Halla Einarsdóttir Látin er í hárri elli elskuleg tengdamóðir mín, Halla Einarsdóttir. Hún hafði upplifað meira en flestir núlifandi Íslendingar á sinni löngu ævi. Hún hafði kynnst fátæktinni, framförunum og öllum þeim stórstígu breytingum sem hafa orðið á högum fólks á þessari öld. Hún kunni vel að meta þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu en var jafnframt mjög gagnrýnin á það að ekki væri verið að færa of mörgum allt of mikið án þess að þeim bæri það.

Hún var fluggreind, hafði sérstaklega gott minni og fram á síðasta dag rakti hún bernskuminningar sínar fyrir börnum okkar í litríkri og sannfærandi frásögn sem lýsti þeim aðstæðum sem voru ríkjandi þegar hún sem barn var að vaxa úr grasi. Unga fólkinu fannst það ótrúlegt og torskilið þegar hún sagði frá því að þegar hún gekk til spurninga hjá prestinum þá tók hún af sér sauðskinnsskóna og gekk berfætt yfir verstu melana til þess að spara skóna. Hún hafði fjöldann allan af spakmælum á hraðbergi sem unga fólkinu fannst torskilin í fyrstu, en lærði fljótt að skilja og tileinka sér.

Samband hennar við alla sína afkomendur var einstakt enda var hún alla tíð óaðskiljanlegur hluti af fjölskyldum okkar. Hún fylgdist með gengi hvers og eins og fagnaði hverjum áfanga sem náðist, mundi alla afmælisdaga og annað sem skipti máli og var hrókur alls fagnaðar í hvert skipti sem eitthvað var gert sér til gamans og auðgaði líf okkar með jákvæðu hugarfari, góðu fordæmi til eftirbreytni.

Hún lét sér annt um fleiri en sína nánustu. Það voru ófáir sem fengu að gista á Leifsgötu 14 og jafnvel óviðkomandi sjúkt fólk tók hún inn á heimili sitt til lengri dvalar og rýmdi þá bara stofuna.

Hún hafði sérstaka hæfileika til þess að laga sig að aðstæðunum eins og þær bar að höndum á hverjum tíma, bæði í gleði og sorg. Það var t.d. ótrúlegt að fylgjast með henni þegar hún fór í nokkur skipti með okkur og börnunum í sólarlandaferðir á gamals aldri. Hún tók þátt í flestu sem fram fór en fór líka ein sinna ferða til þess að skoða næsta umhverfi og setjast niður á nálægum bar til þess að tala við fólk og njóta lífsins.

Halla var sérstaklega vel máli farin og átti auðvelt með að tjá sig hvar sem var, hvort heldur var í fjölmenni eða í einkasamræðum. Hún hafði mjög ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og þar þokaði henni enginn frá þeim málstað sem hún taldi réttan enda ekki í vandræðum með að rökstyðja sitt mál.

Trúarlíf hennar var hreint og svo eðlilegur hluti af hennar lífi alla tíð. Það hafði aldrei borið skugga á hennar barnatrú og fullvissa hennar um endurfundi og annað líf fór ekki á milli mála. Hún beið örugg síns vitjunartíma í þeirri fullvissu sem trúin bauð henni og ekki er ég grunlaus um að hún vissi að hverju stefndi síðustu dagana þótt enginn sæi ástæðu til þess að álíta að kallið væri svo skammt undan.

Síðustu fimm árin átti Halla heimili sitt á Dalbraut 27 og naut þess einstaklega vel að búa þar innan um jafningja og marga sérstaka vini sem hún eignaðist þar. Þessum vinum hennar og svo öllu starfsfólki vil ég fyrir hennar hönd færa alúðarþakkir fyrir vináttuna og umhyggjuna sem hún varð þar aðnjótandi og mat svo mikils.

Á bak við búning þessara fátæklegu kveðjuorða minna til mjög einstaks vinar, eru duldar hugsanir og tilfinningar sem ekki er auðvelt að setja á blað, en hæst gnæfir minningin um góða og vammlausa manneskju sem gekk sinn lífsins æviveg hljóð en með mikilli reisn og vildi hverjum manni vel gera.

Ég bið góðan guð að leiða og blessa Höllu mína í sinni hinstu för og veit að hann lýsir henni leiðina til endurfunda við þá sem henni voru kærastir. Hvíli hún í friði.

Jón Þór Jóhannsson.