Kristín Anna Þórarinsdóttir Fædd 26. október 1935 Dáin 2. nóvember 1986 Kristín Anna Þórarinsdóttir var löngu landskunn leikkona, þegarhún fluttist hingað að Laugarvatni með fjölskyldu sinni árið 1967, en þá var eiginmaður hennar, KristjánÁrnason, orðinn fastur kennari við menntaskólann. Hér átti hún fast heimili til 1975 og dvaldist hér raunar oft eftir það um lengri eða skemmri tíma. Hér verður engin tilraun gerð til að rekja æviatriði hennar og listferil, aðeins fest á blað fáein kveðju- og þakkarorð fyrir þátt hennar í sögu skólans og ógleymanleg persónuleg kynni.

Enda þótt Kristín Anna hefði stórt heimili að annast var brátt leitað til hennar um aðstoð við leiklistarstarf í skólanum, bæði með leikstjórn og kennslu í framsögn. Og þar er skemmst af að segja, að fyrir atbeina hennar mótaðist sú venja að setja árlega upp leiksýningu, sem stæði a.m.k. jafnfætis öðrum sýningum áhugafólks. Þettahefur tekist síðan, þó að nemendur skólans hafi lengst af ekki verið fleiri en 160-200. Ýmsir ágætir leikstjórar aðrir hafa starfað hér hin síðari ár, en fullyrða má að sú alúð og metnaður, sem Krístín Anna lagði í leikstjórn sína fyrstu árin, hefur lyft þessum þætti skólalífsins og félagslífi nemenda svo að varanlegt hefur orðið. Ekki þarf að hafa fleiri orð um hvers virði það er skólastofnun að fá að njóta hæfileika listamanna með slíkum hætti. - Þess er einnig að minnast að Kristín Anna bar slíka persónu að nærvera hennar setti um margt sérstæðan - en máski ólýsanlegan - menningarsvip á skólann, einsog listgyðjan sjálf væri með einhverjum hætti nær en ella.

Við fyrstu kynni bar Kristín Anna með sér glæsilega siðfágun og göfugmannlega reisn