Sigríður Kristófersdóttir Það var sumarið 1962 að við fimm stelpur réðum okkur sem fóstrur að barnaheimili austur í sveit. Þar tengdumst við þeim vináttuböndum sem hafa varað síðan. Þá vorum við ungar og bjartsýnar og áttum lífið framundan. Ein var sú sem strax fór fyrir hópnum. Það er okkar kæra vinkona sem við kveðjum nú í dag. Sigga var lífsglöð, hæfileikarík og einstaklega músíkölsk. Hún virkjaði okkur fljótlega á því sviði, kenndi okkur mörg sönglögin og textana og spilaði undir á gítar og það var föst venja að syngja saman er við hittumst. Eftir því sem árin liðu styrktist vinátta okkar. Margar góðar minningar eigum við í gegnum tíðina. Með miklu þakklæti lítum við til baka og rifjum upp enda er af nógu að taka. Allar samverustundirnar, matarboðin og um fram allt árlegar haustferðir í sumarbústað að ógleymdri utanlandsferð okkar. Það var gott að hafa hver aðra hvort sem var til að gleðjast eða gráta og létta á hjartanu. Við vorum ekki alltaf sammála en það varð aðeins til að skerpa sambandið og sýna okkur hvers virði við vorum hver annarri.

Tíminn leið, við tók lífsins gangur svo sem börn og bú. Sigga giftist ung að árum Ásgeiri Berg Úlfarssyni, miklum ágætis og dugnaðarmanni, sem lést um aldur fram. Eignuðust þau þrjú mannvænleg börn sem hún var afskaplega ánægð með. Einnig góð tengdabörn, að ógleymdum öllum barnabörnunum sem hún sagði okkur oft sögur af og ljómaði af stolti.

Sigga var afskaplega létt í lund, gefandi og jákvæð manneskja enda var alltaf glatt á hjalla í kringum hana. Fólk laðaðist að henni enda hafði hún einhvern sérstakan kraft og útgeislun og hafði alltaf tíma fyrir aðra. Í 15 ár rak hún sína eigin verslun, átti marga trygga viðskiptavini og er ekki að efa að persónutöfrar Siggu hafi átt þátt í því hve vinsæl sú verslun var.

Sigga fór ekki varhluta af erfiðleikum og sorg í lífinu, en aftur birti. Það var þegar hún hitti Benna sinn. Benedikt Benediktsson var seinni maður hennar. Þvílík hamingja og hvað það var yndislegt að fylgjast með þeim og hvernig þau kunnu að njóta lífsins. Enda er hann greiðvikinn og hlýr og alltaf var okkur innilega fagnað hvenær sem við hittumst. Sigga og Benni höfðu unnið undanfarin ár við að byggja sér sumarbústað, sannkallaðan unaðsreit þar sem þau undu sér vel og það var gott að heimsækja þau þangað.

Fyrir nokkrum árum kom upp sá sjúkdómur sem hefur nú borið hana ofurliði. Barðist hún hetjulega við þann sjúkdóm og sýndi ótrúlegan styrk. Hún stóð ekki ein því Benni og fjölskyldan studdu hana á allan hátt. Það var einstakt að fylgjast með umhyggju Benna og umönnun, sérstaklega síðustu mánuðina.

Við þökkum Siggu fyrir samfylgdina og vináttuna í gegnum árin. Við héldum reyndar alltaf að við myndum eldast saman en ekkert er sjálfgefið. Siggu verður sárt saknað úr hópnum.

Elsku Benna sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur, móður hennar og börnunum og fjölskyldum þeirra.

Ásta, Margrét, Sjöfn og Kolbrún.