Halla Einarsdóttir Elsku amma.

Óbilandi áhugi þinn á mönnum og málefnum gerði það að verkum að þú hafðir mikla ánægju af skoðanaskiptum og rökræðum. Frelsi einstaklingsins og "mennt er máttur" var lífsskoðun þín. Tækifæri til menntunar var það besta, sem þú gast óskað ungu fólki.

Áhuginn á fólki, hvort sem um var að ræða fjölskylduna eða aðra samfylgdarmenn var einatt til staðar. Þú vissir hvað allir voru að gera og hvattir fólk óspart til dáða. Alltaf var jafngaman að heimsækja þig, enda fékkst þú margar heimsóknir, og varst ánægð þegar einhver kom og ræddi við þig um heima og geima. Þú hafðir skoðanir á öllu og varst hissa ef gesturinn hafði ekki eitthvað til málanna að leggja. "Hvað? Fylgistu ekkert með stelpa!" áttirðu til að segja, þegar ég var ekki með á nótunum.

Þú varst hrókur alls fagnaðar og vildir alltaf vera með þegar eitthvað stóð til í fjölskyldunni. Fljót að þiggja boð, hvort sem var í veislur eða aðrar uppákomur. Orðatiltækin þín voru óþrjótandi. Þegar við ræddum um aldur og heilsu var eitt af því síðasta, sem þú sagðir við mig: "Maður gefur sér það bara ekki eftir," og áttir þá við að maður lifir lífinu lifandi og leggst ekki í kör fyrr en í fulla hnefana.

Þrátt fyrir háan aldur fannst þér þú vera ung og aðeins síðustu misserin samþykktirðu að þetta væri orðinn nokkuð hár aldur og að skrokkurinn væri aðeins farinn að gefa sig.

En hugsunin var alltaf kristalskýr og fannst þér það hið versta mál að verða kannski ósjálfbjarga og að toppstykkið færi að gefa sig. Þannig fékkstu að fara eins og þú hefðir helst kosið. Þú kvaddir með sömu reisn og einkenndi allt þitt líf.

Takk fyrir allt og allt, elsku amma. Hvíl í friði.

Halla.