VERIÐ var að bera fjölda skipslíkana inn í Sjómannaskólann þegar blaðamann bar að garði fyrr í vikunni. Við enda eins gangsins stóð Hannes Hafstein og stjórnaði mönnunum með harðri hendi: "Hingað, strákar! Hvað eruð þið með þarna? Nei, er þetta ekki Óðinn, sem seldur var úr landi.
Sigldi

ómönnuð

út

á haf

Í tilefni sjómannadagsins verður opnuð sýning á nær 100 líkönum af bátum og skipum, sem flest eru eftir Grím Karlsson. Hannes Hafstein, sem safnað hefur líkönunum saman og heldur utan um sýninguna, sagði Hildi Friðriksdóttur frá nokkrum skipanna. Mögnuðust er sagan af Helgu EA 2, sem sleit sig lausa frá bryggjunni og sigldi ómönnuð út á haf.

VERIÐ var að bera fjölda skipslíkana inn í Sjómannaskólann þegar blaðamann bar að garði fyrr í vikunni. Við enda eins gangsins stóð Hannes Hafstein og stjórnaði mönnunum með harðri hendi: "Hingað, strákar! Hvað eruð þið með þarna? Nei, er þetta ekki Óðinn, sem seldur var úr landi. Hann fer þangað inn," skipaði hann fyrir hárri röddu um leið og hann benti inn í eina skólastofuna.

Eftir að Hannes hætti hjá Slysavarnafélaginu hefur hann ár hvert starfað við undirbúning sjómannadagsins. Að þessu sinni fór drjúgur tími í að safna saman líkönum úr öllum áttum og koma þeim fyrir til sýningar. Hann horfir stoltur á afraksturinn þar sem hann gengur um ganga Sjómannaskólans og segir frá einu og einu skipi. Bætir við að þessa sýningu ætti ekki nokkur maður að láta framhjá sér fara.

Sagan af Helgu EA 2

Mögnuðust er sagan um Helgu EA 2, en tvö líkön af henni má finna á jarðhæðinni; annað sem er eins og skipið var í upphafi en hitt eftir breytingu. "Brúin var tekin og stýrið fært aftur á þilfar. Eftir það var hún notuð sem birgðaskip með tunnur og salt norður á Hólmavík. Söguna af Helgu hefur Grímur Karlsson líkanasmiður og fyrrverandi sjómaður skráð, en faðir hans, Karl Dúason, var á skipinu árin 1919 og 1920," segir Hannes.

Hannes man vel eftir umtalinu um Helguna þegar hann var á síld fyrir norðan 1944 eða um það leyti sem atburðurinn átti sér stað. "Það var síðla sumars 1944, að hún var bundin við bryggju á Drangsnesi. Það var ekkert annað en hún sleit sínar festar og lagði af stað á fullri ferð. Hún var ekki með nein segl né mótor heldur sigldi bara á reiðanum í gegnum brim og boða í brjáluðu veðri. Halldór bóndi á Bæ sá til hennar, hringdi og sagði:

"Skipið er að fara þarna út."

"Já, við sendum bát eftir því en höfum ekki náð því."

"Hverjir eru þarna um borð?"

"Það eru engir um borð."

"Þið ljúgið því. Ég sé að minnsta kosti einhverja veru við stýrið aftur á," sagði Halldór.

"Þetta var Helga, unga stúlkan sem kramdist undir skipinu þegar verið var að sjósetja það," segir Hannes.

Forsagan er sú, að Helga EA 2 var keypt til Íslands nokkru fyrir aldamót. Hún var smíðuð í Englandi 1874 og hét upphaflega "Onward". Þegar sjósetja átti skipið misstu menn það á stjórnborðshliðina. Við það varð það slys, að ástmey yngsta smiðsins varð undir skipinu. Hún var flutt stórslösuð um borð og lögð í koju stjórnborðsmegin, þar sem hún dó. Eftir þetta urðu menn jafnan varir við svip Helgu. Var sagt að hún hefði varið skipið áföllum og oftsinnis gefið sjómönnunum merki um yfirvofandi hættu. Þegar hún birtist þeim drifu þeir sig alltaf í land, jafnvel þótt blíðskaparveður væri. Þeir sem sáu Helgu stíma í land héldu hiklaust á eftir henni og komust þannig ósjaldan hjá því að lenda í mannskaðaveðrum.

Þrír kútterar fórust

Þegar við höldum áfram röltinu segir Hannes og bendir á seglskip: "Hér er Kútter Sophie Wheatly 81 rúmlest, sem fórst ásamt tveimur öðrum kútterum í ofsaveðri 7. apríl 1906 í Faxaflóa. Með þeim fórust 68 sjómenn. Kútter Sophie fórst við Mýrar með 24 manna áhöfn, Kútter Ingvar, 77 rúmlestir, fórst á skerjunum milli Viðeyjar og lands, rétt við hafnarmynnið í Reykjavík. Á Ingvari voru 20 manns í áhöfn sem allir fórust. Þriðja skipið var Kútter Emilie, 85 rúmlestir, en það fórst líka við Mýrar með 24 manna áhöfn," segir Hannes og bætir við að á þessum tíma hafi ekki verið nein tæki til björgunar.

