Málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf. voru rædd í upphafi þingfundar í gær. Arna Schram fylgdist með umræðunum á Alþingi. FINNUR Ingólfsson viðskiptaráðherra var gagnrýndur harðlega í umræðum um málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf. í upphafi þingfundar á Alþingi í gær.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi viðskiptaráðherra við umræður á Alþingi um málefni Lindar hf.

Segja ráðherra hafa leynt

Alþingi upplýsingum

Málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf. voru rædd í upphafi þingfundar í gær. Arna Schram fylgdist með umræðunum á Alþingi.

FINNUR Ingólfsson viðskiptaráðherra var gagnrýndur harðlega í umræðum um málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf. í upphafi þingfundar á Alþingi í gær. Ráðherra var einkum gagnrýndur fyrir það að hafa ekki treyst sér til þess að staðfesta það að tap Landsbankans vegna Lindar hf. væri á bilinu 600 til 700 milljónir króna, í óundirbúinni fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur alþingismanns hinn 3. júní árið 1996. Stjórnarandstæðingar sögðu það gagnrýnivert þar sem nú væri vitað að á sama tíma hefði ráðherra haft undir höndum skýrslu Ríkisendurskoðunar um viðskipti Landsbanka Íslands og Lindar hf.

Ráðherra bar það hins vegar fyrir sig í gær að í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefði komið skýrt fram að bankinn hefði gengið í ábyrgðir fyrir eignarleigufyrirtækið Lind hf. upp á 400 milljónir króna. Það hefði því verið óábyrgt af honum að taka undir eða hafna upphæð þingmannsins í óundirbúinni fyrirspurn sumarið 1996. Hann hefði ekki haft nein gögn í höndunum sem staðfestu tölur þingmannsins nema það sem hann hefði heyrt í fjölmiðlum.

Ásta R. Jóhannesdóttir, þingmaður þingflokks jafnaðarmanna, hóf umræðuna um þessi mál á Alþingi í gær. Tilefnið var skriflegt svar viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu um málefni Landsbanka Íslands og fjármögnunarfyrirtækisins Lindar hf., en svarinu var dreift á þinginu í gærmorgun. Í svarinu segir m.a. að samtals hafi Landsbanki Íslands tapað eða muni tapa fjárhæð sem nemi 707 milljónum króna vegna afskrifta og afskriftaframlaga bankans vegna eignarleigusamninga Lindar hf.

Ásta sagði það skoðun sína að í skriflegum svörum viðskiptaráðherra, sem m.a. væru byggð á svörum Landsbanka Íslands, fælist stór áfellisdómur yfir bankastjórn og bankaráði Landsbankans og einnig stjórn og framkvæmdastjóra fyrirtækisins Lindar hf. og jafnvel yfirstjórn bankamála í landinu. Sagði hún ennfremur að ýmsar spurningar vöknuðu vegna þessara skriflegu svara og benti m.a. á að í þeim kæmi fram að ítarleg greinargerð hefði verið lögð fyrir bankaráð Landsbankans, um tap Lindar hf., í janúar 1996. Þá lægi fyrir að Ríkisendurskoðun hefði skilað skýrslu um viðskipti Landsbankans og Lindar hf. til bankaráðs í lok mars 1996. Ásta sagði því ljóst að Finnur hefði leynt Alþingi upplýsingum þegar hann hefði svaraði fyrirspurn hennar hinn 3. júní árið 1996. Í svari sínu hefði hann sagt að hann þekkti ekki þær tölur sem hún hefði nefnt um 600 til 700 milljóna króna tap Lindar hf., en að hann hefði hins vegar heyrt þær tölur í fjölmiðlum eins og þingmaðurinn.

"Svör ráðherra grafalvarleg"

Viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, sagði í fyrstu að það væri ekki rétt sem Ásta Ragnheiður hefði haldið fram í fjölmiðlum, og meðal annars kom fram í Morgunblaðinu í gær, að tap Lindar hf. hefði verið allt að eitt þúsund milljónir króna. Hann sagði að það kæmi þvert á móti skýrt fram í skriflegu svari því sem hann hefði dreift til alþingismanna að tapið væri 707 milljónir, auk sextán milljóna sem kæmu til m.a. vegna starfseminnar. Þessar upplýsingar sagðist hann hafa fengið staðfestar hjá Landsbankanum fyrr um morguninn.

