GUNNLAUGUR ÞÓRÐARSON

Dr. Gunnlaugur Þórðarson fæddist á Kleppi við Reykjavík, 14. apríl 1919. Hann lést á Landakotsspítala 20. maí síðastliðinn, af völdum áverka sem hann hlaut í bílslysi í byrjun janúar. Hann var sonur Þórðar Sveinssonar, f. 1874, d. 1946, yfirlæknis á Kleppi og prófessors við Háskóla Íslands, og konu hans, Ellenar Johanne Sveinsson, f. 1888, d. 1974. Systkini Gunnlaugs voru Hörður, f. 1909, d. 1975, sparisjóðsstjóri, Úlfar, f. 1911, augnlæknir, Sveinn, f. 1913, doktor í Kanada, Nína, f. 1915, tannsmiður, Agnar, f. 1917, bókavörður og rithöfundur, og Sverrir, f. 1922, blaðamaður. Gunnlaugur kvæntist Herdísi Þorvaldsdóttur leikkonu árið 1945, en þau slitu samvistum 1975. Börn þeirra eru: Hrafn, f. 1948, kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur, kvæntur Eddu Kristjánsdóttur, ritara, og eiga þau fjögur börn. Þorvaldur, f. 1950, stærðfræðingur, sambýliskona Ágústa Hrefna Lárusdóttur, skrifstofustjóri, en Þorvaldur á fjögur börn og eitt barnabarn. Snædís, f. 1952, lögfræðingur, gift Sigurjóni Benediktssyni, tannlækni á Húsavík, og eiga þau þrjú börn, Tinna, f. 1954, leikkona, gift Agli Ólafssyni, tónlistarmanni og leikara, og eiga þau þrjú börn. Auk þess lætur Gunnlaugur eftir sig dóttur fædda 1977. Gunnlaugur lauk námi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1939 og prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1945. Hann lauk prófi í þjóðarrétti frá Sorbonne háskóla árið 1951 og varði doktorsritgerð sína um landhelgi Íslands við sama skóla 1952. Landhelgismálið var honum alla tíð brennandi hjartans mál, en auk þess að gefa ritgerð sína út á bók, skrifaði hann fjölda greina um landhelgi Íslands og hafði forgöngu um að koma að hugmyndum um útfærslu hennar, fyrst í fimmtíu og síðar í tvö hundruð mílur. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1951 og öðlaðist réttindi hæstaréttarlögmanns árið 1962. Gunnlaugur var forsetaritari á árunum 1945­1950 og jafnframt orðu- og ríkisráðsritari á árunum 1947­1950. Hann var skipaður fulltrúi í félagsmálaráðuneytinu árið 1950, en fékk lausn að eigin ósk 1975. Auk þess rak hann lögfræðistofu í Reykjavík frá árinu 1952 fyrst einn, en síðan í félagi við Ólaf Thoroddsen, Árna Einarsson og Steingrím Eiríksson lögmenn. Hin síðari ár þó eingöngu í félagi við Árna og Steingrím, nú síðast á Lögmannsstofunni, Suðurlandsbraut 4. Gunnlaugur átti sæti í stjórn Rauða kross Íslands á árunum 1952­ 1964 og átti frumkvæði að komu ungverskra flóttamanna til landsins 1956. Hann sat á alþingi sem landskjörinn varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn 1957­1959 og átti sæti í miðstjórn flokksins með hléum árin 1954­1971. Gunnlaugur átti lengi sæti í barnaverndarnefnd og lét sig alla tíð mannúðar- og réttlætismál miklu varða, enda óragur við að verja málstað lítilmagnans í þjóðfélaginu. Gunnlaugur var formaður Listasafnsfélagsins frá 1956­1971 og var skipaður í safnráð Listasafns Íslands og átti þar sæti, þar til hann sagði sig úr ráðinu 1972. Áhugi Gunnlaugs á myndlist var kunnur, enda reyndist hann málurum á borð við Gunnlaug Scheving og síðar Karl Kvaran, einstaklega vel og studdi þá í hvívetna. Auk þess sat Gunnlaugur í stjórn Menningarsjóðs Þjóðleikhússins á árunum 1961­1965. Gunnlaugur var kunnur leiðsögumaður ferðamanna og mikill ræktunarmaður, enda lætur hann eftir sig stórvirki á því sviði. Gunnlaugur ferðaðist auk þess mikið erlendis og flutti gjarnan erindi um ferðir sínar í útvarpi, en hann sótti meðal annars öll hin síðari ár fundi alþjóðasamtaka lögfræðinga, sem haldnir voru víðsvegar um heiminn. Síðasti fundurinn sem Gunnlaugur sótti var í Qatar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í október sl., en þar var hann aldursforseti. Auk þess var Gunnlaugur kunnur fyrir áhuga sinn á þjóðmálum og virkur í umræðunni en eftir hann liggur fjöldi greina og erinda. Útför Gunnlaugs fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.