Þegar frétt um skyndilegt andlát berst leitar margt á hugann. Ósjálfrátt rifja menn upp margt úr fortíðinni sem ekki kemur upp í hugarheimi manna dags daglega. Ragnhildur lést fyrir aldur fram en hún átti að baki sér merka og við burðarríka ævi. Fyrsta minningin um hana er frá árinu 1953 þegarég fluttist ásamt foreldrum mínum til Hafnar í Hornafirði. Það var mikil spenna og óvissa í huganum þegar Herðubreið sigldi inn um Hornafjarðarós snemma morguns á björtum vordegi. Óvissan um það hvernig þessi nýi heimur liti út var vissulega mikil. Þá skipta móttökurnar og hlýhugurinn sem mætir mestu og slík stund líður ekki úr minni. Eiginmaður hennar, Kjartan Árnason, héraðslæknir, sem lést 21. maí 1978, tók á móti okkur á bryggjunni og keyrði okkur heim á heimili þeirra. Þar tók Ragna á móti okkur af miklum hlýhug og að sjálfsögðu var þar dekkað veisluborð eins og ávallt þegar hún tók á móti gestum. Það eru fleiri en ég sem eiga minningar um slíkar móttökur. Þau áttu einstaklega myndarlegt heimili þar sem sérhver hlutur og yfirbragð bar vott um hlýleika og snyrtimennsku. Heimilið bar einnig með sér virðuleika íslenskrar menningar og þjóðerniskenndar. Allir sem komu þar fengu móttökur sem ljúft er að minnast.

Kjartan heitinn Árnason gegndi erfiðu starfi í sínu læknishéraði. Því fylgdu endalaus ferðalög og oft þurftu sjúklingar að koma um langan veg til að finna hann. Samgöngur voru erfiðar og yfir mörg fljót að fara. Læknirinn og þeir sem komu til hans voru því oft hraktir og þreyttir. Þá kom í hlut Rögnu að taka á móti fólki og í sameiningu unnu þau mikið þrekvirki heima í héraði. Sjálfsagt vildi enginn gefa sig í slíkt í dag, en þau voru afkomendur þeirra kynslóðar sem bjó við erfið kjör í landinu og þótti sjálfsagt að leggja hart að sér. Það var til mikils ætlast af þeim og þegar litið er til baka má með sanni segja að þau hafi unnið miklu meira starf en hægt var að ætlast til. Austur-Skaftfellingar standa í mikilli þakkarskuld við þau hjónin og þá ekki síst fjölskylda mín. Það ríkti gagnkvæm vinátta milli foreldra minna og þeirra.

Þó að Kjartan sé látinn fyrir 8 árum þá er okkur enn tamt að tala um þau Rögnu saman. Það var mikið áfall fyrir hana þegar hann lést. Þau voru mjög samrýnd allt sitt líf og hans starf var hennar starf. Börnin voru farin að heiman m.a. vegna langskólanáms, eins og gangur lífsins er. Því hlaut einmanaleikinn og tómleikinn oft að gera vart við sig. Það var henni mikils virði að starfa áfram að heilsugæslumálum en hún vann við heilsugæslustöðina á Höfn. Þangað kom það fólk sem hún hafði áður kynnst og annast í mörgum tilvikum. Sigurjóna kynntist henni þar þegar þær unnu þar saman um tíma. Hún hlaut sömu móttökurnar og ég hafði fengið þegar fundum okkar fyrst bar saman. Þannig var Ragna og því átti hún marga vini. Börnin hennar og barnabörn voru henni mikils virði. Velgengni þeirra og frábær námsárangur veittu henni mikla gleði. Þau notuðu einnig hvert tækifæri sem gafst til að vera með henni og barnabörnin voru henni mikill hamingjuauki. Ekkert gat þó fyllt það skarð einmanaleika sem myndaðist við lát Kjartans.

Útförin verður gerð frá Hafnarkirkju í dag. Þar kveðja sýslubúar og aðrir vinir konu, sem hefur lifað og starfað á mesta umbreytingartíma héraðsins. Hún hefur tekiðþátt í því starfi af mikilli einlægni og var trú sínu umhverfi fram á síðasta dag. Þar vildi hún vera í sorg og gleði.

Við Sigurjóna sendum Birnu, Árna, Önnu, Sigbirni og öðru venslafólki okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Halldór Ásgrímsson