18. mars 1998 | Úr verinu | 1738 orð

Saga saltfiskverkunar og íslensku þjóðarinnar í þrjár aldir rakin

Saltfiskurinn þjappaði þjóðinni saman

Saga saltfiskverkunar og íslensku þjóðarinnar í þrjár aldir rakin Saltfiskurinn þjappaði þjóðinni saman Saltfiskverkun og -sala er sú atvinnugrein sem hvað mesta þýðingu hefur haft fyrir þjóðarbú og atvinnulíf Íslendinga á þessari og síðustu öld.
Saga saltfiskverkunar og íslensku þjóðarinnar í þrjár aldir rakin

Saltfiskurinn þjappaði

þjóðinni samanSaltfiskverkun og -sala er sú atvinnugrein sem hvað mesta þýðingu hefur haft fyrir þjóðarbú og atvinnulíf Íslendinga á þessari og síðustu öld. Á nýliðnu ári kom út tveggja binda ritverk, Saltfiskur í sögu þjóðar, þar sem hin mikla saga saltfiskgreinarinnar hér á landi er rakin. Helgi Mar Árnason fletti bókinni og ræddi við Halldór Bjarnason, annan höfund verksins og ritstjóra þess.

Í RITVERKINU er skýrt frá flestum hliðum saltfiskverkunar og -verslunar á Íslandi síðustu þrjár aldirnar en saltfiskurinn hefur haft afgerandi þýðingu fyrir efnahagslíf og byggðaþróun hér á landi. "Lífið er saltfiskur" er nefnilega ekki bara ekki ofnotuð klisja heldur voru þessi orð óbifanleg staðreynd á þeim tíma sem þau voru kveðin í Sölku Völku Nóbelskáldsins.

Saltfiskur í sögu þjóðar er rituð að tilhlutan Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda. Verkið á sér langan aðdraganda. Á fimmtíu ára afmæli SÍF árið 1982 var ákveðið að skrifa sögu SÍF og samtímis eða fljótlega eftir að söguritunin hófst var ákveðið að skrifa ekki aðeins sögu SÍF heldurgreinarinnar allrar allt frá upphafi á 18. öld. Valdimar Unnar Valdimarsson, sagnfræðingur, hóf ritun bókarinnar, markaði stefnu hennar og skipulag, og er aðalhöfundur hennar en hann lést áður en hann gat lokið verkinu. Því var þess farið á leit við Halldór Bjarnason, sagnfræðing, að hann lyki við bókina. Halldór segir Valdimar hafa skrifað meirihluta textans en hann hafi enn verið á handritsstigi og krafist nánari frágangs, samanburðar og leitar að ýmsum heimildum, mikilvægra viðbóta, lagfæringa og samantektar talnaefnis, auk annars. "Þegar Valdimar lést voru eftir allnokkur afdrifarík ár af sögu SÍF og ýmsar þýðingarmiklar nýjungar í saltfiskiðnaðinum áttu eftir að líta dagsins ljós. Þetta gerðist samtímis því sem ég vann að bókinni og örlögin höguðu því svo til að einkaleyfi SÍF á saltfiskútflutningi var afnumið árið 1993. Þá tók við nýtt skeið við allt aðrar kringumstæður. Saga bókarinnar nær ekki lengra enda fannst mér það ágætur tímapunktur til að láta staðar numið."

"Þetta varð margfalt meiri vinna en mig óraði nokkurn tímann fyrir. En hún var lærdómsrík og þarna opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér sem ég er þakklátur fyrir og mun búa lengi að. Ég naut líka trausts og aðstoðar margra góðra manna við þessa bókargerð þótt þessi vinna væri erfið að mörgu leyti. Ég vona að bækurnar leiði fólk í sannleikann um gildi þessarar atvinnugreinar því saltfiskverkun er held ég hálfgert fornaldarfyrirbrigði í augum þeirra sem þekkja ekkert til hennar," segir Halldór.

Elstu heimildir frá 15. öld

Fyrstu heimildir um saltfiskverkun hér á landi eru óljósar og upphaf hennar á sér langan aðdraganda. Vitað er að þegar á 15. og 16. öld var fluttur út tunnusaltaður fiskur en þurrkun á saltfiski hófst ekki fyrr en á 17. öld. Saltfiskverkun jókst hins vegar ekki að ráði fyrr en á seinni hluta 18.aldar. Þá ríkti einokunarverslun hér á landi og einokunarfélög fengu áhuga á því að nota sér saltfiskmarkaðina í Suður-Evrópu. Verslun með saltfisk var tiltölulega trygg og kaupmenn urðu því áfjáðir í að framleiða alltaf nokkurn saltfisk þó skreiðin væri aðalsöluvaran. Þótt saltfiskframleiðslan ykist var hún samt ekki nema um nokkur hundruð tonn á ári á þessum tíma. Á fyrri hluta 19. aldar fer framleiðslan að aukast verulega. "Fram til um 1820 varsaltfiskurinn fyrst og fremst unninn af kaupmönnunum sjálfum og þeirra fólki, hann var í raun og veru aðeins "heimilisiðnaður" af þeirra hálfu. En upp úr 1820 fara sjómenn, formenn og útvegsbændur sunnan lands og vestansjálfir að verka saltfisk og selja þurrkaðan," segir Halldór.