Varðandi gagnrýni Ástu Ragnheiðar á svörum viðskiptaráðherra sumarið 1996 sagði ráðherra m.a. eftirfarandi: "Ég kannaðist ekki við þessar tölur sex til sjö hundruð milljónir króna. Ég var þá með undir höndum skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mér var send frá Landsbankanum. Í þeirri skýrslu kemur skýrt fram að bankinn hafi gengið í ábyrgðir fyrir eignarleigufyrirtækið Lind hf. upp á 400 milljónir króna. Hefði ég við óundirbúna fyrirspurn frá háttvirtum þingmanni staðfest eða hafnað því að þessar upplýsingar væru réttar, hefði ég ekki farið með rétt mál. Það hefði verið óábyrgt af mér, með engin gögn í höndum, að taka undir með háttvirtum þingmanni eða staðfesta það hvort þær upplýsingar sem háttvirtur þingmaður hafði úr fjölmiðlum væru réttar eða rangar," sagði ráðherra.

Fleiri þingmenn tóku þátt í þessari umræðu í gær sem fór fram undir heitinu athugasemdir um störf þingsins. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra, sagði m.a. að það væri ljóst að svör ráðherra í júní 1996 væru grafalvarleg. "Hafi ráðherra ekki vísvitandi logið að Alþingi þá hefur hann að minnsta kosti, að því er virðist, leynt Alþingi upplýsingum," sagði hann og bætti því við að hvort tveggja væri í raun og veru jafn alvarlegt.

"Hver er ábyrgð bankamálaráðherra?"

Steingrímur gerði einnig að umtalsefni tap Landsbanka Íslands vegna Lindar hf. og kvaðst ekki fá sömu tölur og kæmu fram í svari ráðherra. "Í svarinu frá hæstvirtum ráðherra segir að samtals hafi Landsbankinn tapað eða muni tapa fjárhæð sem nemi 707 milljónum króna vegna afskrifta og afskriftaframlaga bankans vegna eignarleigusamninga Lindar hf. En til viðbótar liggur fyrir að kaupvirðið var 53 milljónir króna og hlutafjáraukning samtals 140 milljónir króna. Tap á sölu eigna var 16 milljónir og ef svarið hér er rétt að 707 milljónirnar séu eingöngu vegna afskrifta og afskriftaframlaga þá fer heildartalan að nálgast milljarð," sagði hann og taldi ástæðu til þess að fá betri svör frá ráðherra.

Sighvatur Björgvinsson, þingflokki jafnaðarmanna, benti á að eftir að bankaráð Landsbankans hefði farið yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um viðskipti Landsbankans og Lindar hf. á sínum tíma hefði ráðið komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til frekari aðgerða. Sighvatur beindi því þeirri fyrirspurn til ráðherra hvort einhverjar tillögur um frekari aðgerðir hefðu komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki jafnaðarmanna, tók næst til máls og sagði að enn einu sinni stæðu alþingismenn frammi fyrir því að gróflega hefði verið farið með opinbert fé hjá Landsbanka Íslands. "Himinháar fjárhæðir, eða að minnsta kosti 700 milljónir hafa glatast af fé skattborgaranna," sagði hún og spurði ráðherra hver bæri ábyrgðina. "Hver er ábyrgð stjórnenda Lindar hf. og hver er ábyrgð bankamálaráðherrans?"

Jóhanna fór því næst fram á það við viðskiptaráðherra að hann legði fram á Alþingi greinargerð bankaráðs frá því í janúar 1996 sem og fyrrgreinda skýrslu Ríkisendurskoðunar. "Mér sýnist að þetta mál sé þannig vaxið að fyrir löngu hefði átt að fara fram opinber rannsókn á því," sagði hún m.a.

"Hvernig stendur á misræminu?"

Jóhanna greindi einnig frá því að viðskiptaráðherra hefði reynt að komast hjá því við fyrirspurn hennar á dögunum að tilgreina nákvæmlega tap Landsbankans vegna tíu fyrirtækja og einstaklinga. "Ráðherra hefur ekki viljað svara því hingað til," sagði hún. "Ég hef ítrekað farið fram á það og ég krefst þess að það verði lagt fram hér sundurliðað áður en þing fer heim."

