28. febrúar 1998 | Menningarblað/Lesbók | 3501 orð

HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ SÍÐARI HLUTI

HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ SÍÐARI H

MÉR kemur ekki á óvart hvaða skoðanir Sigvaldi hafði á menningu og aðlögun að menningarformum. Hann skrifar eins og mannfræðingur þegar hann ræðir um hvernig skynjun fólks er háð hinu menningarlega umhverfi og hvernig einstaklingurinn býr sér til samfellda mynd af umhverfinu, og þar er ekki einungis um að ræða hlutlægar staðreyndir, heldur einnig skynreynd, eins og Sigvaldi kallar það,
HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ SÍÐARI HLUTI

"ALLT ER BREYTT ÞÓTT EKKERT

HAFI BREYST ­ NEMA ÞÚ"

EFTIR HARALD ÓLAFSSON

Sigvaldi túlkar mörg hugtök í indverskri heimspeki og bendir á hve menn missa af réttum skilningi á hugtökunum ef þeir reyna að fella þau að algengum vestrænum hugsunarhætti.

MÉR kemur ekki á óvart hvaða skoðanir Sigvaldi hafði á menningu og aðlögun að menningarformum. Hann skrifar eins og mannfræðingur þegar hann ræðir um hvernig skynjun fólks er háð hinu menningarlega umhverfi og hvernig einstaklingurinn býr sér til samfellda mynd af umhverfinu, og þar er ekki einungis um að ræða hlutlægar staðreyndir, heldur einnig skynreynd, eins og Sigvaldi kallar það, sem ofin er úr þáttum vitneskju og gilda sem ríkjandi eru í viðkomandi menningarsamfélagi. Menn læra á heiminn og mismunandi samfélög móta ólík tungumál, sem síðan móta hugarheim þeirra sem tala viðkomandi tungumál. Indverjar og Vesturlandabúar gera sér ekki sömu hugmyndirnar um alheiminn og þau lögmál sem ríkja í náttúrunni. Sigvaldi segir: Fyrst skal tekið fram að Indverji skilur ekki tilveru sína sundur í efni og anda. Sú aðferð hefur ekki valist honum til að gera sér grein fyrir henni. Í staðinn finnst honum allt, hvaða nafni sem nefnist, vera líf og vitund. Efnislíkami mannsins og efnisheimur yfirleitt telst ekki fyrst og fremst hlutur, heldur skynjun, og því óumdeilanlega tilheyrandi vitundarlífi. Maðurinn sem lifandi vera er meginatriði málsins. Allt líf er mikilsvert. Fyrir því ber að líta svo á að heimspekikerfin sex (hin indversku) séu leiðir til þroska, ekki einhver sniðugheit til að lesa gátur, því hvað stoðar að leysa gátur nema til að hlúa að grósku mannlegs vitundarlífs? Sama gildir um allar andlegar hreyfingar. Þaraf sprettur að öll þekking er sjálfsþekking. Vísindi og þekking búa ekki yfir neinu gildi útaf fyrir sig, gildi þeirra er þýðing þeirra fyrir manninn (1976:35- 36). Indverjar setja þroskann öllu ofar, og þeir líta svo á að allt sé á þroskabraut. Þetta er að mati Sigvalda fólgið í því að allt er breyting sem fram fer í öllu sem lífsanda dregur, og þar af leiðandi er allt á leið inn í brahman eða atman , þetta sem einlægast er kannski að kalla það. Og iðkun jóga er þegar allt kemur til alls einungis til að hraða þessari breytingu vitandi vits (1976:38). Harla fróðleg er umræða Sigvalda um guðshugmyndir Indverja. Úr því að öll tilveran er lifandi heild samtímis því sem hún á yfirborðinu birtist í ótal myndum, er ekkert eðlilegra en guð hafi mörg nöfn, og margvíslega mismunandi eiginleika. Allir guðir eru bara mismunandi andlit á brahman-atman, það-inu. Meðal lærdómsmanna hindúa rekst maður á þá skoðun að hindúismi sé í raun ekki síður eingyðistrú en kristindómurinn. Hindúisminn viðurkennir ekki að trúarjátningar eða kennisetningar séu æðri en upplifun, reynsla og innsæi. Sigvaldi túlkar mörg hugtök í indverskri heimspeki og bendir á hve menn missa af réttum skilningi á hugtökunum ef þeir reyna að fella þau að algengum vestrænum hugsunarhætti. Hann hafnar því að nirvana þýði útslökknun þó að orðið sé notað um að slökkva á kerti. En sé