ÞUNNAR glóandi eldsúlur stóðu upp af 150­200 m langri sprungunni í Helgafelli á nær samfelldri gígaröð frá enda flugbrautarinnar og niður að sjó utan við höfnina, þegar Morgunblaðsmenn flugu inn yfir Vestmannaeyjar klukkan rúmlega þrjú með

Aldarfjórðungur

frá Eyjagosi

Eldgos í Heimaey stóð yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 23. janúar 1973. Laust fyrir kl. tvö um nóttina hófst fyrsta eldgos á Íslandi í þéttbýli og í fyrsta sinn sást jörðin beinlínis opnast. Undir hádegi kom út 12 síðna aukablað með myndum og frásögnum blaðamanna um athafnabæ í eldbjarma kukkutíma síðar og um 4.000 íbúa flýjandi á bátum. Elín Pálmadóttir rifjar hér upp þessa ógnvænlegu nótt fyrir 25 árum og gosið 155 daga á eftir.

ÞUNNAR glóandi eldsúlur stóðu upp af 150­200 m langri sprungunni í Helgafelli á nær sam felldri gígaröð frá enda flugbrautarinnar og niður að sjó utan við höfnina, þegar Morgunblaðsmenn flugu inn yfir Vestmannaeyjar klukkan rúmlega þrjú með annarri af tveimur fyrstu smáflugvélunum sem lentu þrátt fyrir aðvörun frá flugturninum um að nú færi að slettast yfir enda brautarinnar. Gátu því tekið ófrískar konur og gamalmenni með til lands. Bærinn var baðaður rauðum bjarma frá eldunum. Sýnilega mikil umferð þar í heiðskíru veðri enda lá straumurinn niður að höfninni í bátana sem til allrar hamingju lágu inni. Höfðu komið inn undan óveðri daginn áður. Gossprungan teygði sig æ lengra. Áður en við fórum sást gufusúla þar sem 1.100 gráða heitt gosefnið kom í kaldan sjóinn skammt austan við bæinn og breiddi úr sér.

Þótt skelfileg væri var þessi sýn ægifögur. Upplýstir bátarnir sigldu út eins og perlur á bandi í heiðskíru veðri. Sáust sveigja fyrir gufuna við endann á sprungunni, hlaðnir fólki sem umsvifalaust hafði yfirgefið allt sitt til að leggja í þessa 4 klst. sjóferð til Þorlákshafnar. Ef sprungan héldi áfram að lengjast út í sjó mátti búast við gjóskufalli og úr lofti að sjá var sem leiðin út úr höfninni gæti jafnvel lokast fyrr en varði. Þessum stundum gleymir enginn sem upplifði atburðinn. Í þessu hrikalega eldgosi í 5.000 manna bæ mátti þó segja að færi í bland einstakt lán. Veðrið sem hafði dottið niður síðdegis þennan sama dag, allir bátar í höfn, ekki byrjað öskufall fyrstu 3 klukkutímana og annar endi sprungunnar, þar sem land var að rifna, stöðvaðist þar sem hún kom í sjó og hinn lá 150­200 metra frá flugbrautarendanum. Um morguninn gátu því stærri vélar lent og hægt var að flytja 600­800 manns, sjúklinga, aldraða og veikburða í land flugleiðis.

