Það var óneitanlega hvasst síðdegis mánudaginn 11. maí, svo að þau sem svöruðu kalli biskupsstofu að koma saman í Neskirkju til umræðu, fuku niður stigann og inn um dyrnar. Tilefnið var fyrsta málþing þjóðkirkjunnar um jafnrétti kynjanna í kirkjunni. Stólum var raðað í stóran hring, sem stækkaði óðum því að fleiri komu en skráðir voru.
Jafnrétti kynjanna í kirkjunni

Málþing þjóðkirkjunnar um jafnrétti kynjanna í kirkjunni var haldið fyrir nokkru. Yrsa Þórðardóttir fjallar hér um það sem fram fór á þinginu.

Það var óneitanlega hvasst síðdegis mánudaginn 11. maí, svo að þau sem svöruðu kalli biskupsstofu að koma saman í Neskirkju til umræðu, fuku niður stigann og inn um dyrnar. Tilefnið var fyrsta málþing þjóðkirkjunnar um jafnrétti kynjanna í kirkjunni.

Stólum var raðað í stóran hring, sem stækkaði óðum því að fleiri komu en skráðir voru. Í miðjunni var hringlaga borð með hringlaga kúlukertum á, hringinn í kringum baldursbrár. Í bæn og ávarpi hóps frá kvennakirkjunni vorum við beðin að íhuga hringinn, þar sem enginn situr ofar öðrum, enginn á horni og enginn við háborð.

Til frelsis frelsaði Kristur oss

Úr sæti sínu í hringnum ávarpaði biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson viðstadda. Hann kvað kristna kirkju síst hafa orðið til að kúga konur eða viðhalda misrétti, heldur byggjum við að því að Kristur fer ekki í manngreinarálit. Þannig færði kirkjan fólki á öllum öldum þau boð að við værum öll eitt í Jesú Kristi og öll jafnrétthá. Annað væri afbökun. Hann sagði að allt tal um kvenfyrirlitningu kristinnar trúar og jafnvel kvenhatur, væri mælt af lágum sjónarhóli og þröngum, eða vitnað til reynslu sem væri í andstöðu við vilja Krists.

Konur ekki í valdastöðu

Hann kvað hróplegt ósamræmi vera á milli framlags kvenna til kirkjustarfs, og valda þeirra og áhrifa við ákvarðanir. Á kirkjuþingi í haust vill hann leggja fram eigin jafnréttisáætlun. Biskup er mótfallinn hugmyndum um að ráðherra skipi jafnréttisnefnd, nú þegar kirkjan er óðum að taka yfir stjórn á eigin málum. Hann benti á að á meðan prestar væru kosnir leynilegri kosningu, væri fátt hægt að gera til að hafa í heiðri landslög, þ.e. jafnréttislöggjöfina, og tilmæli lútherska heimssambandsins um að hvorugt kynið skuli skipa færri en 40% sæta í nefndum og ráðum kirkjunnar. Því væri brýnt að endurskoða fyrirkomulag um val á prestum.

Um málfar beggja kynja bað hann söfnuði kalla hvert annað systkin en ekki bræður. Hins vegar mætti kirkjan ekki sundrast í ósamkynja hópa sem ekki gætu sameinast í tilbeiðslunni. Menningarlegt stórslys myndi af hljótast ef konur teldu sig ekki eiga samleið með orðfæri kirkjunnar og tungutaki því að þær hefðu öðrum fremur miðlað arfi aldanna frá kynslóð til kynslóðar.

Drög að jafnréttisáætlun kirkjunnar

Þá voru tekin fyrir drög að jafnréttisáætlun kirkjunnar, sem lögð voru fyrir kirkjuþing í haust sem leið. Þau eru afrakstur vinnu nefndar sem herra Ólafur Skúlason biskup skipaði í apríl 1997 til að móta stefnu kirkjunnar í jafnréttismálum. Nefndina skipa prestarnir Solveig Lára Guðmundsdóttir, sem er formaður, Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Kristinn Ágúst Friðfinnsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, dósent, og Þórhallur Ólafsson, aðstoðarmaður kirkjumálaráðherra.

Farið var í guðfræðileg rök jafnréttis kynjanna og einstaka liði jafnréttisáætlunarinnar, eins og jafnréttisfræðslu og málfar, jöfn laun og aðstöðu starfsfólks kirkjunnar, og jafna aðild kynjanna að nefndum og ráðum hennar, og jafna aðild kynjanna að yfirstjórn kirkjunnar.

Kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor

Inga Huld Hákonardóttir sagnfræðingur ávarpaði málþingið og vakti athygli á rýrum hlut kvenna í kirkjusögu Íslands. Hún kvað hlut þeirra síst hafa vaxið við siðbót. Nú stendur yfir ritun kirkjusögu, þar sem henni hefur verið falið að skrifa 7 bls. af hverjum 300, um konur í kirkjusögunni.

Prestarnir Kristinn Ágúst Friðfinnsson og Yrsa Þórðardóttir héldu tölur um ástand mála nú, viðhorf fólks til jafnréttis, kerfið sem heldur fólki föngnu, og hvatningu til að iðka jafnrétti í starfi og ást. Umræður sem á eftir komu leiddu af sér eftirfarandi þanka:

Fólki kom saman um að fræðsla og umræður skiptu höfuðmáli. Til þess þyrfti kirkjuþing að móta skýra jafnréttisstefnu og biskupsembættið að fylgja henni fast eftir. Biblíuþýðingin nýja var oft nefnd, því að málfar beggja kynja þarf að finnast í sálmabókum kirkjunnar, og helgisiðabók.

Tilsjónarmaður í prestskosningum

Fyrirkomulag vals á prestum þykir ekki vænlegt til jafnréttis. Miklar undirtektir voru við hugmynd um tilsjónarmann, sem biskupsstofa skyldi senda í starfsviðtöl, til að gæta þess að lög séu höfð í heiðri. Dæmi eru um spurningar sóknarnefndafólks til kvenna um það hvort þær hyggist eignast barn á næstunni. Eins er spurt um viðhorf til kvennaguðfræði, en ekki fullvíst að jafnt karlar sem konur séu spurð að þessu. Aðallega skortir reglur og venjur, sem slíkur tilsjónarmaður gæti fylgst með. Nefnt var að létta mætti af herðum sóknarnefnda þeirri ábyrgð að velja presta, enda liðu þær einnig fyrir þessar sömu sakir, að engar fastar venjur væru til, né leiðir til að tryggja jafnrétti og þar með fylgja landslögum.

Mirjam, Mirjam, farðu til Faraó

Að lokum var haldin helgistund í kirkjunni. Sunginn var söngurinn gamalkunni Go down Moses, hermdur upp á systur Móse og Arons, hana Mirjam, sem safnaði konunum saman "að syngja og dansa. Við erum á leiðinni heim", eins og Auður Eir Vilhjálmsdóttir orti. Konur gengu inn kirkjugólfið með þunga hlekki, sem þær svo slepptu í gólfið. Bænir voru beðnar á máli beggja kynja fyrir jafnrétti og skilningi. Hringurinn, sem myndaður var í upphafi, opnaðist og hver þinggestur fór með vanilluhring heim sem í miðjunni hafði ritningartexta á málfari beggja kynja. Í nesti höfðum við einnig hugsanir og spurningar um heimavinnu kirkjunnar í jafnréttismálum.

Höfundur er prestur.

Yrsa Þórðardóttir