ESKFIRÐINGAR fjölmenntu hinn 29. maí að fornu Völvuleiði til að fagna endurbótum sem nemendur grunnskólans höfðu unnið að í kringum leiðið ásamt kennurum sínum. Völvuleiði sem þetta munu vera til víða um land og ýmsar sagnir til um þau.
Völvuleiði endur-

bætt á Eskifirði

ESKFIRÐINGAR fjölmenntu hinn 29. maí að fornu Völvuleiði til að fagna endurbótum sem nemendur grunnskólans höfðu unnið að í kringum leiðið ásamt kennurum sínum.

Völvuleiði sem þetta munu vera til víða um land og ýmsar sagnir til um þau. Þarna eiga að vera grafnar seiðkonur og sú sem hvílir hjá Eskfirðingum mun, samkvæmt þjóðsögu, hafa sagt að á meðan eitthvert bein væri óbrotið í sér myndi hún halda verndarhendi yfir byggðinni. Þórhallur Þorvaldsson, kennari á Eskifirði, segir Eskfirðinga líta á völvuna sem verndara sinn og þeir hafi viljað gera vel við hana.

Við vígsluathöfnina klæddust nemendur í fornlega búninga og þökkuðu völvunni verndina í aldanna rás. Þórhallur segir allt benda til þess að Völvan hafi verið hin ánægðasta með endurbæturnar. Til marks um það þá hafi verið kalsaveður og þokumugga þegar byrjað var að hlaða en eftir því sem verkinu miðaði áfram birti til og endaði með sól í heiði við verklok.

Vegvísar voru settir að völvuleiðinu og gönguleiðir að því lagfærðar, einnig var varða, sem þarna er, hlaðin upp. "Eskfirðingar voru ánægðir með endurbæturnar og þóttu þær til sóma," segir Þórhallur. Síðar kom í ljós að samkvæmt reglugerð frá 1989 þarf sérstakt leyfi til að hreyfa við fornminjum eldri en 100 ára, þær eru friðlýstar og mun þetta svæði falla undir þá reglu.

Þórhallur segir það ekki hafa verið ætlunina að brjóta reglur, kappið hafi ef til vill verið fullmikið og þeir ekki hugað að þessu í tíma. Þeir hafi svo rætt við Þór Magnússon þjóðminjavörð og hann hafi látið athuga hleðsluna og aðrar framkvæmdir. Sem betur fer hafi þetta allt saman þótt vel gert og ekki talið að nein spjöll hafi verið unnin heldur þvert á móti og framkvæmdirnar allar þótt til bóta eins og til stóð. Hins vegar sé rétt að benda fólki á að hafa samband við þjóðminjavörð hafi það hug á að gera einhverjar lagfæringar á eða í kringum fornminjar.

Morgunblaðið/Helgi Garðarsson VÍGSLUATHÖFN við völvuleiðið.

VERKLOK, Þórhallur og Friðrik Þorvaldssynir ásamt nemendum í 9. bekk.