allt líf eins og haldið er fram í indverskri hugsun getur ekki verið um að ræða að eitthvað eyðist og hverfi. Allt er líf og þar af leiðandi enginn dauði. Atman er líka varasamt hugtak. Oft er það þýtt sál, en algengara er þó að kalla það sjálf. Atman er einfaldlega hinsti veruleiki tilverunnar, brahman, eins og menn upplifa það innra með sér (1976:43-44). Þá er ekki síður lærdómsríkt að sjá hvernig Sigvaldi fjallar um jóga og þær hættur sem felast í því að telja að jóga sé einhver aðferð til þess að búa til fólk sem gætt er einhverjum óvenjulegum hæfileikum og eiginleikum. Hann varar einnig við því að taka of alvarlega þegar jóga-iðkendum er lofað hreysti og hamingju í fornum indverskum ritum. Þar sé um að ræða skrúðmælgi og segi varla annað en að æfingarnar komi fólki almennt til góða. Öll sölumennska og yfirborðsleg kennsla í jógafræðum er að hans dómi skaðleg. Jóga er aðferð til þess að hraða þroska mannsins á þeirri braut til meiri þroska sem allir eru á. Haf í dropa er merkileg bók og þar er varpað ljósi á mörg atriði sem trúarbragðafræðingar eru að fást við. Umfjöllun Sigvalda um ýmis hugtök indverskrar heimspeki, og trúarhugmyndir bæði hindúa og búddista, er gagnleg fyrir alla þá sem fást við fyrirbærafræði trúarbragða. Ég hef minnst á skýringar hans á jóga, nirvana, atman-brahman og fleiri hugtökum sem hvað eftir annað koma fyrir í þessum fræðum. Sá kafli bókarinnar sem mér þykir hvað fróðlegastur er sá sem hann kallar: Spurningin um örlög manna . Þar fjallar hann á ákaflega skilmerkilegan og heillandi hátt um karmakenninguna, kenningu sem auðvelt er að misskilja, og erfitt að útskýra. Enn hefur Sigvaldi valið einkunnarorð sem falla vel að því efni sem hann er að fást við að útskýra. Hann vitnar í Lao-tse: Hinn vitri safnar ekki auði. Því meira sem hann ver öðrum til gagns, því meira á hann sjálfur. Því meira sem hann gefur öðrum, því ríkari er hann. Ég ætla að gefa Sigvalda orðið um þessa kenningu. Hann segir: Karma er orð úr hinu forna máli sanskrít og þýðir athöfn, athöfn í víðustu merkingu. Það þýðir ekki beinlínis lögmál orsaka og afleiðinga og þaðanaf síður örlög, en skilningur á merkingu þess leiðir til góðrar útsýnar yfir þetta hvortveggja. Það er í samræmi við austrænan skilning á tilverunni að hver einstaklingur, hver vera, og alheimurinn í heild, sé það sem hann gerir . Lífvera er ekki fyrst og fremst hlutlægt fyrirbæri sem gerir eitthvað eða aðhefst, hún er það að aðhafast, gera ­ það er sú rót sem gerir það að verkum að hún upplifist á þann hátt sem kallast hlutrænt fyrirbæri. Alheimurinn skoðast ekki efniskökkur fyrst og fremst eða hlutrænt fyrirbæri neinskonar, heldur voldug athöfn ­ líktog andardráttur. Og sá andardráttur óendanleikans veldur þessu sem við skynjum sem hlutræna tilveru. Þannig er litið á í mystískri hugsun Indlands eða esóterískri heimspeki, bæði með búddhistum og hindúum, og kemur heim við það að tilveran sé í eðli sínu lifandi líf og vitund, ekki efni ­ sem í raun er alger umsnúningur við okkar skilning hér vestra: athöfn kemur fyrst, og síðan leiðir þann sem aðhefst af athöfninni. Slík frumathöfn er karma. Hver einstaklingur eða annarskonar lífvera er því ekkert annað en samsafn athafna, það að vera sífellt að gera, og þetta samsafn er karma hans. Það sem kemur fyrir þig er það sem þú ert (1976: 75-76). Sigvaldi tekur fram að til þess að skilja karma-kenninguna verði að gera ráð fyrir fortilveru og endurholdgun þar eð margt af því sem kemur fyrir einstaklinginn í þessari tilveru hans er hluti af því sem hann aðhafðist í fyrri jarðvist (sami staður). Og hann bætir reyndar við að hann skýri karma út frá sjónarhóli sem hann hafi komist á við að kynna sér hið leynda jóga. Hann