Þegar ég hitti hana Önnu Stínu fyrst fannst mér hún feiknarleg heimskona. Tilefnið var, að Ingibjörg Stephensen varð tíu áragömul og fagnaði þeim merka áfanga með dömuboði í foreldrahúsum á Laufásvegi 4. Þetta var mikil upplifun fyrir mig, dreifbýlisbarn úr einni af jaðarbyggðum Reykjavíkur. Sárfeimin var ég að reynaað hverfa inn í vegg, þegar til mín sveif fínleg jafnaldra, með bjart og kringlótt andlit (eins og tungl í fyllingu - var hún vön að segja sjálf) og spurði af hverju ég væri ekkiað dansa eins og hinar. Ég sagðistekki kunna það. "Það skal ég kenna þér," sagði hún, full umhyggju, zþetta er bara foxtrott."

Foxtrott! Það orð var ekki brúkað í íslensku bændamenningunni. Út í heiminn opnaðist gluggi. Þetta var árið 1946.

Næst sá ég Önnu Stínu á sviði þar sem hún og Ísak Hallgrímsson, nú öldrunarlæknir, léku kóngafólk, eins og fædd í hlutverkin. Svo var hún orðin sextán eða sautján og komin á leikskóla hjá Lárusi Pálssyni. Þá sat hún á Laugavegi 11 með heimsins fíngerðasta gullhár og horfði yfir sig ástfangin í augun á ungum manni í skáldadraumum, Emil Eyjólfssyni. Með honum fór hún til Frakklands og þegar ég hitti hana næst vorum við orðnar tvítug ar.

Hún bauð mér til kvöldverðar. Í kjallara bjó hún að vísu, en matseðillinn hljóðaði upp á "Cotes de porc" (svo nefnast svínakótelettur á frönsku) og rauðvín. Gestirnir voru Þorvaldur Skúlason listmálari, Leifur bróðir hennar, kannski fleiri. Þegar leið á kvöldið tók Anna Stína gítarinn og flutti ástarsöngva og tregaljóð af því tagi sem Frakkar kalla chansons. "You don't have to give me diamonds or pearls . . . only a shoulder to lean on" söng hún af slíkri hjartans einlægni, að ég hef aldrei getað gleymt því. Það var mikill skaði að hún skyldi ekki leggja meiri rækt við hæfileika sína á þessu sviði, því þeir voru á heimsmælikvarða, það skal ég standa við hvar sem er.

Hún hafði mjög næmt eyra fyrir hrynjandi og frá því hún var kornung þótti ljóðalestur hennar einstaklega góður. Skólabræður mínir sögðu að hún hefði fegurstu rödd á Íslandi. Kvæði Laxness "Ungling urinn í skóginum" var hennar glansnúmer: gleði æskumannsins sem uppgötvar fegurð heimsins varð bráðsmitandi í flutningi hennar.

Á næstu árum brilleraði hún á sviðinu og náði hápunkti í túlkun sinni á Júlíu þeirra Rómeós og Shakespeares, frægasta ástarhlut verki bókmenntanna. Sigurganga á fjölunum blasti við.

En einkalífið hafði verið nokkuð næðingasamt. Samband hennar við Emil varð ekki langt. Þau eignuðust soninn Eyjólf Kjalar, sem ólst að mestu upp hjá föðurforeldrum sínum, Guðrúnu Emilsdóttur og Eyjólfi Kristjánssyni á Brúarási í Fossvogi, við besta atlæti. Samt var sárt fyrir unga móður að geta ekki haft barnið sitt hjá sér. Í hjónabandi með Erni Bjarnasyni eignaðist hún dótturina Öldu, þau skildu eftir árið.

Anna Stína trúði mér fyrir þeirri lífsskoðun sinni, að ástarsamband yrði að staðfesta með barni, annars væri það léttvægt. Langt um seinan sá ég að hún var alls ekki sú heimskona sem ég hélt, í þeim skilningi að hún (og við báðar) vissum lítiðum staðreyndir lífsbaráttunnar. Samt stríddi hún mér stundum á því, að ég vissi enn minna en hún. Hún var listamannabarn. Móðirhennar, Alda Möller leikkona, dó þegar Anna Stína var tólf ára eða svo, og faðir hennar, Þórarinn Kristjánsson, var og er gæddur ríkum tónlistargáfum, spilaði á selló, en vann alltaf sem símritari.

Anna Stína hafði rómantíska listamannssál og maðurinn, semvarð lífsförunautur hennar, var af líku bergi brotinn, Kristján, sonur Árna Kristjánssonar píanóleikara og Önnu Guðrúnar Steingrímsdóttur, hneigður fyrir heimspeki og skáldskap. Ætli Anna Stína hafiekki verið svona 25 ára, þegar þau tóku saman. Á skömmum tíma eignuðust þau þrjú börn. Það elsta var dóttir, Anna Guðrún, en húnvar fædd með hjartagalla og dó held ég á fyrsta ári, eftir að foreldrarnir höfðu gert allt sem þau gátu til að leita henni lækninga. Það var þungur harmur, dýpsta sárið sem Anna Stína hlaut á ævinni, og greri aldei til fulls, er ég hrædd um.

