Halla Einarsdóttir Fallin er í valinn aldurhnigin heiðurskona. Mig langar í örfáum orðum að minnast vinkonu minnar Höllu Einarsdóttur, sem er látin.

Mér finnst eins og hún hafi heitið "Halla mín" því hún var kölluð það af öllum þeim sem henni kynntust. Minningarnar hrannast upp. Ég veit að það væri ekki í anda hennar að skrifa einhverja lofgjörð, en ég ætla samt að rifja upp örfá brot, því af nógu er að taka. Þó aldursmunurinn hafi verið þó nokkur, hélst vinskapurinn frá því ég man eftir mér, eða í tæp sextíu ár. Við áttum báðar heima á Leifsgötunni, ég hjá foreldrum mínum á nr. 12, en hún með sína fjölskyldu á nr. 14. Eiginmaður hennar hét Þorleifur Sigurbrandsson, mikill öðlingur. Hann lést árið 1971. Þau áttu tvær dætur, Svövu og Bryndísi Dóru, eða Binnu eins og hún er kölluð. Við Binna urðum strax bestu vinkonur, enda á sama aldri og helst sú vinátta enn. Halla mín var ákaflega jákvæð kona, sá alltaf björtu hliðarnar, hún var glaðsinna og átti stóran vinahóp. ­ Ekkert kynslóðabil ­ og kæmi mér ekki á óvart að barnabörnin hennar hafi átt hana að trúnaðarvin. Með vináttu okkar Binnu myndaðist fljótt mikill vinskapur milli Höllu og foreldra minna og reyndist Halla mín okkur góður nágranni. Á þessum árum var oft komið saman og málin rædd ­ allt milli himins og jarðar. Þá var einhvern veginn alltaf tími til samvista, og vinskapurinn hélst áfram. Þegar ég svo missti móður mína árið 1966, var Halla mín strax komin til að aðstoða okkur og reyndist hún föður mínum stoð og stytta allt þar til hann lést árið 1984. Alltaf var Halla mín sú sama. Hún var svo sannarlega mikill vinur og velgjörðarmaður. Þegar við hjónin hófum húsbyggingu á tímum gengisbreytinga á árunum 1967-68, var Halla mín enn og aftur tilbúin að rétta hjálparhönd. Einhverju sinni kom hún ótilkvödd, rétti okkur peninga og spurði hvort við gætum nú ekki bjargað einhverju áður en allt hækkaði, við gætum svo bara borgað til baka þegar fjárhagurinn lagaðist. Svona var Halla mín í öllum sínum verkum, alltaf boðin og búin. Vináttu hennar mun ég aldrei gleyma. Árin liðu, Halla mín var vel ern og fylgdist vel með, hún bar hag barna minna fyrir brjósti, sem og annarra og nú síðast barnabarna minna. Ég vil að leiðarlokum þakka henni samfylgdina og votta dætrum hennar, Svövu og Binnu, svo og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Halla mín, hafðu þökk fyrir allt og allt. Blessuð sé minning þín. Dóra Hlíðberg.