Spurning: Umræðan í þjóðfélaginu að undanförnu hefur að miklu leyti snúist um siðferði í opinberum störfum, og þá kannske einkum um siðspillingu, siðleysi og siðblindu. Hverjar eru skýringar sálfræðinnar á siðgæðisvitund fólks? Telst siðleysi afbrigðilegt eða sjúkt eða má einfaldlega nefna það mannlegan breyskleika?
Af hverju stafar siðblinda? GYLFI ÁSMUNDSSON SÁLFRÆÐINGUR SVARAR SPURNINGUM LESENDA Spurning: Umræðan í þjóðfélaginu að undanförnu hefur að miklu leyti snúist um siðferði í opinberum störfum, og þá kannske einkum um siðspillingu, siðleysi og siðblindu. Hverjar eru skýringar sálfræðinnar á siðgæðisvitund fólks? Telst siðleysi afbrigðilegt eða sjúkt eða má einfaldlega nefna það mannlegan breyskleika?

Svar: Komið hafa fram nokkur sjónarmið og kenningar í sálfræði um mótun siðgæðiskenndar mannsins. Aðeins verður drepið á fáein meginatriði hér. Í atferlisfræðinni er ekki lagt siðferðilegt mat á hegðun nema að því leyti að rétt siðferði séu þeir siðir og reglur sem gilda í viðkomandi samfélagi á hverjum tíma. Barnið lærir að tileinka sér þessar siðareglur eftir lögmálinu um umbun og refsingu, þannig að börn læra þá hegðun sem "borgar sig". Grunnnámið fer fram í bernskufjölskyldunni, þar sem börnin hafa einkum foreldra sína sem fyrirmyndir og reyna að líkja eftir þeim og gera gildi þeirra að sínum. Með því öðlast þau umbun sem viðheldur "réttri" hegðun. Þetta er einn mikilvægasti þáttur félagsmótunar. Þróun siðgæðiskenndar eftir kenningum sálkönnunar felur einnig í sér félagsmótun, en þótt flest beri þar að sama brunni er hugtakanotkun og forsendur aðrar. Þar gegnir svonefnt yfirsjálf lykilhlutverki. Í fyrstu ræðst hegðun barnsins af stjórnlitlum frumhvötum, en það er háð ást og umhyggju foreldra sinna og reynir því að semja sig að kröfum þeirra og tileinka sér gildi þeirra og fær fyrir það umbun í formi viðurkenningar, ástar og öryggis í staðinn. Þannig er yfirsjálfið í fyrstu persónugert í foreldrunum. Smám saman innhverfast þessi gildi og verða hluti af barninu sjálfu, samviska þess eða siðgæðisvitund, og yfirsjálfið verður nokkurs konar siðgæðisvörður.

Foreldrar og aðrir nánustu skipta því meginmáli fyrir mótun siðgæðisvitundar og sjálfsvitundar barnsins í heild. Misjafnt er hve farsæl þessi mótun verður. Stundum eru kröfur foreldranna svo strangar og ósveigjanlegar að barnið fær ekki að þroska sína eigin samvisku og yfirsjálfið stendur ávallt utan þess eigin sjálfs og heldur áfram að vera persónugert í strangleika foreldranna og kannske síðar í lögum og reglum samfélagsins. Hjá öðrum eru foreldrarnir veikar fyrirmyndir og veita barninu ekki þá leiðsögn sem því er nauðsynlegt til að það þroski með sér eigin siðgæðisvitund. Oft stafar það af því að foreldrarnir hafa ekki sjálfir fengið nóga ást og öryggi í sínum uppvexti og hafa ekki af nógu að miðla til barnsins og tengjast þeim ekki tilfinningalega. Stundum nær þá barnið ekki að þroska tilfinningar sínar eða temja hvatir sínar og lætur stjórnast af þeim. Síðar meir kann þessi einstaklingur að verða sjálfmiðaður, tillitslaus við aðra og hegðun hans stjórnast af því að skara eld að eigin köku. Þegar slík persónueinkenni verða mjög áberandi og afbrigðileg geta þau flokkast undir persónuleikaröskun, þar sem siðblinda er eitt megineinkennið.

Allur þorri fólks hefur þroskaða siðgæðisvitund og samvisku og finnur til samviskubits ef það gerir eitthvað rangt. Hvatirnar eru þó ágengar undir niðri og stundum sefur siðgæðisvörðurinn á verðinum. Þá er mörgum hætt við breyskleika. Kynlíf, peningar og völd er það sem flestum hættir til að falla fyrir. Það getur verið erfitt að temja holdið og freistingarnar liggja alls staðar í leyni. Flestum finnst þeir skorta peninga, hversu mikla sem þeir hafa fyrir, og þeim sem hafa með höndum vörslu eða ráðstöfun fjár er sérstaklega hætt, eins og mýmörg dæmi sanna. Valdahvötin er ekki sú veikasta af þessum þremur. Hana má strax sjá í leikjum barna, þar sem sumir sýna það sem koma skal og byrja snemma að "panta að ráða". Oftast er um tímabundna siðblindu að ræða, þegar menn ganga á rétt náunga síns eða brjóta viðteknar reglur og siðalögmál samfélagsins. En veiti þessi hegðun nægilega umbun til lengri tíma, "borgi sig", er hætt við að hún festist í sessi og siðgæðisvitundinni sé ýtt til hliðar.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt sálfræðinginn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222. Ennfremur símbréf merkt: Gylfi Ásmundsson, Fax: 5601720.