styðst því ekki við almennar útkýringar í trúarheimspeki. Þar eð einstaklingurinn er samsafn athafna er talið að hann geti umskapað sjálfan sig að einhverju leyti með því að ná valdi á athöfnum sínum. Manneskjan er ekki "... fastmótaður smíðisgripur heldur síkvikt streymi sem ekki bara hefur orðið, heldur líka er að verða einsog það er" (1976:77). Hvernig verða menn eigin gæfu smiðir? Því svarar Sigvaldi í kaflanum um karma og segir meðal annars: Þú verður það sem þú hugsar (því frumrót allra athafna er hugsun eða einskonar hugsun). Líf þitt í heild verður það sem þú hugsar, því með hugsun eða því sem gerist í huganum vekurðu tilhneigingar, tilhneiging veldur athöfn og nýrri hugsun og hugarstarfi og dregur þig inní tilsvarandi sálarástand og umhverfi, enda umhverfi fyrst og fremst sálarástand: fólk, afstöður, langanir, eitthvað sem er sjálfsagt og óhjákvæmilegt og börnin teyga að sér með móðurmjólkinni. Sumt er talið fyrirfram ráðið af athöfn úr fyrra lífi eða lífum, einkum hvar maður fæðist og við hvaða skilyrði hann elst upp (1976:78). Viðhorfið til karma ræðst miklu fremur af því hvernig manneskjan tekur því heldur en því hvað fyrir hana kemur. Og varast ber að halda að karma sé einhvers konar refsari, en eins og Sigvaldi kemst að orði, þá refsar manni enginn nema maður sjálfur. Það er verkið, athöfnin, sem breytir manninum svo hann líður fyrir það sem hann gerir rangt. Og undan afleiðingum verka sinna kemst enginn, eins og Búddha sagði: "Hvorki í himingeimnum né gljúfrum fjallanna, hvergi um víða veröld, er óhultan stað að finna þar sem maður getur sloppið undan afleiðingum illra verka" (1976:80). Ætíð kemur Sigvaldi að hinu sama: Athyglin er fyrir öllu, hin skýra glaðvakandi athygli sem er grundvöllur þess að ná valdi á huganum. Hann bendir á hve gagnlegt er að taka eftir hugsunum, skynjunum og löngunum hjá sjálfum sér, skoða sjálfan sig eins og utan frá, beina athyglinni að andardrættinum eða því hvernig maður finnur fyrir líkamanum eða einstökum hlutum hans. Þetta getur orðið að vana og maður fer að fylgjast með sjálfum sér eins og leikara á sviði. Þetta kallar hann sjálfsgát. Sigvaldi bendir á að karma-kenningin sé alls ekki undirrót afskiptaleysis um annarra hag. Þvert á móti. Hann hefur það eftir jógameistara nokkrum að sé reynt að hjálpa þeim sem á bágt er það hið góða karma hans ef það er hægt, en sé ekki reynt að hjálpa er það hið illa karma þess sem lætur undir höfuð leggjast að veita aðstoð. "Látum karma sjá um sig. Það er ekki þitt að útdeila refsingum í tilverunni ­ þitt er að vera bróðir" (1976:83). Í útskýringum um karma í Tíbet segir að veita skuli hjálparhönd eins hratt og eðlilega eins og þegar maður kippir að sér hendinni þegar hann rekur hana óviljandi í eld. Það er grundvallaratriði í karma að starfa án þess að hugsa um laun eða umbun. Í beinu framhaldi af umræðu um karma- kenninguna tekur Sigvaldi að ræða um framhaldslíf. Hann bendir á að samkvæmt indverskri heimspeki sé engin spurning um að maðurinn lifi líkamsdauðann. Spurningin er að dómi margra Indverja annaðhvort rangt orðuð eða öllu heldur út í hött. Þetta er skiljanlegt þegar haft er í huga að indverskt fólk lítur á tilveruna í heild sem líf og vitund, og hafnar allri skiptingu í efni og anda. En þar með er ekki sagt að meðal indverskra hugsuða sé að finna einfaldar og samræmdar skýringar á því hvernig framhaldslífinu sé háttað. Þar kemur meðal annars til hvaða skoðanir menn hafa á muninum á persónulegu lífi og ópersónulegu (1976:87). Það má til dæmis líta á alla hluti sem persónur og eins er ekkert því til fyrirstöðu að líta svo á að einstaklingurinn sé ópersónuleg vitund. Vitund allra manna er innst inni ein og hin sama (1976:88).