Saltfiskurinn og þéttbýlið

"Síðan heldur saltfiskverslunin áfram að vaxa á seinni hluta 19. aldar, meðal annars vegna þess að fólk flykkist þá í auknum mæli að sjávarsíðunni," segir Halldór. "Saltfiskurinn bjó þess vegna til þéttbýlið og flýtti gríðarlega fyrir þeirri þróun. Það var engin önnur atvinna í boði fyrir fólk við sjávarsíðuna fyrr en mörgum áratugum seinna og þá bara vegna þess að saltfiskurinn hafði með tilvist sinni búið til jarðveg fyrir það. Saltfiskurinn flýtti því þéttbýlisþróuninni um marga áratugi, jafnvel hálfa öld eða meira þótt það sé glannalegt fyrir sagnfræðing að segja svona. Þetta var gróðavegur og þess vegna blönduðu kaupmenn sér í veiðar, vinnslu og verslun með saltfisk. Hann var uppspretta fjármagns sem aftur var notað til meiri framleiðslu og tæknivæðingar. Fólk hefði trúlega haldið áfram að búa í sveitum við versnandi kjör ef ekki hefði verið fyrir saltfiskinn. Fram til seinna stríðs snerist atvinnulíf í bæjum ekki um neitt annað en saltfisk. Þannig varð sömuleiðis til vísir að borgaralegri menningu í þessum þéttbýlisstöðum sem byggðust upp í kringum saltfiskvinnslu."

Sama vinnuafl til sjávar og sveita

Lítið er vitað um þjóðarframleiðslu hérlendis á 19. öld og því erfitt að sjá nákvæmlega áhrif saltfiskgreinarinnar á efnahagslíf þjóðarinnar. Halldór segir alls ekki vitað hve margt fólk starfaði við saltfiskinn á fyrri hluta 19. aldar og skreiðin var ennþá mikilvæg þótt útflutningsmagnið færi dvínandi. Varhugavert sé að bera saman fólksfjölda í þéttbýli og í sveitum. "Þá bjó þorri landsmanna í sveitum og því mætti að óathuguðu máli álykta sem svo að saltfiskvinnslan hafi þá ekki verið orðin þjóðarbúinu mjög mikilvæg. En það verður að gæta þess að vinnuaflið í sveitum kom mjög við sögu í saltfiskvinnslunni því vinnumenn fór í ver yfir veturinn. Samt sem áður má ætla að saltfiskurinn hafi ekki verið ýkja mikilvægur fyrir þjóðarbúið á þessum tíma. Áhrifin verða hins vegar augljós þegar kemur fram á seinni hluta aldarinnar. Þá fer saltfiskútflutningurinn að hlaupa á þúsundum tonna árlega og að standa undir verulega miklum útflutningstekjum og borga vaxandi innflutning, meðal annars á munaðarvöru þess tíma svo sem kaffi og sykri."

Íslendingar snemma þekktir fyrir gæðavöru

"Íslendingar voru orðnir þekktir fyrir góðan saltfisk strax á seinni hluta síðustu aldar og þótti Bíldudalsfiskurinn með því besta sem þekktist hérlendis. Saltfiskurinn frá Íslandi varð því eftirspurður og auðvelt að selja hann þótt Íslendingar ættu í samkeppni við aðrar þjóðir. Um og upp úr síðustu aldamótum má segja að þeir hafi stolið mikilvægasta eða besta markaðssvæðinu, Norður-Spáni, af Norðmönnum og eftir það var leiðin stöðugt upp á við enda hljóp hún nú á tugum þúsunda tonna og komst yfir 80 þúsund tonn á einu ári. Þessi framleiðsluaukning á seinni hluta aldarinnar og fram að 1930 var tæpast möguleg nema fyrir þá sök að hér var búið að halda uppi stöðugri framleiðslu í meira en heila öld, ná góðum tökum á verkuninni, koma upp viðskiptasamböndum auk þess sem verkunin var smám saman löguð að breytingum á smekk neytenda. Bæði vegna þess og harðrar verðsamkeppni Íslendinga opnaðist markaður í Portúgal og í framhaldi af því markaðir í Suður Ameríku. Á þessum tíma var saltfiskur almenningsfæði og ekki dýr en Íslendingar gátu meðal annars í krafti gæða krafist góðs verðs."

