Anna Bjarnason Það eru ekki margir dagar síðan Anna hringdi til mín og þakkaði fyrir viðtal sem ég hafði tekið við hana og birt í Hús og híbýli. Þegar ég spurði um líðan hennar var frekar fátt um svör, enda hef ég aldrei heyrt þá konu kvarta. Þvert á móti, eins og ávallt í mín eyru var hún að hrósa. "Elín, ef þú værir blaðamaður í Ameríku hefðir þú fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir þetta viðtal," sagði hún af einlægni. Ég veit sem er að Anna var með þessum orðum að lýsa innilegu þakklæti sínu og hún sparaði ekki lofið frekar en fyrr.

Það eru rúm tuttugu ár síðan ég kynntist Önnu og með okkur hefur alltaf verið kært. Þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í blaðamennsku um tvítugt á gamla DB unnum við í sama herbergi. Anna hafði viss forréttindi ­ hún var eini blaðamaðurinn sem hafði rafknúna ritvél. Hún sökkti sér niður í neytendamál af fullum krafti, bjó til heimilisbókhald með landsmönnum og lét það síður en svo afskiptalaust ef umframbirgðum af tómötum eða lambakjöti var fargað á haugunum. Þetta var spennandi tími þar sem tvö síðdegisblöð bitust á markaðnum og sá samhenti hópur, sem þarna starfaði, lagði allt í sölurnar til að vera með betri fréttir en Vísismenn hinum megin við vegginn. Við blaðamennirnir sátum jafnframt í ströngum skóla Jónasar Kristjánssonar sem hélt fundi um hvernig ætti að skrifa fréttir og hikaði ekki við að gagnrýna okkur sæi hann ástæðu til. Það var ekki laust við að nýbyrjaður blaðamaður væri hálfóstyrkur í byrjun í þessum kalda karlaheimi en Anna Bjarnason lét ekkert hagga sér og sparaði ekki þá frekar en nú lofsyrði í minn garð, uppörvun og hvatningu. Ég sé það núna, þegar litið er til baka, hversu mjög það skortir í dag að ungir og nýbyrjaðir blaðamenn fái þá hlýju og leiðsögn sem ég fékk frá herbergisfélaga mínum.

Konum fjölgaði síðan á DB og við ákváðum að draga okkur út úr karlasamfélaginu á blaðinu einu sinni í mánuði og héldum matarboð hver heima hjá annarri. Allar þær ánægjulegu minningar sem ég á frá þeim tíma með þessum skemmtilegu konum eigum við fyrir okkur en sannarlega misstu strákarnir af miklu.

Þótt Anna og Atli létu gamlan draum rætast að flytja til Ameríku slitnaði ekki vinskapur okkar Önnu því við ræddum oft saman í síma meðan ég sá um helgarblað DV sem birti greinar eftir hana. Ég vissi að hún var komin með heimþrá fyrir talsvert löngu og varð þess vegna svo glöð fyrir hennar hönd þegar ég frétti að hún væri að flytja heim. Ég hitti Önnu síðan þegar maður hennar, Atli, var heiðraður af Blaðamannafélaginu sl. haust og hvatti hana einmitt þá til að koma á afmælisfagnað félagsins sem þau hjónin gerðu. Það kvöld geislaði hún af hamingju yfir að vera komin heim og öllu því sem hún ætlaði að taka sér fyrir hendur. Nokkrum dögum síðar kom reiðarslagið þegar hún fékk vitneskju um þann ömurlega sjúkdóm sem nú hefur dregið þessa góðu konu til dauða.

Ég er þakklát fyrir þann skemmtilega dag sem við Anna áttum saman á Flúðum í janúar sl. Henni fannst það heiður að Hús og híbýli vildi mynda hjá sér og mér finnst það heiður að hafa fengið að kynnast henni. Ég mun ávallt minnast Önnu fyrir hjartahlýju hennar og einlægni. Ég veit hversu þung spor það verða fyrir Atla að ganga áfram veginn án hennar en ég vona að minningin um einstaka konu muni létta þau. Ég sendi Atla, Önnu Sigríði, Ásu, Gunnari, Atla yngri og fjölskyldum þeirra einlægar samúðarkveðjur.

Elín Albertsdóttir.