Kveðja frá Leikfélagi Reykjavíkur Kristín Anna Þórarinsdóttir leikkona er látin fyrir aldur fram, eftir langa og erfiða sjúkdómslegu. Húnvar ein af athyglisverðustu leikkonum landsins, þótt ekki léki hún mikið hin síðari ár. Hún kom ung til starfa hjá Leikfélagi Reykjavíkur, tæplega tvítug að aldri og kom fyrst fram í hlutverki Amy í gamanleiknum Frænku Charleys. Hún lék síðan svo til samfellt með félaginu í ein fimmtán ár, oft veigamikil og kröfuhörð hlutverk, en atvik höguðu því svo, að þá flutti hún út á land og það var ekki fyrr en nú á síðustu árum að hún lék á ný hérá höfuðborgarsvæðinu.

Leikferill Kristínar Önnu hjá LR spannar árabilið 1954-67. Blómaskeið sitt átti hún um og upp úr 1960. Hún var í þeim fámenna hópi, sem fastráðinn var hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þegar því varbreytt í atvinnuleikhús árið 1963. Meðal hlutverka sem hún fór með má nefna Ödu í Nóa, Írínu í Þrem systrum, Lauru í Glerdýrunum, Guðrúnu Ægis í Deleríum búbónis, ungu eiginkonuna í Ástarhringnum, Colubinu í Tveggja þjónn að ógleymdri sjálfri Júlíu, sem hún lék með glæsibrag í sviðsetningu írska leikstjórans Thomasar MacAnna á 400 ára ártíð Shakespeare 1964.

Kristín Anna fluttist síðan út á land þar sem hún starfaði mikið að leikstjórn með áhugaleikfélögum, lengst af á Laugarvatni, og var hún því ómetanleg hvatning og leiðtogi listelskum menntaskólanemendum sem og öðrum staðarbúum.

Kristín Anna lék á sínum tíma töluvert í útvarpi og las oft upp ljóð enda meðal okkar albestu flytjenda á bundið mál. Hún lék einnig lítilsháttar í Þjóðleikhúsinu, síðast í norska leikritinu Fimm konur og var það hennar "come-back" á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu árin gafst okkur svo aftur kostur á að njóta listar hennar í sýningu Al þýðuleikhússins á Bitrum tárum Petru von Kant og nú síðast í vor túlkaði hún með ógleymanlegum hætti eymd, niðurlægingu og einsemd móðurinnar þöglu í sýningu Egg-leikhússins á leikritinu Ellu.

Kristín Anna var sérstök leikkona. Í minningunni lifir leikur hennar sem eitthvað hreint, tært og óspillt. Í rödd hennar og framsetningu voru kátína og tregi oft samfléttuð á sérkennilegan hátt. Yfir Önnu Stínu hvíldi iðulega þetta undarlega, dulúðuga og óskilgreinanlega, sem skilur á milli afburðaleikara og góðs leikara.

Það var óralöng leið milli geislandi æskufjörsins í Júlíu hennar forðum og nístandi vesældómsins í Ellu en báðar þessar persónur eru meðal þeirra sjaldgæfu gimsteina, sem við áhorfendur munum varðveita í minningunni - lengi, lengi. Að hafa veitt okkur þá gleði og ánægju, snortið okkur trega og harmi: hæfileikinn sá er náðargjöf. Þá náðargjöf hafði Kristín Anna hlotið og kunni að rækta. Blessuð sé minning hennar.

SB