Seinni til fyrir norðan og austan

Athyglisvert er að Norðlendingar og Austfirðingar byrjuðu ekki að verka saltfisk að ráði fyrr en á árunum 1870-80. Halldór segir það eiga sér skýrar orsakir. Haust- og vetrarvertíðir hafi verið bundnar við Suður- og Vesturland. Aflabrögð hafi hins vegar verið best fyrir norðan og austan ásumrin og þá máttu menn ekkert vera að því að veiða fisk vegna anna í sveitunum. Fiskurinn á þessum slóðum hafi heldur ekki verið eins stór en Íslendingar státuðu mjög af stórfiskinum sínum. "Norðmenn voru umsvifamiklirá Austfjörðum í lok 19. aldar og fyrir þeirra tilverknað jukust veiðar almennt og þar af leiðandi verkun og útflutningur á saltfiski. Segja má að á einum áratug hafi Norður- og Austurland gengið í gegnum þá þróun sem tók marga áratugi sunnan lands og vestan."

Gjörbreyttar aðstæður eftir stríðið

Saltfiskverkunin sjálf hefur lítið breyst í áranna rás. Snemma var lögð áhersla á góða meðferð í upphafi, þ.e. að blóðga fiskinn fljótt, halda honum köldum og salta sem fyrst eftir að hann kom í land. "Þetta vissu menn þegar á 18. öld og það sama gildir enn í dag. Saltfiskur verður ekki góður nema hann sé rétt meðhöndlaður í upphafi. Það sem hefur aðallega breyst er að fiskurinn er núna seldur upp úr saltinu en áður var hann vaskaður og breiddur út til þurrkunar. Við það fengu fjölmargir vinnu. Það þurfti að breiða fiskinn út á hverjum einasta morgni ef þurrt var og taka hann síðan saman á kvöldin. Þetta gat tekið fjórar til sex vikur, allt eftir tíðarfari. Þess vegna varð þéttbýlið til, saltfiskverkunin krafðist vinnuafls sem alltaf var til taks og nægilega mikið af því á sama stað."

Eftir seinni heimstyrjöld fóru Íslendingar að flytja saltfiskinn út blautan, af þeirri einföldu ástæðu að vinnuaflið var orðið svo dýrt. "Jafnvel þó að fólk fengist til þessara starfa en það gat verið stundum erfitt þá var vinnuaflið svo dýrt að það fékkst ekki nógu hátt verð fyrir fiskinn. Með varnarliðinu og margvíslegum lánum og gjafafé kom mikið fjármagn inn í landið, öll verslun og þjónusta jókst, sömuleiðis iðnaður og hvers kyns framkvæmdir. Efnahagslífið tók stakkaskiptum og allar þessar greinar tóku til sín mikið verkafólk. Sérstaklega munaði hér um kvenfólkið sem hafði aðallega séð um að vaska saltfiskinn og breiða hann út. Konurnar leituðu á áratugunum eftir stríðið í auknum mæli í skrifstofustörf og inn í frystihúsin eða voru heima fyrir, svo fremi að tekjur eiginmannsins leyfðu það. Þess vegna var ekki um annað að ræða en að flytja saltfiskinn út blautan og kaupendur á Spáni og í Portúgal þurrkuðu hann í sínu heimalandi því vinnuaflið þar var svo miklu ódýrara. Stjórnvöld þar voru líka að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir einhæft efnahagslíf sitt og tóku þessu fagnandi."

Saltfiskgreinin og þjóðarbúið

Halldór segir að við þessa breytingu hafi orðið kaflaskil í saltfisksögu landsmanna. Frystar fiskafurðir urðu mun þýðingarmeiri í útflutningi en saltfiskur og aðrar atvinnugreinar efldust. Þýðing saltfiskgreinarinnar í þéttbýli minnkaði þar af leiðandi. "Það hafa reyndar alltaf verið efnahagssveiflur á mörkuðunum og Íslendingar hafa allt frá fyrri hluta síðustu aldar þurft að glíma við breytileg tollakjör. Kreppuárin voru til dæmis mjög erfið. Helstu viðskiptaþjóðir okkar áttu þá í miklum erfiðleikum og efuðust margir um framtíð saltfiskgreinarinnar og töldu hana feiga, enda sögðu sumir þetta gamaldags aðferð. Sagan hefur hinsvegar sýnt að þessir menn höfðu ekki rétt fyrir sér. Og jafnvel þótt þurrkunin flyttist úr landinu hefur saltfiskgreinin verið mikilvæg. Þetta kom vel í ljós á áratugunum eftir stríðið þegar ástandið á ísfisk-, skreiðar- eða freðfiskmörkuðunum versnaði tímabundið. Og þótt mikilvægi saltfisksins minnkaði hefur útflutningsmagnið leikið á bilinu 30-50 þúsund tonn árlega. Nú er saltfiskurinn orðinn ákaflega dýr svo hann skilar þjóðarbúinu drjúgum tekjum og samt eru engin vandræði að selja hann enda þekktur fyrir gæði," segir Halldór Bjarnason.

Halldór Bjarnason sagnfræðingur.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.