Stilling og æðruleysi

Með ótrúlega skjótum hætti var mikill hluti Vestmannaeyinga kominn á þremur klukkustundum af stað til lands. Æ síðan hefur verið rómuð sú stilling og hugrekki sem íbúarnir sýndu þessa nótt. Jafnvel tekið svo sterkt til orða erlendis að slíkt hefði hvergi annars staðar getað gerst. Viðbrögð almannavarna og allt skipulag þessa nótt var frábært. Þegar bátarnir komu til Þorlákshafnar, lögðu þeir að, losuðu og viku fyrir næsta báti. Á bryggjunni tóku á móti fólkinu sjálfboðaliðar frá slysavarnadeildum, flugbjörgunarsveitum, hjálparsveitum og læknar frá Reykjavík, Hveragerði og Selfossi. Og þar biðu langferðabílar og strætisvagnar, sem fluttu fólkið, slæpt og jafnvel sjóveikt, margt með börn, yfir Hellisheiðina í barnaskólana í Reykjavík, þar sem sjálfboðaliðar m.a. úr Hótel- og veitingaskólanum biðu með hressingu. En brátt hafði fólkið dreifst út um bæinn með ættingjum og vinum. Þegar undirrituð nýlega reyndi að lýsa þessu úti í Vestmannaeyjum í bandarískum sjónvarpsþætti í tilefni 25 ára afmælis Vestmannaeyjagossins, ætluðu sjónvarpsmennirnir varla að trúa sínum eyrum og margþýfguðu um þessar lýsingar á æðruleysi fólksins og viðbrögðum.

Þegar litið er til baka og talað um heppni má í raun bæta við hvílíkt lán það var að ekki urðu stórslys og enginn beið bana í þessum ógnarlegu hamförum öllum. Þegar undirritaður blaðamaður kom út í eyjar aftur að kvöldi annars dags hafði öskufallið þakið götur og hús, allt var orðið svart og brennisteinsfnykur yfir. Í Vestmannaeyjum voru 1.345 íbúðarhús við gos og strax á fyrsta degi voru 40­50 þeirra austur á eynni í hættu. Bátarnir voru að koma til baka aftur til að sækja veiðarfæri og dót. Breiður af bílum Eyjabúa biðu þaktar ösku á bryggjunum. Og skip voru væntanleg til að bjarga fiskinum. Gosið var enn öflugt og hraunrennsli, en að hætti slíkra gosa hafði sprungan styst og var farin að dragast saman í aðalgíginn í Eldfjallinu. Glóandi kvikustrókur þeyttist upp í loftið og hraunið hafði sprengt sér leið úr gígkvosinni. Hraunruðningur mjakaðist í átt til Kirkjubæjar og næstu húsa.

Mikla gjóskuhríð gerði yfir bæinn fimmtudaginn 25. janúar og aftur laugardaginn 27. janúar. Rigndi þá molum svo björgunarmenn urðu að hörfa. En þessa fyrstu daga voru ekki nema 40­50 manns í bænum, fólki bannað að koma aftur út, til angurs Eyjafólki í landi, sem átti allt sitt þarna úti. En þessir menn mynduðu nú 4­5 manna björgunarsveitir og gengu skipulega í húsin sem voru í mestri hættu að fara undir, flest ný hús, til að bjarga einhverjum eigum og húsmunum fjarstaddra nágranna, en létu af ósérplægni sitt eigið lönd og leið. Reynir Guðsteinsson skólastjóri var sjálfkjörinn stjórnandi og allt dót var flutt merkt í Barnaskólann. Í kennarastofunni var hægt að hita kaffi, sem mennirnir gleyptu í sig með bakkelsinu úr frystikistunum, áður en þeir héldu aftur út í nóttina. Þar sem ekki var öðrum kvenpeningi til að dreifa reyndi undirrituð að gagnast við kaffiuppáhellinginn í þessari miðstöð þegar færi gafst og búið að senda fréttir á kvöldin. Og dáðist að þessum baráttuanda og sleitulausri ósérhlífni úrvinda manna. Heitur matur var öllum boðinn einu sinni á dag í Ísfélagi Vestmannaeyja. Slökkviliðsmenn voru á þönum til að bjarga því sem bjargað yrði þegar glóandi gjóskumolar þeyttust inn um glugga og kveiktu í gluggatjöldum. En aðrir voru að skipa út fiski og hafa áhyggjur vatni, rafmagni og jafnvel að höfnin lokaðist. Og jarðvísindamenn voru á þönum.

