Minning: Ólafur F. Gunnlaugsson afgreiðslustjóri Síðla kvölds hringir síminn. Í símanum er Guðlaug dóttir Ólafs og tilkynnir að faðir sinn sé dáinn. Eftir það sem á undan var gengið kom fregnin ekki á óvart. Spurningin var hvenær lyki margra mánaða stríði við þann sjúkdóm sem læknavísindin hafa ekki enn unnið bug á. Eftir situr söknuður og tregi og þó ekki síst þakklæti fyrir að hafa átt vináttu Ólafs. Ólafur lést á Landakotsspítala aðfaranótt 31. október síðastliðinn og verður lagður til hinstu hvíldar í dag frá Neskirkju.

Ólafur Gunnlaugsson fæddist í Ólafsvík á Snæfellsnesi þann 23. júní 1921 og var því 65 ára er hann lést. Ég mun ekki rekja ættir Ólafs hér, en að loknu námi við Verslunarskólann réðst hann til starfa hjáLandsbanka Íslands og starfaði óslitið í 42 ár. Á svo löngum starfsferli verða samstarfsmennirnir margir, félagar sem unnu að sama markmiði, það er að vinna stofnun sinni vel, og ekki síst að berjast fyrir framgangi og vexti síns starfsmannafélags sem að vissu leyti hefur mótast og dafnað í takt viðþær breytingar sem stofnun sem Landsbanki Íslands hefur gengið í gegnum tíðina.

Okkar kynni voru ekki löng og finnst mér það miður, því þeir sem þekktu Ólaf vel og störfuðu með honum lýsa honum sem skilnings ríkum og traustum félaga, félaga sem þeir gátu leitað til ef eitthvað bjátaði á. Þó haft sé á orði að maður komi í manns stað hlýtur að myndast skarð og félag okkar verður fátækara þegar félagi fellur frá, sem var fram á síðustu stund með hugann hjá vinnufélögum sínum.

Ólafur starfaði mikð að félagsmálum innan síns starfsmannafélags. Hann var í stjórn FSLÍ til margra ára og sat í nefndum á vegum félagsins. Hann var formaður starfsárið 1974-75. Hans störf verða seint fullþökkuð, störf sem hann vann að með elju og dugnaði. Félagar í FSLÍ drúpa höfði í þögn og þakka af alhug að hafa átt tækifæri til að eiga samleið með Ólafi í gegnum tíðina.

Stjórn FSLÍ vottar eiginkonu Ólafs, Sigríði Einarsdóttur, börnum og ættingjum, hugleilar samúðarkveðjur á þungbærri stund.

Gunnar H. Helgason