar mig að kveðja mágkonu mína Sigríði Kristófersdóttur. Sigga var alla tíð mjög hrein og bein og ekkert gefið um óþarfa blaður eða skjall sem ekki kom beint frá hjartanu. Hún kvaddi sjálf fólk án mikilla umbúða eða með óþarfa faguryrðum og þannig vildi hún eflaust að hún sjálf yrði kvödd í hinsta sinn.

Við það skal reynt að standa, en erfitt er að kveðja þessa miklu sómakonu án þess að hafa um hana fjölmörg fögur orð. Hún var í fáum orðum sagt stórkostleg kona - móðir - amma - vinur og félagi. Það vita allir sem kynntust henni á lífsleiðinni. Siggu sá ég fyrst fyrir um 35 árum þegar ég kom í heimsókn til systur hennar Nönnu á Nýlendugötu 15 a. "Hver ert þú og hvað ert þú að gera hér?" spurði hún. Ég náði nú ekki að svara spurningunni því hún var rokin á stað. Hún var þá unglingur í Gaggó Vest og hafði þá strax um sig mikla hjörð fjörugra félaga. Hún var potturinn og pannan í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, og gekk þar mikið á og uppátækin ótrúleg.

Hún fór ekki neinar troðnar slóðir á þeim tímum. En þegar hún óx úr grasi og öll alvara lífsins tók við eins og að fara út á vinnumarkaðinn, stofna heimili og ala upp þrjú mannvænleg börn, var hún á réttum stað og skilaði því hlutverki með miklum glæsibrag eins og öllu öðru sem hún tók sér fyrir hendur um dagana.

Sigga var ung þegar eiginmaður hennar Ásgeir Berg Úlfarsson féll frá. Þá var hún með þrjú börn á skólaaldri og hafði nýlega opnað Tískuverslunina Rítu í Eddufelli. Ekki gafst mín kona upp þótt á móti blési. Hún hélt ótrauð áfram. Kom börnunum á legg og rak verslunina sína áfram af miklum dugnaði og eljusemi. Það var ekki fyrr en nú í haust, þegar séð í hvert stefndi, að hún sleppti stjórnartaumunum af búðinni sinni og seldi hana. Þá hafði hún rekið hana í 15 ár.

Hamingjan bankaði á dyrnar hjá Siggu þegar hún fyrir nokkrum árum hóf búskap með skólabróður sínum úr Miðbæjarbarnaskólanum, Benedikt Benediktsyni. Þau höfðu bæði misst maka sína nokkru áður. En forlögin komu þeim saman og mikil var hamingja þeirra. Þau voru nánast óaðskiljanleg og máttu helst ekki hvort af öðru sjá.

Í Reykjavík áttu þau heimili að Möðrufelli 5, en í Borgarfirðinum byggðu þau saman sitt draumahús. Það var þeirra líf og yndi að dvelja þar og dytta að húsi og vinna í landinu. Það var hægt að ganga að þeim vísum þar nær allar helgar nánast árið um í kring. Á sumrin var ekki sleppt úr degi ef hægt var. Gestagangurinn var þar jafnan mikill enda naut fólk þess að koma til þeirra í heimsókn. Hápunktur slíkra heimsókna var þegar húsfreyjan tók upp gítarinn sinn og hóf að spila og syngja. Þá var kátt í höllinni fögru í Borgarfirði. Það verður nú tómlegt þar eins og víða þar sem Siggga var og fór um. Hennar verður sárt saknað af aldraðri móður, börnum, barnabörnum og fjölmörgum vinum og systkinum. Sárastur verður missirinn þó ástvininum góða, honum Benna. Hún var honum allt og hann var henni allt. Hann vék ekki frá henni í veikindum hennar svo dögum skipti og gaf henni alla sína umhyggju og ást. Það veit ég að Sigga hefur vitað um allt þar til lífslogi hennar slokknaði.

Ég hefði viljað kveðja þessa mágkonu mína á annan hátt en með nokkrum orðum á blaði. Hefði viljað þakka fyrir mig og mína, og þá sérstaklega fyrir konuna mína og systur hennar. Hún var henni mikill vinur og félagi. Þær töluðust við oft á dag og á þeirra vináttu féll aldrei skuggi.

Vegna starfa minna erlendis get ég ekki fylgt þessari elskulegu mágkonu til grafar í dag. Ég kveð hana með söknuði eins og allir þeir sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga hana sem félaga og vin á lífsleiðinni.

Vertu sæl vinkona.

Kjartan L. Pálsson.