Halla Einarsdóttir Viska manns er guða gjöf,

göfugu hjarta borin, ­

fylgir honum fram að gröf,

fyrnast aldrei sporin.

(Steingrímur Davíðsson.) Elsku Halla er látin tæplega 95 ára. Þótt við vitum öll að ferð okkar hér hefur bæði upphaf og endi kemur endirinn okkur ávallt jafn mikið á óvart.

Með sterkum persónuleika settir þú svip á líf þeirra sem þig þekktu, samskipti við þig gáfu bæði gleði og hlýju. Við ræddum oft um hinar margbreytilegu hliðar mannlífsins og þar hafðir þú þínar fastmótuðu skoðanir, enda fylgdist þú alltaf mjög vel með. Við minnumst margra góðra stunda sem við áttum saman með söknuði og gleði. Að lokum viljum við þakka þér fyrir alla þá góðvild og tryggð sem þú hefur sýnt okkur og okkar fjölskyldu í gegnum árin.

Blessuð sé minning þín. Elsku Binna, Svava og fjölskyldur ykkar, sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur.

Bognar fjalla brákuð eik,

búin falli verjan.

"Ellin hallar öllum leik."

Á mig kallar ferjan.

(Steingrímur Davíðsson.) Olga og Ragnar.