Grafið í gjósku

Þegar vindáttin, sem hafði verið hagstæð, breyttist á þriðja degi með öskufalli var undirritaður fréttamaður rétt lagstur fyrir undir rjáfri á Hótel Bergi. Hótelhaldarinn, Sigurður Karlsson, hafði boðið herbergi sem sneri út að gosi, sem var baðað rauðum bjarma, og nú buldi gjallið á bárujárnsþekjunni. Skömmu seinna komu tveir frændur hans, sem voru að reyna að bjarga úr sínum húsum, og flúðu undan gjóskuregninu. Um morguninn var illfært út fyrir öskusköflum við hurðina. Lag af ösku lá yfir öllu og hús brunnin austast í bænum. En í lok janúar munu um 112 hús hafa verið brunnin eða grafin í vikur og gjósku. Eftir aðalhrinuna á föstudagsnótt voru götur rauðglóandi er blaðamaður hélt til kaffihitunar upp í barnaskóla síðdegis á laugardag, eftir að hafa næstum í sturtubaðinu á Hótel Bergi fengið í höfuðið gjóskustein inn um þakgluggann. Á sunnudeginum komu sjálfboðaliðar úr landi, m.a. 100 trésmiðir, sem á næstu dögum settu stoðir undir þök sem voru að sligast undan öskunni og negldu fyrir glugga sem sneru að gosi. Það bjargaði miklu.

Eitt af því sem í gosinu olli ugg hjá þeim sem voru úti í Eyjum var gaseitrun, sem þekkt er t.d. úr Heklugosum. Koltvísýringur sem myndast er einum og hálfum sinnum eðlisþyngri en venjulegt andrúmsloft og gat því leynst í lægðum og kjöllurum. Þegar komið var fram í febrúar mátti sjá útblástur bifreiða liggja ofan á gasinu eins og þráð, en það var ósýnilegt og mönnum tekinn vari fyrir að beygja sig niður úti. Var um tíma nokkurs kolsýrings vart, sem fólki gat orðið illt af. 17. febrúar var auglýst hættusvæði af þeim sökum. Eitt banaslys varð af þessu síðar í gosinu er maður fór einn og óséður ofan í kjallara. En yfirleitt var auðvelt að varast þetta.

Skelfileg eyðilegging

Eftir fyrstu vikuna var ástandið ekki gott. Mikill kraftur í hraunrennslinu og það stefndi á höfnina. Jarðýtur voru settar til að hlaða upp varnargörðum. Eldfjallið varð myndarleg keila, en þá tók vesturbarmur gígsins að skríða með tugum milljóna lesta af gosefnum í átt til bæjarins og hraunskriðan kaffærði hús. Eftir að hrundi úr gígbarminum 20. febrúar stóð upp úr hraunstraumnum um 70 m hár efnismassi og mátti sjá hvar hann sigldi í honum. Voru daglega fluttar fréttir af þessum svonefnda Flakkara, þar til hann á endanum stöðvaðist skammt frá kælda hraunjaðrinum í marslok. Annar minni hafði þá slegist í för.

Þetta var allt hrikalegt á að horfa. Skelfileg eyðilegging blasti við og þegar komið var fram í mars æddi hraunflóð eftir heilum götum og sópaði húsunum af grunni á undan sér. Minnisstæða nótt stóðum við og horfðum á gamla þriggja hæða Hótel Berg rugga framan í hraunkantinum þar til það lét undan þrýstingnum og skall fram yfir bílskúrinn, sem Sigurður hótelhaldari hafði rétt nýlega farið inn í eftir járnbraut sonar síns og smeygt sér út um rifuna á hurðinni sem askan lagðist að. Þar held ég að maður hafi séð hurð skella næst hælum. Skammt frá voru menn í kappi að reyna að bjarga gömlum, dýrmætum vélum úr Vélskólanum. Gamla rafstöðvarhúsið gleyptu eldarnir og götuljósin slokknuðu. Allt svart utan hvað eldarnir lýstu upp. 27. mars brann Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og menn voru önnum kafnir við að flytja símstöðvarhúsið upp í Gagnfræðaskólann. Þessar myndir ber fyrir augu þegar gosdagar úti í Eyjum eru rifjaðir upp.