Endurholdgun er ekki í því fólgin að "sál" einhvers taki sér bólfestu í nýju holdi. Sigvaldi kveðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að endurholdgun sé í rauninni hringrás. Hann segir: Svo er litið á að allt líf sé hringrás, meirasegja alheimar komi og hverfi, komi útúr ekki-neinu og hverfi inní ekki-neitt, því ekki-neittið er jafnmikill veruleiki og þetta sem er. Samskonar öldugangur eða andardráttur út og inn er beinagrindin í gervallri tilverunni, í náttúrunni allri, í lífi jurta og dýra ­ því enginn grundvallarmunur er á lífinu í þessari þreföldu birtingu lífsins. Ekki má taka þetta of bókstaflega. Á bakvið liggur eitthvað sem mannshugur af venjulegum skarpleik og næmi fær ekki sett sér fyrir sjónir til fulls. Endurholdgun er hugmynd sem bendir á óskýranlega framvindu, enda tilveran hvorki efnisleg né ekki efnisleg, andleg né ekki andleg ­ spurningin um efnislegt og andlegt er sprottin af sérstakri aðferð til að gera sér grein fyrir sjálfum sér (1976:89). Hvernig má það vera? hvert er svarið sem hann gefur við þeirri mikilvægu spurningu? Það er einfaldlega það, að maðurinn sé í raun og veru eins og alda sem rís og hnígur í ómælishafi tilverunnar. Hann á sér fortíð og framtíð, liðnar jarðvistir og ókomnar og við líkamsdauðann hverfur maðurinn út af þessu sviði og inn á annað svið og huglægara. Þegar talað er um svið er átt við vitundarástand og það er því huglægara sem meira er upplifað beint og minna skynjað með hinum venjulegu skilningarvitum. Og þegar lengst er náð er komið á það svið sem er nánast hrein vitund . Vitundin er þá orðin algerlega ópersónuleg. En á leiðinni þangað leitar vitundin oft til hlutlægari sviða á ný, hjúpast einhverju gervi og getur þá birst í þessum heimi í líkama (1976:90). Vísindahyggju sinni trúr var Sigvaldi forvitinn um hvort hægt sé að færa sönnur á að einstaklingur geti rifjað upp atvik úr hugsanlegri fyrri tilveru, en út í það verður ekki farið hér. Ekki mun ég heldur ræða hugleiðingar hans um máttarverk. Ég hef nú rakið örfá atriði úr bókum Sigvalda Hjálmarssonar þar sem hann fæst við að útskýra nokkur grundvallaratriði þess sem hann kallar esóterísk fræði og mystíska reynslu. Hann fjallaði um þessi efni út frá þekkingu sinni á því sem hann til hægðarauka kallar bæði austræn fræði og inverska heimspeki. En hann bendir á að mystík og dulspeki er ekki bundin við Indland eitt eða Austurlönd, og hann hafði áhuga á öllum þeirm hreyfingum sem fengust við slíkt, hvort sem Austurlandafólk eða vestrænir dulhyggjumenn fengust við slíkt. Ég hef ekki gert neina tilraun til þess að rekja hvaðan hugmyndir Sigvalda eru. Sjálfur greinir hann frá mörgum bókum sem hann las og reyndar sökkti sér niður í, og hann kynntist mörgum sem höfðu langa og djúpa reynslu af iðkun dulfræða. Í ritum hans kemur oft fram að hann hefur margt lært af tíbetskum búddisma og kenningar þeirra fræðimanna sem lagt hafa fyrir sig hindúasið móta vafalaust hugmyndir hans á eðli og árangri jóga-iðkana. Hvað olli því að Sigvaldi heillaðist af austrænum heimspekikerfum og mystík? Var guðspekin ef til vill einhvers konar andsvar við "hinum endanlega sannleika" sem kirkjan boðaði? Leitaði hann dýpri skilnings á sjálfum sér og tilverunni en hann fann í kristnum kenningum? Var hann ekki vísindamaður í eðli sínu, maður sem leitaði svara sem hann taldi byggð á öruggum grunni rökfræði og skynsemi? Hvað fann hann? Tókst honum að upplifa hina dularfullu einingu alls? Því verður ekki reynt að svara hér nema óbeint. Í Indlandsbókinni Tunglskin í trjánum er brot úr dagbók sem hann skrifar í fjallahéraði á Suður- Indlandi. Það hljóðar svo: Nú er að verða dimmt, ryðrautt þrumuský í vestri, til hliðar þver skýjabakki furðulega dökkgrár. Svo er einsog rifni á hann göt og sér í heiðan kvöldhimin. Um þetta leyti var bóndi að reka kýrnar heim. Ég var í annarlegu skapi einsog stundum kemur fyrir. Það er að segja: ég var í ágætu skapi enda held ég að ég sé ekki sérlega mislyndur, en á bakvið þetta sem við getum kallað "skap" voru einkennileg umbrot. Ég kannaðist orðið við þessi umbrot, einsog eitthvað í mér sé að láta undan, eitthvað að eyðast eða springa, klaki að bráðna. Þegar svoleiðis kom fyrir mig þegar ég var lítill drengur norðurí Svartárdal þá fór ég einförum og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Núorðið kann ég að gera ekki neitt og vera ekki neitt og lofa þessu furðulega X-i, hinni óþekktu stærð þess að vera til, að brjótast framí vitundina Allt kvöldið gekk ég um einsog ekki- neitt. Raunar er ég alltaf einsog ekki- neitt, en stundum er ég meira ekki-neitt en vanalega. Litlu síðar heldur frásögnin áfram: Það kemur yfir mig geysiskýr tilfinning