HAGKAUP var stofnað af Pálma Jónssyni árið 1959 og var fyrirtækið í upphafi rekið sem póstverslun ­ með bækistöð í fjósi við Miklatorg. Fjórum árum síðar var opnuð fata- og vefnaðarvöruverslun í Lækjargötu 4 og matvörudeild Hagkaups hóf starfsemi við Miklatorg haustið 1967.
Byrjaði sem póstverslun í fjósi við

Miklatorg

HAGKAUP var stofnað af Pálma Jónssyni árið 1959 og var fyrirtækið í upphafi rekið sem póstverslun ­ með bækistöð í fjósi við Miklatorg. Fjórum árum síðar var opnuð fata- og vefnaðarvöruverslun í Lækjargötu 4 og matvörudeild Hagkaups hóf starfsemi við Miklatorg haustið 1967. Haustið 1970 fluttist verslunin svo frá Miklatorgi í stóra skemmu í Skeifunni 15 og úr varð fyrsti stórmarkaðurinn á Íslandi.

Verslunum Hagkaups fjölgaði og umsvifin jukust með árunum. M.a. hóf Hagkaup að selja vörur frá sænska húsgagnaframleiðandanum Ikea árið 1981 og árið 1986 var opnuð sérstök Ikea-verslun á jarðhæð í Húsi verslunarinnar. Þá stóðu Hagkaupsmenn með öðrum að stofnun Domino's pizzustaðanna á Íslandi og í Danmörku, auk þess sem Hagkaup blandaði sér í samkeppnina á lyfjamarkaði, eftir að frelsi þar var aukið fyrir rúmum tveimur árum, með stofnun Hagkaups lyfjabúðar.

Kringlan reist að frumkvæði Pálma í Hagkaupi

Á árunum 1984 til 1987 reis verslunarmiðstöðin Kringlan að frumkvæði Pálma Jónssonar og opnaði Hagkaup stórmarkað þar þegar Kringlan var opnuð árið 1987.

Í júníbyrjun sl. var opnaður nýr stórmarkaður við Smáratorg í Kópavogi, sá stærsti sinnar tegundar á landinu. Við sama tækifæri var tilkynnt um breytt fyrirkomulag á rekstri Hagkaupsverslananna, sem héðan í frá eru reknar undir tveimur nöfnum, Hagkaup og Nýkaup. Nýkaupsverslanirnar munu sérhæfa sig í sölu á matvöru en Hagkaupsverslanirnar bjóða bæði matvöru og sérvöru.

Hagkaup/Nýkaup er nú stærsta matvöruverslanakeðja landsins, með þrettán verslanir, þar af tíu á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn eru um 1380 talsins og ársveltan er um ellefu milljarðar króna.