"KVENNAHLAUP ÍSÍ verður haldið í níunda sinn 21. júní 1998. Það var fyrst haldið í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ árið 1990 og var þá haldið í Garðabæ og á sjö öðrum stöðum um landið. Kvennahlaupið hefur vaxið hratt. Árið 1993 var ÍÞRÓTTUM FYRIR ALLA falin framkvæmd Kvennahlaupsins og var lagður metnaður í að auka þátttöku landsbyggðarkvenna og lét árangurinn ekki á sér standa.
Kvennahlaup ÍSÍ

21. júní

"KVENNAHLAUP ÍSÍ verður haldið í níunda sinn 21. júní 1998. Það var fyrst haldið í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ árið 1990 og var þá haldið í Garðabæ og á sjö öðrum stöðum um landið. Kvennahlaupið hefur vaxið hratt. Árið 1993 var ÍÞRÓTTUM FYRIR ALLA falin framkvæmd Kvennahlaupsins og var lagður metnaður í að auka þátttöku landsbyggðarkvenna og lét árangurinn ekki á sér standa. Á síðasta ári tóku 20.900 konur þátt í Kvennahlaupinu um allt land. Lítur allt út fyrir að ekki verði minni þátttaka í ár. Þessi mikla þátttaka sýnir að fyrirkomulag þetta á vel við stóran hóp kvenna.

Miðað við þátttökuskráningar á sama tíma í fyrra er útlit fyrir að u.þ.b. 21-23.000 konur verði með í ár. Þetta er ótrúlegur fjöldi og sýnir kannski bjartsýni okkar sem að hlaupinu stöndum.

Hópar kvenna sem ekki verða á landinu á Kvennahlaupsdaginn láta ekki sitt eftir liggja og taka með sér boli og verðlaunapeninga og halda sitt Kvennahlaup hvar sem þær eru staddar á Kvennahlaupsdaginn. Þannig er t.d. haldið Kvennahlaup á tveimur stöðum í Danmörku, í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum. Selkórinn verður á söngferðalagi á Ítalíu og ætla konurnar í hópnum að halda sitt hlaup þar. Yfir 50 konur í Namibíu ætla að hlaupa Kvennahlaup og eru það nær allar íslensku konurnar sem þar eru. Með þeim fara nokkrar innfæddar konur sem "eru alveg heillaðar af uppátæki þeirra íslensku," segir í fréttatilkynningu frá Íþróttum fyrir alla.

Ennfremur segir: "Markmið Kvennahlaups ÍSÍ er að leggja áherslu á aukna íþróttaþátttöku kvenna og holla lífshætti sem þær öðlast m.a. með markvissri og reglubundinni hreyfingu. Kvennahlaup ÍSÍ er haldið á 82 stöðum og má segja að það sé alls staðar á landinu. Stærsta hlaupið er í Garðabæ. Á síðasta ári hlupu 8.500 konur þar. Til að koma til móts við þann mikla fjölda kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem áhuga hefur á Kvennahlaupi verður einnig hlaupið í Mosfellsbæ og er reiknað með u.þ.b. 1.500 konum þar. Mikil aukning ætlar að verða á Akureyri og er búist við 1.600 þátttakendum þar. Einnig verður svipað Kvennahlaup á Suðurnesjum. Til gamans má geta þess að á nokkrum stöðum á landsbyggðinni er þátttakan orðin rúmlega 100%."

BÚIST er við miklum fjölda kvenna í hlaup ÍSÍ um allt land.