fyrir veruleika þessa staðar. Fyrst þetta óskaplega stóra land og í því þessi óskaplega stóri skógur, og hér örfáar mannlegar verur í litlu húsi í miðjum skóginum. Kýr jórtra í hlaðvarpanum. Drengur stendur í dyragættinni... Þungur dynur í lofti eins og fjarlægur söngur hnattanna á endalausri för um geiminn ­ og á bakvið þögnin einsog mjúkur móðurbarmur, ­ hún ein ríkir, á hana er öll tilveran máluð. Nokkru seinna fór bóndinn að láta inn kýrnar. Komið logn, leifturfluga svífandi í tré (1974:155-156). Þetta er ákaflega merkilegur kafli og sýnir okkur djúpt inn í hugarheim Sigvalda. Hann virðist hafa frá unga aldri haft tilfinningu fyrir einhverju sem hann vildi kynnast nánar, hann vildi reyna á reynslu sína ef mér leyfist að koma svo að orði. Hin djúpa tilfinning hans fyrir náttúrunni verður honum uppspretta gagntakandi reynslu, þar sem smáatriðin, alltaf smáatriðin, eru það sem opna vitundina fyrir hinu ósegjanlega, en mjög svo raunverulega. Sigvalda verður í verkum sínum tíðrætt um hinn hljóða huga, þegar honum finnst sem allt birtist eins og í tæru vatni. Hann segir: Og svo kemur það ­ eins og þruma eða blíður blær, tilefnislaust eða einsog af einhverju óverulegu tilefni, þegar minnst varir. Og allt breytist þótt ekkert sé breytt ­ nema þú. Allt verður undarlega skýrt sem er afleiðing óvenjulegrar vöknunar. Það er eins og að vakna án þess að hafa sofnað. Og yfir breiðist einskonar þögn ­ sú þögn sem hávaði ekki rýfur, heldur er hún svo máttug að hún kæfir allan hávaða. Þú rennur saman við allt, bráðnar saman við allt sem er í kringum þig, einsog aðgreining vitundarlífsins sé skyndilega þurrkuð út. Vera má að þér finnist þú vera að deyja, jafnvel að þú deyir. Og það er ekki í þér nokkurt "ég". Ég-ið er hætt að vera til. Um leið og ég-tilfinningin er horfin finnurðu greinilega að hún er ekkert annað en eitt af þessu rekaldi hugsunarstarfseminnar sem flýtur á stranda- og skerjalausu úthafi vitundarinnar, eða eins og skýhnoðri á heiðum himni (1973:93). Á nokkrum stöðum hér að framan lýsir Sigvaldi líka ástandi sem vafalaust byggist á eigin reynslu og í bókinni Stefnumót við alheiminn (1982) er ítarleg umfjöllun um mystík og esóterísk fræði. Þar er margt merkilegt og þó flest af því sagt áður, en með nokkuð öðrum hætti. Mörg fleiri dæmi mætti rekja í bókum hans sem benda eindregið til þess að hann hafi þekkt yfirþyrmandi mystíska reynslu, og margt bendir einnig til þess að hann hafi náð tökum á flóknum og erfiðum sviðum jóga-iðkunar. Um það treysti ég mér ekki að ræða. Hitt er ljóst, að hann hafði gengið skipulega til verks og leitast við að kanna sjálfur margt það sem hann fræddist um í bókum og í viðræðum við fólk. Ég sagði í upphafi að Sigvaldi hafi verið mikill hversdagsmaður, en jafnframt er hann einhver óvenjulegasti maður sem ég hef kynnst. Hann var hversdagsmaður í þeirri merkingu að hann lifði hversdaginn af jafnmikilli alúð og hann fékkst af kappi við að stunda dulfræði og heimspeki. Blaðagreinar hans og kaflar í Indlandsbókinni bera vitni um hve ríkan þátt hann tók í hinu daglegu lífi landa sinna og fólks um heim allan. Hann tók þátt í amstri og baráttu fjöldans, gleði og sorg samtíðarmanna sinna, stjórnmálakarpi og umræðu um menningu og listir. Þetta var í samræmi við það sem hann leitaði að og það sem hann kenndi. Öll athöfn sem unnin er af alúð og án undirhyggju eða vonar um laun er góð. Hann fylgdi þar út í æsar boði Krishna í Bhagavad- Gita. En eins og fram kom þegar ég ræddi um útleggingu hans á karma-kenningunni aðhylltist hann ekki afstæðishyggju. Sá sem náð hafði valdi á huga sínum og þar með athöfn sinni gerði ekki neinum illt viljandi. Samúð og náungakærleiki var ekki eitthvað sem var úthugsað heldur viðbragð þess sem hafði náð valdi á huga sínum og athöfn. Og dulhyggjumaðurinn, mystíkerinn, er manna hversdagslegastur, glaður á góðri stund, fullur samúðar á sorgarstund, hjálpsamur, tryggur, og haggast lítt þótt á móti blási. Mitt í önn dagsins er hægt að stunda hugrækt, og hafa þá gát á sjálfum sér, sem Sigvaldi lagði svo mikla áherslu á. Hann segir á einum stað: "Einfalt líf er í ætt við heiðríkjuna og fjöllin, að mæta hverri stund lífsins eins og hún er, hvernig sem hún er" (1968:31). Og hin ósíngjarna athöfn er hápunktur mannlegrar viðleitni. Sigvaldi Hjálmarsson hafði gaman af þverstæðum, andstæðum sem oft mynda einingu þegar nánar er skoðað. Hann var manna léttastur í máli og allur hátíðleiki í daglegri umgengni var honum fjarri skapi. Ég ætla því að leyfa mér að ljúka þessu rabbi með því að birta síðasta ljóðið í bók hans Vatnaskil . Ljóðið heitir reyndar Eftirmáli. Nú að lokum einu vil ég sveigja og ekki framar lopann teygja:

að orðin sem ég er að segja eiga að minna mig og þig og marga hinna á sannleik þann: svofelldan:

að allt sem þörf er á að segja er ekki hægt að segja,

og því er best að þegja! Rit Sigvalda Hjálmarssonar sem vitnað er í:

1968, Eins og opinn gluggi

1973, Einskonar þögn: ábendingar í hugrækt

1973a, Að horfa og hugsa

1974, Tunglskin í trjánum, ferðaþættir frá Indlandi

1976, Haf í dropa: Þættir um yoga og austræna hugsun

1976, Vatnaskil. Nokkur ljóð

1982, Stefnumót við alheiminn: Leiðbeiningar um esóteriska iðkun

1984, Víðáttur: Ljóð

Í greinunum er vitnað til ritanna með ártali og blaðsíðutali. Dæmi 1968:22.

Höfundurinn er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Greinin er byggð á erindi sem flutt var á fundi í Guðspekifélaginu 10. okt. 1997.

ALHEIMURINN skoðast ekki efniskökkur fyrst og fremst eða hlutrænt fyrirbæri neinskonar, heldur voldug athöfn ­ líktog andardráttur. Og sá andardráttur óendanleikans veldur þessu sem við skynjum sem hlutræna tilveru. SIGVALDI Hjálmarsson. "Dulhyggjumaðurinn, mystíkerinn, er manna hversdagslegastur, glaður á góðri stund, fullur samúðar á sorgarstund, hjálpsamur, tryggur, og haggast lítt þótt á móti blási."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.