Opið frá kl. 14­18. Til 8. mars. Aðgangur ókeypis. ÞAÐ vill stundum gleymast að bakvið listamanninn Önnu Líndal stendur saumakonan Anna Líndal, sem lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Nú þegar þetta rifjast upp með aðstoð einblöðungs sem fylgir Brúðkaupi, nýjustu sýningu hennar ­ í bjarta- og svartasal Nýlistasafnsins ­ skýrist margt í framsögn hennar.
Brúðkaup

MYNDLIST Nýlistasafnið, Vatnsstíg 3b SAMSTILLING

ANNA LÍNDAL Opið frá kl. 14­18. Til 8. mars. Aðgangur ókeypis. ÞAÐ vill stundum gleymast að bakvið listamanninn Önnu Líndal stendur saumakonan Anna Líndal, sem lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Nú þegar þetta rifjast upp með aðstoð einblöðungs sem fylgir Brúðkaupi , nýjustu sýningu hennar ­ í bjarta- og svartasal Nýlistasafnsins ­ skýrist margt í framsögn hennar. Án þess að deila beint á siði og venjur dregur Anna upp kankvísa mynd af lögmálum þeim sem stjórna lífi okkar og atferli. Á ekkert er maðurinn eins blindur og furður eigin atferlis. Burðargrind samfélagsins verndar hann fyrir flestum efasemdum sem vaknað geta með honum um ágæti sinnar rótgrónu hegðunar. Oftastnær þarf glöggan aðkomumann til að kveða upp úr um firn ákveðins atferlis hafi það á annað borð öðlast blessun samfélagsins. Brúðkaup er að vísu svipað hvarvetna í hinum vestræna heimi. Karlinn er svartklæddur ­ í kjól eða smóking ­ meðan konan er hvítklædd, með slör og fald, eins og til að ítreka skyldleikann við vel skreyttan jólapakka. Enda þótt brúðarskart eigi að kallast hlutlaus klæðnaður fer það vart framhjá gestum Önnu Líndal að slíkur fatnaður er mun skyldari lögleiddum búningum á yfirráðasvæði Talibana í Afganistan en venjulegum, vestrænum kvenfatnaði. Það er eitthvað óumræðilega óþjált, ofhlaðið og heftandi við hinn klassíska brúðarkjól og allt sem honum tilheyrir; eitthvað sem hamlar þokkafullum hreyfingum brúðarinnar, dylur líkamsvöxt hennar og kemur henni í þann sérkennilega vanda að geta ekki aðhafst neitt umfram það að passa sig að flækjast ekki í öllu gallaríinu og detta kylliflöt. Eini karlmannafatnaðurinn sem raunverulega getur keppt við brúðarkjólinn á þessum vafasama grundvelli er hempa prestsins og kragi. Kórónan í þessarar rannsókn Önnu Líndal á eigindum brúðarskartsins er að finna í hvíta klæðinu sem þekur drjúgan hluta bjartasalar og minnir sumpart á brúðarslör, sumpart á lak og sumpart á efni í viskustykki. Klæðið er alsett undurfögrum, bróderuðum myndum í ýmsum litum og gerðum sem sýna ótvírætt vald listamannsins yfir efniviði sínum og aðferðum. Þannig er sýning Önnu Líndal hárfín og hárbeitt þegar öll kurl koma til grafar. Halldór Björn Runólfsson KLÆÐIÐ hvíta í bjartasal.