Þarna má einnig sjá Víði GK, sem vélstjóri bátsins dundaði sér við að smíða niðri í vél og gaf skipstjóranum loks að gjöf. Einnig eru hlið við hlið Guðmundur Þórðarson og Víðir II í Garði. "Víðir annar er merkilegur að því leyti, að Eggert Gíslason fiskaði nærri 20.000 mál á honum á síldveiðinni 1959. Þetta er stöngin af asdic-tækjum til að finna torfurnar," segir Hannes og bendir á stöng sem liggur á borðinu til hliðar við skipin. "Eggert var fyrsti maðurinn í heiminum sem kastaði á síld með asdic-tæki um borð. Nojararnir fóru á sínum bátum með asdic, fundu torfuna og lágu yfir. Síðan kom hitt skipið og kastaði í kringum torfuna. Eggert notaði aftur á móti asdic-tækið til leitar og kastaði beint frá borði.

Með Guðmundi Þórðarsyni verður bylting. Eigandinn Baldur Guðmundsson í Reykjavík var svo heppinn að hann fékk til liðs við sig indælis mann, sem nú er látinn, Harald Ágústsson skipstjóra. Hann var fyrstur til að ná tökum á notkun kraftblakkarinnar við veiðar á torfufiski í Atlantshafi."

Þegar Hannes er að lokum spurður hvaða líkans honum þyki mest til koma hlær hann íbygginn og kveðst ekki vilja segja frá því, en blaðamann grunar að það sé fjarstýrði báturinn Hannes Hafstein, sem Sigurður H. Þorláksson smíðaði. Þegar horft er á líkanið lætur það ekki mikið yfir sér ­ þannig séð ­ en í bátnum eru þrjár skrúfur og þrjár vélar, lítill mótor um hverja vél sem nær inn á stýrið og mótor sem stýrir radarnum. Hægt er að renna skutnum niður til að renna út litlum gúmmíbáti. Sigurði fannst vandamál að alltaf lak með stefniskantinum og því smíðaði hann agnarsmáa lensidælu úr silfri sem þurrkar bátinn. "Nei, ég held annars að ég sé sammála Grími Karlssyni, um að Sigurbjörgin sé langflottasta líkanið. Í það fóru 2.500 klukkustundir, enda er það meistarasmíð. Líkanið var gefið til minningar um þá, sem fórust þegar Hellisey VE 503 fórst austur af Vestmannaeyjum 11. mars 1984. Aðeins einn skipverja, Guðlaugur Friðþórsson, komst af og vann það afrek að synda 6 km til lands."

Morgunblaðið/Þorkell HRÍSEY EA 10, "hákarlaskip". Skútan var líklega smíðuð í Skotlandi um 1860­1870 og kom til Íslands upp úr 1880. Hríseyin varð einna langlífust hákarlaskipanna. Var hún notuð alla þá tíð sem gert var út á hákarl við Íslandsstrendur eða til ársins 1924. Eftir að hákarlaveiðum var hætt stóð þetta gamla skip lengi uppi á Oddeyrartanga á Akureyri við hús Gránufélagsins.

HELGA EA 2. Vinstra megin í upprunalegri mynd og hægra megin eftir að henni var breytt. Hún var dæmd ónýt og tekin af skipaskrá 1944.

HAFRANNSÓKNASKIPIÐ Árni Friðriksson og vinnulíkan af hinu nýja skipi Hafrannsóknastofnunar.

FREMST er áraskip, áttæringur, með Engeyjarlagi. Hægra megin er Sigurbjörg ÓF 1, eitt glæsilegasta líkanið á sýningunni. Það tók Grím Karlsson um 2.500 klukkustundir að vinna við skipið.

ÆGIR gamli (1929­1969) og Ægir hinn nýi (tekinn í notkun 1968). Sigurður Jónsson smíðaði líkönin.

INGÓLFUR Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn sem kom til Íslands, árið 1947. Hann var búinn radar en talið er að skipið hafi verið fyrsta fiskiskipið í heimi, sem búið var slíku tæki.

FAXABORGIN var bæði fiskiskip og varðskip. Hún varð fræg sumarið 1949 en þá lenti skipið í miklum Rússaslag og tók tólf skip í landhelgi í sömu ferðinni. Skipin voru breskur togari við Stokksnes, þrjú norsk og þrjú sænsk síldveiðiskip við Austfirði, eitt rússneskt móðurskip við Langanes og fjögur rússnesk síldveiðiskip við Bakkaflóa. Skipið sökk eftir bruna út frá Jökli 1968. Áhöfnin, fimm menn, bjargaðist í gúmmíbát og áhöfnin á Gísla lóðs GK 130 bjargaði mönnunum til lands.

HANNES Hafstein við björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein, sem Sigurður H. Þorláksson smíðaði. Báturinn er rafstýrður og drifinn af fjölda mótora, auk þess sem lítil lensidæla úr silfri þurrkar kjöl bátsins.

FYRSTA íslenska varðskipið, var smíðað í Englandi 1899 sem togari. Það var 325 hestöfl með 47 mm fallbyssu. Vestmannaeyingar söfnuðu fyrir skipinu, þar sem breskir togarar voru svo aðgangsharðir á miðum Eyjabáta á þessum árum, að þeir eyðilögðu gjarnan fyrir þeim veiðarfærin. Líkanið smíðaði Sigurður Jónsson.

HARALDUR Ágústsson skipstjóri á Guðmundir Þórðarsyni (t.v.) var fyrstur til að ná tökum á notkun kraftblakkarinnar við veiðar á torfufiski. Eggert Gíslason skipstjóri á Víði II (t.h.) var fyrsti maðurinn í heiminum sem kastaði á síld með asdic-tæki um borð.