Í máli Össurar Skarphéðinssonar, þingflokki jafnaðarmanna, kom m.a. fram að hann teldi að það sem skipti einna mestu máli í þessari umræðu væri trúverðugleiki ráðherrans. "Það sem mér finnst að þingið þurfi að vita til að komast til botns í þessari umræðu er það hvernig stendur á misræminu milli svara hæstvirts ráðherra hinn 3. júní 1996 og þeirrar staðreyndar að hann hafði þá þegar upplýsingar undir höndum sem hefðu getað veitt fullnægjandi svör við fyrirspurn háttvirts þingmanns Ástu R. Jóhannesdóttur sama dag," sagði hann. "Hæstvirtur ráðherra gaf í fyrsta lagi til kynna í svarinu að þær upplýsingar sem hann hefði undir höndum, hefði hann úr fjölmiðlum og í öðru lagi að hann hefði engar aðrar upplýsingar undir höndum," sagði Össur og benti á að nú lægi það hins vegar fyrir að ráðherra hefði haft á sínu borði greinargerð um málið sem honum hefði borist um tveimur mánuðum fyrr.

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, tók einnig til máls og sagði m.a. að það væri óþolandi hve miklir fjármunir hefðu tapast vegna Lindar hf. "En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að koma hér inn á er það að hér er gert mikið úr svari hæstvirts viðskiptaráðherra við óundirbúinni fyrirspurn," sagði hún og tók fram að sér fyndist að ráðherra hefði brugðist rétt við fyrirspurn Ástu Ragnheiðar sumarið 1996. "Það er ekki hægt að ætlast til þess að hæstvirtir ráðherrar hafi tölur nákvæmlega í höfðinu í sambandi við öll mál. Og það er ekki hægt að gera lítið úr trúverðugleika ráðherrans sem tengist því máli þegar hann svarar óundirbúinni fyrirspurn."

"Kallar ekki allt ömmu sína"

Þegar hér var komið sögu kom Ásta Ragnheiður aftur upp í ræðustól og fjallaði m.a. um tap Lindar hf. "Viðskiptaráðherra telur ástæðu til þess að leiðrétta orð mín í fjölmiðlum hér í ræðustól Alþingis þegar ég nefni þúsund milljóna króna tap. En hann sá ekki ástæðu til að leiðrétta hæstvirtan forsætisráðherra þegar hann nefndi sömu tölu í fréttum Stöðvar tvö, hinn 10. apríl sl. En ég efast ekki um að hæstvirtur forsætisráðherra hafi greiðan aðgang að bankaráðsmönnum Landsbankans um upplýsingar um þessi mál," sagði hún.

Þá spurði Ásta hvers vegna ekki hefði verið farið að þeim ráðum sem kæmu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, samkvæmt heimildum hennar, að rannsaka bæri ýmsa þætti Lindarmálsins nánar. "Hvers vegna varð ráðherra ekki við þessari kröfu þegar skýrslan var lögð fyrir hann árið 1996. Var verið að fela eitthvað hér? Ég vitna í viðtal við fyrrverandi Landsbankastjóra Sverri Hermannsson í Morgunblaðinu. Hann kallar þetta mál skelfilegt spillingarmál, eins og þau gerast verst, og kallar sá maður nú ekki allt ömmu sína í þessum efnum."

Viðskiptaráðherra kom aftur í pontu og skýrði frá því að eignaleigufyrirtækið Lind hf. hefði hætt störfum áður en hann hefði tekið við embætti viðskiptaráðherra og að það hefði verið í tíð forvera hans sem heimild hefði verið veitt til að sameina Lind Landsbankanum.

Þá benti ráðherra á, vegna fyrirspurna þingmanna, að skýrsla Ríkisendurskoðunar væri opinbert plagg, þar sem hún lægi fyrir í viðskiptaráðuneytinu. Eftir ræðu ráðherra fóru Jóhanna Sigurðardóttir og Sighvatur Björgvinsson aftur fram á það við viðskiptaráðherra að hann legði fram á Alþingi greinargerð bankaráðs frá janúar 1996. Viðskiptaráðherra svaraði því hins vegar til að sú greinargerð væri ekki til í ráðuneytinu og hefði ekki borist því. Þá fóru þingmenn fram á utandagskrárumræðu um málefni Lindar hf. á Alþingi áður en þing færi heim í sumar.Ráðherra segiróábyrgt að nefna tölur úr fjölmiðlum

Óþolandi hve miklir fjármunir töpuðust í Lind

Morgunblaðið/Golli FINNUR Ingólfsson viðskiptaráðherra í ræðustól Alþingis í gær. Í bakgrunni má sjá Ástu R. Jóhannesdóttur alþingismann, sem hóf umræðuna.