Minning: Ólafur F. Gunnlaugsson afgreiðslustjóri Fæddur 23. júní 1921 Dáinn 31. október 1986 Á aldraða leggst sú kvöð að "sá með ljáinn" boðar nálægð sína meðþeim hætti að vini og samferðamenn fellir hann, marga um aldur fram.

Svo fór hinn 31. október síðastliðinn er Ólafur Gunnlaugsson lést í Landakotsspítala eftir langa og erfiða glímu við þann er alla sigrar að lokum.

Ólafur fæddist í Ólafsvík á Jónsmessu 1921. Bernsku- og unglingsár hans eru því tengd hinum hörðu kreppuárum. Varla hafa verið birgðir í búi en það var barist hörðum höndum þar sem á öðrum alþýðuheimilum. Unglingar sem aðrir urðu að nota krafta sína til hins ítrasta. Enda fór Ólafur að stunda sjó og var ekki fráhverfur því að gerast sjómaður.

En svo fór að eitthvert afl dró hann til náms, fyrst í Reykholtsskóla og síðar í Verslunarskóla Íslands. Að námi loknu gerðist hann starfamaður Landsbanka Íslands, og þar varð lífsstarf hans til æviloka.

Annars var það ekki ætlunin að rekja æviferil Ólafs. Heldur hitt að rifja upp kynni okkar í þau nærfellt 40 ár sem við Nana nutum samvista við þau hjón, Óla og Siggu. Það var skuggalaus samfelld vinátta, þó milli okkar væri nær 20 ára aldursmunur, og sífellt nöldur og nagg okkar gömlu hjónanna. Allt slíkt létu þau Óli og Sigga sem vind um eyru þjóta.

Þrátt fyrir glaðlegt viðmót var Ólafur alvörumaður. Margar samverustundirnar stóðum við í ströngu að "bjarga heiminum". Frelsa hannfrá "óvininum", öllum hans verkum og öllu hans athæfi. Fyrir alla muni að gera þessa góðu guðsgjöf, jörðina okkar, að sælustað allra manna. Áráttu valdsins að troða á öllu minni máttar dæmdum við útí ystu myrkur. Eftir þessar tiltektir okkar varð heimurinn líkari himnaríki. En þetta var erfitt verk og þá var slegið á léttari strengi eða farið í ferðalag.

Mér er í minni ferð er við fórum fjögur saman um Snæfellsnesið. Að sjálfsögðu gistum við í fæðingarbæ Ólafs.

Nú var hún Ólafsvík önnur en í bernsku hans. Hvert einbýlishúsið öðru ríkmannlegra. Þarna átti Ólafur frændur og vini í öðru hverju húsi, enda viðtökur allar rausnarlegar. Það var brugðið á gamanmál, rifjaðar upp sögur frá gömlum dögum af orðhvötum "Ólsurum" og sjóferðum hetjanna á bátkænum þess tíma. Veður og fegurð Snæ fellsnessins. Allt gerði þessa ferð ógleymanlega.

Þær voru margar ferðirnar og samfundirnir. Allt dýrðardagar, sem manni finnst nú að hefðu mátt vera fleiri.

Þær gleymast ekki veiðiferðirnar okkar þótt ekki væru þær allar til fjár eða fanga, en allar gulli dýrmætari í sjóð minninganna.

Fagur var dagurinn og bjartur er Ólafur varð fertugur. Hann kaus að draga sig úr borgarysnum og gista í Dalnum. Vatnið var sem skuggsjá. Lágnættið hljótt, og fögur var óttan þessa björtu Jónsmessunótt.

Það er svo margt sem ekki er hægt að skrifa, aðeins minnast og lifa. Ólafur lifði aðeins sextíu og fimm afmælisdaga. Síðustu árin gekk hann ekki heill til skógar, en sinnti þó starfi meðan kraftar entust. Að síðustu tóku við þungar sjúkrahúslegur uns yfir lauk.

Sigríði, börnun þeirra og barnabörnum svo og aldraðri móður hans, sendum við hjónin samúðarkveðjur. Honum, sem hverfur til feðra sinna, færum við hjartans þakkir fyrir ljúfar og bjartar samverustundir. Ólafur var borinn inn í nóttleysu sumarsólhvarfa. Hann féll er haustlaufið leitar moldarinnar. Þangað, sem lífið í samspili við himininn sækir endurnýjun þar til vorar á ný.

Jón Pálsson