Okkur setur hljóð þegar ástvinir hverfa á braut. Svo var um mig þegar ég heyrði andlátsfregn Önnu Stínu. En í þeirri þögn var söngur. Fyrsta minning mín um Önnu Stínu, flutningur hennar á Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Þung er sú þögn í landi

álfar ugga um sinn hag.

Þá horfið er af heiminum brott

það ljúflingslag.

Lindin spyr vindinn:

- Hví syngur hann ekki í dag?

Er ég var sextán ára unglingur, var ég í sumarvinnu í frystihúsi norður á Akureyri. Klæddur slopp og stígvélum mokaði ég fiski á færibönd í þrettán tíma á dag og beið eftir að óendanlegur dagurinn liði. Að vinnudegi loknum fór ég úr stígvélunum og hvíldi fæturna í heitu vatni, setti hljómplötuna með Sóleyjarkvæði á fóninn og hlustaði á plötuna frá upphafi til enda, fyrr lauk ekki fótabaðinu. Þetta varð athöfn sem var endurtekin daglega sumarið á enda. Ég heillaðist af fínlegum og næmum flutningi Önnu Stínu á ljóðunum. Fáa hef ég síðan heyrt snerta jafn fagurlega strengi ljóðhörpunnar sem hún. Af hrifnæmi unglingsins lærði ég vitaskuld fljótlega ljóðin utanað - og dagarnir við færibandið urðu léttbærir. Ég þurfti ekki annað en láta hugann reika lítillega og rödd Önnu Stínu hljómaði í huga mér.

Mig grunaði allra síst þá, að sextán árum síðar ættum við eftir að standa saman á sviðinu og leika hvort sína hlið sömu manneskjunnar. Ég nánast í sömu múnderingu og í frystihúsinu forðum. En nú varAnna Stína þögul. Hún kenndi mér þar og sýndi, að góður leikari getur sagt átakamikla sögu án þess að segja orð. Í tæpa tvo klukkutíma stanslaust sagði hún okkur lífshlaup konu, þannig að engan lét ósnortinn. Það er vandasamur leikur sem hún hafði fullkomlega á valdi sínu. Þetta var auðvitað Ella, síðasta hlutverk hennar á sviði.

Það var mín gæfa að fá að kynnast svo náið hæfileikum hennar og ást á leiklistinni. Takmarkalausri fórnfýsi fyrir þá list sem var líf hennar. Jafnvel þó sjúkdómurinn, sem nú hefur dregið hana til dauða, gengi miskunnarlaust á krafta hennar, þá barðist hún á móti, svo fáa grunaði hversu stór leiksigur var í rauninni unninn á bak við grímu persónunnar.

Nú er aðeins þögnin eftir og minning um óviðjafnanlegan listamann sem ómar í þögninni.

Ég votta eftirlifandi eiginmanni hennar og börnum mína dýpstu samúð.

Viðar Eggertsson