HERRANÓTT Menntaskólans í Reykjavík, frumsýnir leikritið Vorið kallar eftir Frank Wedekind, 1864­1918, laugardaginn 7. mars kl. 20. Vorið kallar (Frühlings Erwachen) er þriðja verk Frank Wedekind, samið á árunum 1890­91. Það var fyrst gefið út á bók og vakti strax mikla hneykslan og varð mjög umdeilt. Það var því ekki frumsýnt fyrr en fimmtán árum síðar í Berlín.
Herranótt sýnir Vorið kallar

HERRANÓTT Menntaskólans í Reykjavík, frumsýnir leikritið Vorið kallar eftir Frank Wedekind, 1864­1918, laugardaginn 7. mars kl. 20.

Vorið kallar (Frühlings Erwachen) er þriðja verk Frank Wedekind, samið á árunum 1890­91. Það var fyrst gefið út á bók og vakti strax mikla hneykslan og varð mjög umdeilt. Það var því ekki frumsýnt fyrr en fimmtán árum síðar í Berlín. Verkið þótti mjög opinskátt og fór svo að lokum að verkið var bannað. Árið 1912 var það aftur leyft til opinberra sýninga en þá í ritskoðaðri útgáfu.

Oft er þögnin eina svarið

Í kynningu segir m.a.: "Leikritið fjallar um örlög ungs fólks sem er að þroskast. Það leitar svara við sjálfsögðum spurningum um lífið og tilveruna. Spurningarnar eru m.a. um ást, kynlíf, samkynhneigð, fóstureyðingu og tilgang lífsins. Oft á tíðum er þögnin eina svarið sem það fær. Bilið sem skapast milli kynslóðanna á þessum árum virðist óbrúanlegt.

Þrátt fyrir að leikritið hafi verið skrifað sem ádeila á samfélagið fyrir heilli öld á það enn fullt erindi til okkar í dag."

Með helstu hlutverk fara Hulda Dögg Proppé, Wendla; Jóhannes Benediktsson, Morits; og Þorsteinn B. Friðriksson í hlutverki Melkiors. En hann er formaður Herranætur. Leikstjóri sýningarinnar er Hilmar Jónsson. Aðstoðarleikstjóri Halla Margrét Jóhannesdóttir. Finnur Arnar Arnarson er leikmyndahönnuður. Tónlistin er eftir Margréti Örnólfsdóttur.

Fyrirhugaðar eru a.m.k. átta sýningar á næstu dögum.