Vitaskuld fer ég að hugsa um kynslóðina okkar sem fæddumst uppúr 1930. Líklega hefur aldrei vaxið upp í þessu landi rómantískari kynslóð. Við fæddumst inní heimskreppuna miklu sem dundi hér einsog haglél oní flekkina hjá ungmennafélagsanda og glaðbeittum framtíðarsýnum foreldra okkar. Við borðuðum drauma í flest mál og það var stagað í garmana okkar með vonarþræði sem fljótlega slitnaði aftur. Stríðsárin voru leikföng okkar. Framundir gelgjuskeiðið. Við kláruðum aðdáunina á Davíð Stefánssyni á einni nóttu flest sum tóku í það viku. Og við erum kynslóðin sem uppgötvaði Stein og Stefán Hörð. Við urðum rómantísk af þessu, mátulega ringluð og trúðum því einu sem okkur sýndist að trúa. Töldum að vísu fátt öruggt.

Kringum 1950 sátum við á Laugavegi 11 og sáum margar blikur á lofti. Steingrímur Sigurðsson geystist fram með ofsa, sagði borgaralegri mollunni stríð á hendurmeð riti sínu: LÍF OG LIST. Þar birtust þessi hráu angistaröskur í smásöguformi. Ásta Sigurðardóttir var höfundurinn. Við kölluðum hana George Sand kynslóðarinnar og foreldrar okkar voru með áhyggjusvip því ekki gátu þau vitað þá hversu vel þetta mundi altsaman fara.

Því rómantískasta kynslóð Ís landssögunnar átti framundan þau örlög að þurfa að lifa manndómsár sín á þeim prósaískustu tímum semgengið hafa yfir landið. Núorðið er vandfundin sú miðaldra sál hérlendis sem ekki kemst fyrir í vanalegri peningabuddu. Líf þjóðarinnar snérist uppí langa eyðimerkurgöngu afkomuþjarksins, listin varð einskonar heildsölufyrirtæki kringum innflutning á andlegum tertu botnum frá Evrópu gömlu. Módernisminn var kominn á markaðinn hér og hentaði svo vel til svo margs einsog gengur með innflutningsvöru á veltiárum.

Tími neytendaumbúðanna varkominn.

Undir torskildum váboðum þesstíma urðum við tvítug og rétt áðuren þokan datt á kom út kvæðabók in hans Hannesar með línunum semvið lærðum öll samstundis og höfum sum ekki gleymt uppfrá því.

Manstu hve gleðin tefur tæpa stund

en treginn lengi?

Þetta fannst okkur Tónninn hreini. Og Tóninn hreina dýrka allir sannir rómantíkerar.

Í leikarastétt okkar var Kristín Anna Þórarinsdóttir fulltrúi þessa tandurhreina rómantíska söngs. Mín vissa er sú að hún væri æfi langt trú þessum tóni og grunur minn er sá að þögn hennar sem leikkonu í hálfan annan áratug hafi að nokkru stafað af því hversu lítil eftirspurn varð um tíma eftir þessum tóni. Hafi menn þaðsem sannara reynist ef mér skjátlast. Í Glerdýrunum eftir Tennessee Williams lék hún hlutverk bækluðu stúlkunnar. Hlutverk sem að sönnu er jafn brothætt og sá glerdýra heimur sem stúlkan flýr til í kröm sinni. Erlendis hef ég séð margar sýningar á þessu verki. Allar hafa þær annaðhvort hafnað í væmni ellegar þá hrottaskap. Sá ljúfi snillingur Gunnar Hansen rataði einstigið til skáldskapar með þessa sýningu fyrir það meðal annars að hann fann í ungri leikkonu þann hreina tón sem einn megnar að flytja svona verk óskemt. Um þennan tón vitna líka ljóðalestrarnir hennar Önnustínu. Og þeir geymast. Og svanasöngurinn hennar: hlutverk þöglu Ellu í leikriti Herberts Achternbusch fyrir bara fáeinum mánuðum sagði mér svoekki verður um vilst að tóninn sinn geymdi hún ekki bara öll þessi ár heldur þroskaði hún líka með honum miskunnarlaust raunsæi sem miklum rómantíkerum einum leyfist að beita. Einmitt þannig er listin sjálf, óinnpökkuð og óinnpakkanleg í neytendaumbúðir. Þá varð ég stoltari af minni broguðu kynslóð en lengi hafði gefist tækifæri til. Vissi þó ekki fyren seinna um þann sanna hetjuskap sem fólst í því að koma banvæn uppúr spítalarúminu á seinustu sýningarnar og fara beint á spítalann eftir hverja sýningu.

Í því birtist sjálfur kjarni manneskjunnar - sem hún einmitt varað leika. Og lífið snæðir sitt fólk með alskonar viðbiti. Þeim sem horfir tilsýndar á það mataræði getur stundum þótt einsog hamingjan sé frátekin handa þeim yfirborðslegustu. En það er nú blekking því hamingjan er bara vörumerki. Gleðin er þaðsem við leitum að þegar við skoðum undir yfirborðið á mannlegum samskiptum. Gleðin er þaðsem á að vera í pakkanum. Í sambandi við undirbúningsvinnuna að leikritinu um Ellu varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að koma nokkrum sinnum á heimili þeirra Önnustínu og Kristjáns. Gleðin varþá þar alltaf í heimsókn. Stafaði frá þeim báðum, hljóðlát og dálítið í ætt við þennan tón sem mér hefurorðið svona tíðrætt um. Af því dreg ég þá náttúrlegu ályktun að nú sé tregi Kristjáns djúpur. Léttvæg orð mín synda vitaskuld ósköp klaufalega á yfirborðinu en samt vil ég biðja þau fyrir einlægar samúðarkveðjur frá mér og mínum til Kristjáns og hinna sem nærri standa.

Þorgeir Þorgeirsson