Þarna stóð hún um þrítugt, með Öldu litlu og synina tvo, Árna og Þórarin, á fyrsta og öðru ári. Hún ákvað að hætta að leika. Af heiðarleik, kannski ótímabærum, fannst henni hlutverk móður og eiginkonu svo knýjandi að fleiri hlutverkum yrði ekki sinnt svo mynd yrði á. Þau Kristján fluttu austur að Laugarvatni, þar sem hann kenndi við menntaskólann í mörg ár. Saman gerðu þau fjölda útvarpsþátta um sígildar bókmenntir og voru þeir frábærir.

Hvaða él sem næddu um hana Önnu Stínu þá bjó hún alltaf yfir einhverjum tíguleika sálarinnar: kannski var það fegurðarskyn hennar, sem gæddi hana einstökum þokka. Hún var fjarskalega trygglynd og ræktaði vináttu. Hennar stóri og trausti vinahópur byggðist áreiðanlega að einhverju leyti á því, hvað hún bar mikla umhyggju fyrir þeim sem henni fannst skipta sig máli.

Ég er ekki að segja að hún hafiverið gallalaus frekar en ég og þú. Hún gat orðið svolítið hástemmd, átti það til að "fornemast" upp á gamla móðinn og eitt og annað gæti ég tínt til. En hún bjó yfir höfðingslund, sem oft var í skökku hlutfalli við takmörkuð fjárráð. Hún elskaði að gefa vinum sínum gjafir, ilmvatn og kristalskertastjaka fékk ég. Henni hefði hæft að búa í höll og halda góðar veislur, sitja við háborð og stjórna andríkum samræðum. En hún kaus að giftast manni, sem átti sínar hallir í höfðinu, eins og Guðbergur orðar það, ekki þröngsýnissál í steinsteypu villu.

Fram undir það síðasta safnaði hún að sér skemmtilegu fólki, kringum sjúkrabeðinn. Eitthvað kringum 20. september sl. kom ég að morgni á Borgarspítalann. Þá sátu hjá henni móðursystir hennar, Þorbjörg Leifs (Dídí) og Björn sagnfræðingur Þorsteinsson. Björn var innlagður á sömu deild. Hann vará rauðum flauelsslopp og talaði í ákafa, þótt sjúkdómurinn væri bú inn að hrifsa úr honum raddböndin, svo hann varð að anda orðin gegnum raftæki. Þessa stundina var honum kristnitaka Íslendinga efst í huga:

"Dettur ykkur í hug að nokkurmaður á Alþingi sumarið eitt þúsund hafi haft áhuga fyrir trúmálum? Þetta voru hrein viðskipti, einsog . . . ja, eins og þegar Danir gengu í EBE. Þessar norðurbyggðir voru mikilvægar . . . sjáið þið . . . fílabeinið kemur ekki fyrr en með krossferðunum, um tólfhundruð, en á Grænlandi var fullt af rostung um . . ."

"Voru tennurnar notaðar í drykkjarhorn?" gufaðist upp úr mér.

Björn tókst bókstaflega á loft: zÍ biskupsstafi, manneskja! Þettavar bara eins og Efnahagsbandalagið eða Nato, það VERÐUR einhver að skrifa um þetta."

Við sáum í huganum fjörurnar í Eystribyggð, þaktar rostungum, sem bökuðu sig í sólinni, grunlausir um að tönnunum yrði kippt úr þeimum leið og samningaliðið á Þingvöllum væri búið að snúa Íslendingum frá Þór og Óðni á sveif með Jesú Kristi.

Anna Stína lá á hliðinni og brosti, of kvalin til að leggja mikið til mála, samt sú sem bar ægishjálm yfir hugmyndaflæðinu.

Þrem vikum seinna var Björn dáinn, og á allra heilagra messu kvaddi Anna Stína. Hljóðnuð sú rödd sem eitt sinn þótti fegurst á Íslandi.

Það er silfurbrydding á hverju svörtu skýi, segir máltækið. Ég veit að mikið af hæfileikunum hennar Önnu Stínu á eftir að skila sér hjá börnunum hennar, sem eru hvert öðru yndislegra. Þeim sendi ég mínar einlægustu samúðarkveðjur, svo og föður hennar og systkinum, og ekki síst Kristjáni manni hennar, sem var stoð hennar og stytta þetta þrautasumar, svo hún mátti helst ekki af honum sjá.

Inga Huld Hákonardóttir