Hraunið kælt með sjó

Í marsmánuði var fyrir alvöru hafin tilraun með sjókælingu, sem dr. Þorbjörn Sigurgeirsson og fleiri höfðu trú á. Snemma í mars var sprautað úr dæluskipum á hraunjaðarinn austur af hafnargarðinum og margir töldu að tekist hefði að hnika til stefnu hraunsins, sem annars hefði runnið út í höfnina að austan. Ekki er undarlegt þótt þeim, sem horfðu á menn standandi með mjóa vatnsslöngu og pusa á 15­20 m háan glóandi hraunvegg er seig áfram, sýndist þetta æði óraunsætt. En aðferðin byggist á því að ná að kæla framhliðina úr 1.100 gráðum niður fyrir 700 gráður svo að hún storknaði og veitti fyrirstöðu, sem hraunelfan svo hrannaðist upp á bak við. Í mánaðarlokin komu loks með flugvél 40 bandarískar háþrýstidælur og slöngur, sem juku vatnskraftin um 50% og réðu úrslitum. 28. mars hljóðaði fréttin til Morgunblasins svo að nú stæðu fiskvinnsluhúsin ein á milli hraunsins og hafnarinnar. Hinn 31. mars stöðvaðist hraunstraumurinn loks þar sem hann gnæfði hátt og lá upp að horni Ísfélagshússins og Fiskiðjunnar. Milli línanna í fréttinni kl. 10 um kvöldið má lesa furðu þar sem segir að hraunveggurinn virðist raunverulega hafa verið stöðvaður, hafi myndað kaldan 15­20 m háan varnarvegg sem hlaði glóandi hrauninu upp að baki. Eftir gos mátti sjá þennan háa stirðnaða hraunkant þar sem hann hafði komið í sundið milli stóru fiskvinnsluhúsanna og þetta sýnilega undur mundi eflaust enn draga að ferðafólk á borð við píramídana, ef þessar minjar hefðu ekki verið hreinsaðar burt. Hvað um það, þetta var í fyrsta skipti sem hraunrennsli var stöðvað með vatni og vekur enn heimsathygli.

Fjaraði út

Þarna urðu þáttaskil. Úr því fjaraði gosið smám saman út. Stöðugt var fylgst með hraunrennslinu og loks sendi almannavarnanefnd 3. júlí frá sér tilkynningu um að gosvirkni í fellinu væri hætt. Gosið í Heimaey hafði þá staðið í 155 daga og myndað um ferkólómetra hraun á landi og 2,3 ferkílómetra í sjó, auk Eldfellsins, sem að lokum reis þarna 220 metra hátt.

GÍGARÖÐ á sprungu frá flugbrautarenda og út að sjó varpar bjarma á byggðina. Séð úr lofti klukkustund eftir að gosið hófst.

Morgunblaðið/Ól.K.Mag HRAUNSTRAUMURINN tekur húsin við Heimagötu, malar þau og grefur.

Morgunblaðið/Sigurgeir AUSTURBÆRINN að fara á kaf í byrjun mars.

Morgunblaðið/Sigurgeir Á ÞRIÐJA degi gossins gekk mikil hryðja yfir. Þegar blaðamaður Mbl. kom út um morguninn lá þykkt, svart gjóskulag yfir öllu og hús höfðu brunnið.

Morgunblaðið/Kr.Ben. BARIST við eldana með sjókælingu. Ekki náðist að bjarga Hraðfrystistöðinni en hraunveggurinn var stöðvaður við húsvegg Ísfélagsins og Fiskiðjunnar.

Morgunblaðið/Sigurgeir MEÐAN eldarnir grófu og gleyptu húsin reyndu björgunarmenn að bera út úr þeim húsum sem voru í mestri hættu.

Morgunblaðið/Sigurgeir