JÓN Torfason íslenskufræðingur hefur búið til útgáfu Húnvetningasögu í þremur bindum eftir Gísla Konráðsson sagnfræðing og bónda í Skagafirði. Skrifaði Jón frásögn Gísla upp, útbjó skýringar og gerði nafnaskrá. Mál og mynd gefur Húnvetningasögu út.
Saga Húnvetninga frá 1685-1850 á bók Innsýn í tilveru Íslendinga

á 18. og 19. öld

JÓN Torfason íslenskufræð ingur hefur búið til útgáfu Húnvetningasögu í þremur bindum eftir Gísla Konráðsson sagnfræðing og bónda í Skagafirði. Skrifaði Jón frásögn Gísla upp, útbjó skýringar og gerði nafnaskrá. Mál og mynd gefur Húnvetningasögu út.

­ Hvernig stóð á því að þú skrifaðir frásögn Gísla upp?

"Ætli það hafi ekki verið af ræktarsemi við uppruna minn og átthaga og af áhuga á Gísla Konráðssyni. Gísli fæddist árið 1787 og dó árið 1887 og var mjög merkilegur maður. Hann var venjulegur bóndi í Skagafirði lengst af en tók síðan upp á því að sinna skriftum meðfram sveitastörfum og varð að lokum einn mesti sagnfræðingur Íslendinga úr hópi óskólagenginna manna. Um árið 1850 flytur hann vestur í Flatey og lifir eftir það eingöngu á skriftum og fræðistörfum."

­ Hvernig skriftir fékkst hann helst við?

"Hann skrifaði meðal annars upp annála, ættartölurit og þjóðsögur, samdi sagnaþætti um ýmsa einstaklinga og skrifaði héraðssögu Strandamanna, Breiðfirðinga, Húnvetninga og Skagstrendinga svo eitthvað sé nefnt. Handritið að Húnvetningasögu er til á Landsbókasafni og ég tók það einfaldlega og bjó til útgáfu. Verkið tók um fimm ár en texti Gísla er um 900 blaðsíður í bókinni. Síðan eru 200 blaðsíður með skrám, skýringum og öðru aukaefni."

­ Hvers konar saga er Húnvetningasaga?

"Hún byrjar árið 1685 og nær til ársins 1850. Sagan er annáll að forminu til því hann rekur atburði hvers árs fyrir sig og skýtur inn á milli yfirliti yfir helstu menn; presta, bændur og höfðingja og lítur kannski yfir sviðið á 20-30 ára fresti. Textinn er fremur rýr til þess að byrja með því hann hefur litlar heimildir að styðjast við en þegar nær dregur honum sjálfum í tíma, frá seinni hluta 18. aldar, bætist heilmikið af munnmælum og annars konar efni við frásögnina. Þar hefur hann sagnir af fólki sem hefur upplifað tiltekna atburði, alls kyns smásögur, tilvik og skemmtilegar mannlýsingar."

­ Hvað má ráða af textanum um Gísla Konráðsson?

"Hann er góður rithöfundur og mjög nákvæmur. Hann er fátækur og á fáar bækur og hreinasta furða hvað honum tekst að ná í mikið af heimildum því hann hefur ekki aðgang að bókasafni eða nokkru slíku. Hann leggur mikið kapp á að segja rétt frá og er mjög gagnrýninn á heimildir sínar. Ef hann er ekki viss gefur hann það til kynna með orðalagi. Einnig segir hann mjög vel frá og er góður stílisti."

­ Hvers konar persóna var hann?

"Ýmsir hafa lýst Gísla og ber öllum saman um að hann hafi verið bæði skemmtilegur og fróður. Hann er fyrst og fremst þekktur sem fræðimaður og er upphafsmaður að svokölluðum sagnaþáttum sem seinni tíma menn hafa þróað, eins og til dæmis Jón heitinn Helgason ritstjóri Tímans, Hannes Pétursson skáld og Magnús Björnsson á Syðra-Hóli, sem gerðu sagnaþættina að listgrein. Gísli er hins vegar fyrstur til þess að móta þessa grein. Hann er nýjungamaður að því leyti."

­ Hefur hann notið sannmælis sem fræðimaður?

"Já, það hefur hann gert en það er ekki búið að gefa út nema brot af verkum hans því í rauninni veit enginn hvað þau eru mörg. Flest þeirra eru geymd á Landsbókasafni en eru til víða annars staðar líka. Af Húnvetningasögu eru til ein átta afrit í handriti svo dæmi sé tekið og verk hans dreifðust um allt land. Gísli var líka skáld og orti rímur og lausavísur. Það má fullyrða að hann sé langafkastamesti alþýðusagnfræðingur okkar."

­ Hvað finnst þér áhugaverðast við frásagnir Gísla?

"Hann segir frá forfeðrum Húnvetninga sem auðvitað er áhugavert fyrir þá og forvitnilegt að sjá hvað þetta fólk var að bauka og hvað gerðist á einstökum bæjum vítt og breitt um héraðið. Frásögn hans veitir almennum lesendum líka sýn á lífið og tilveruna á 18. og 19. öld, sem getur verið forvitnilegt að skoða."

­ Eru margir svartir sauðir þarna innan um?

"Já, já. Eins og í fréttum almennt er yfirleitt fjallað mest um neikvæðari hliðar mannlífsins. Það er ekkert sögulegt við heyannir, svo dæmi sé tekið. Gísli getur um árferði í einni línu en ver kannski heilum kafla í hungursneyð og harðan vetur. Frásögnin er skipuleg, hann fjallar um árferði, veðurfar, slys, sakamál ef einhver eru, hneykslismál og deilur milli manna, til dæmis landaþrætur og málaferli út af arfi."

­ Hvaða sakamál eru helst?

"Ætli morðið á Natan Ketilssyni sé ekki þekktast. Af misyndismönnum má nefna Ísleif seka Jóhannesson frá Breiðavaði, sem reyndar er skyldur mér."

Jón Torfason fæddist á Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu árið 1949. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1968, BA-prófi í íslensku og sögu frá Háskóla Íslands árið 1973 og cand.mag. prófi í íslensku frá sama skóla árið 1989. Jón hefur gegnt ýmsum störfum í áranna rás, meðal annars á Þjóðskjalasafni Íslands frá 1986. Hann er kvæntur Sigríði Kristinsdóttur sjúkraliða og eiga þau saman einn son.

Hneykslismál, sakamál og hörmungar

Jón Torfason