ÉG HEF valið þessa ljóðlínu úr Lilju Eysteins Ásgrímssonar sem titil á rabb um bók, sem að nokkru tekur til þessara þriggja sviða: Þess, sem allir geta séð, þess, sem engi sér og þess, sem eitt sinn var dulið djúpt í jörð, en sem hin eyðandi öfl nú hafa afhjúpað.

"UPPI OG NIÐRI

OG ÞAR Í MIÐJU"

EFTIR JÓN JÓNSSON

UM BÓKINA LEYNDARDÓMAR VATNAJÖKULS EFTIR HJÖRLEIF GUTTORMSSON OG ODD SIGURÐSSON

Þeir sem taka sér fyrir hendur að skrifa um landsvæði sem þeir þekkja lítt af eigin sjón, verða ekki leystir undan þeirri skyldu að kynna sér það sem áður hefur verið um ritað og yfirdrifin nægjusemi verður það að teljast að gera sig ánægðan með aldargamla ágiskun.



ÉG HEF valið þessa ljóðlínu úr Lilju Eysteins Ásgrímssonar sem titil á rabb um bók, sem að nokkru tekur til þessara þriggja sviða: Þess, sem allir geta séð, þess, sem engi sér og þess, sem eitt sinn var dulið djúpt í jörð, en sem hin eyð andi öfl nú hafa afhjúpað.

Ekki er ég, með öllu, sáttur við nafn bókarinnar, finnst það fela í sér fyrirheit um afhjúpun allra leyndardóma þess mikla jökuls. Betur hefði ég unað t.d. Í veldi Vatnajökuls eins og Sigurður Þórarinsson hafði á grein í Lesbók Morgunblaðsins 1946.

Bókin hefur veitt mér mikla ánægju, en líka valdið mér nokkru ergelsi. Þetta er falleg og umfangsmikil myndabók 280 bls. en aðeins fáeinar af þeim er texti einvörðungu. Hins vegar er þar víða komið við og sumt af því ekki náskylt Vatnajökli. Yfir 20 ágæt kort, litprentuð og með fjölda örnefna, er til gagns og gleði fyrir þá, sem kynnast vilja þessum landshluta. Illa kann ég við að sjá Út-Síða prentað yfir Eldhraun suður af Skál og enn verr Mið-Síða á Stjórnarsand. Pennaglöp telst að færa Rauðaberg austur fyrir Krossá (bls. 126).

Kort yfir gosbeltin með þverbeltum er einkar gott skóla yfirlit til skilnings á rekbeltinu. Einnig hygg ég mörgum finnist forvitnilegt kortið yfir eldstöðvakerfin, en þar hefði mátt bæta við a.m.k. tveimur, einu inn af Kálfafellsdal og öðru inn af Heinsbergsfjöllum. Til korta og línurita á bls. 44-45, hygg ég, að oft muni vísað þegar fjallað verður um atburðina á Skeiðarársandi 1996.

Texti bókarinnar hefst á yfirliti yfir Vatnajökul, jökla almennt, land undir Vatnajökli, jarðskjálftamælingum, gosspám og jökulhlaupum. Ágætar skýringarmyndir fylgja öllu þessu. Loks kemur svo frásögn af Skeiðarárhlaupinu mikla haustið 1996, en fram að því, finnst mér niðurröðun efnis ekki alveg nógu góð.

Um hlaupið sjálft og áhrif þess er fyrst fjallað á bls. 34-58 og aftur á bls. 158-172. Ekki verður hér um þann þátt rætt, en hvort sem það er af tilviljun eða ásetningi, þá eru myndirnar á bls. 166-167, að mínu mati, þær áhrifamestu í bókinni. Annars vegar fólk fagnandi sigri í stríði við náttúruöflin, en hins vegar þau í sínum hamslausa ofsa. Þar má líka lesa af skugga öldunnar hvað hátt straumkastið náði.

Ljósmyndirnar bera verkið uppi, vegna fegurðar, fræðslu og heimildagildis. Ein er sú mynd, sem hvað þetta varðar, að mínu mati, ber af, og er þá mikið sagt. Það er myndin á bls. 108, sem sýnir ísbylgjuna á leið niður eftir Síðujökli til þess að lokum brotna inn í sjálfa sig í jökulrönd. Sú mynd, held ég að hljóti að verða klassísk, því vart mun hún eiga sinn líka og vafasamt hvort nokkru sinni verður. Þrátt fyrir þau firn, sem þarna er að gerast, er yfir öllu einhver stórbrotin, hljóðlát ró, sem augnablik fegurðarinnar eitt megnar að skapa og halda. Glæsileg og sönn skýringarmynd af einstæðu fyrirbæri. Stórkostleg er líka myndin á bls. 203 sem sýnir fjölþætt net bergganga og -æða djúpt inni í fornri eldstöð, sem tímans tönn hefur lengi verið að, og enn er, að naga fram.

Skemmtilegt og ekki venjulegt er að í svona bók fær hann að vera með "melgrasskúfurinn harði" og auk þess nokkuð af hinum lága frumgróðri, sem jafnan er fótum troðinn í hugsunarleysi þótt hann í einfaldleik sínum og nægjusemi leggi grunninn límdur við kalda steina. Þörungagróður í köldu og heitu vatni er með og minnir á að einnig hér, á norðurslóðum, er að finna harla fjölskrúðugt lífríki. Selir á sjávarströnd og fluga á kvisti minna skemmtilega á fjölbreytni lífsins. Ekki verður öllum myndum hrósað. Sumar virðast nánast vera blaðsíðufyllingar án hærri markmiða.

Því, sem í seinni tíð, hefur skrifað og skrafað verið um kvikuhlaup, trúi ég öllu og meiru til, en nokkur spurning fer það að verða mér hvort ekki sé nú þar eitt tísku orðið komið á kreik. Næg dæmi geymir sagan um það að ef einhver ný sannindi, eða hálfsannindi koma fram þá er gjarnan til þeirra gripið til að skýra sem allra flest, sem áður taldist dulið. Er ekki svolítið undarlegt að, ef Skaftáreldar væru kvikuhlaup frá Grímsvötnum þá færi ekki Grímsvatnagos af stað fyrr en að stórgosinu loknu, eða svo að segja post festum? Og hvað svo um Kötlu-Eldgjá- Kambagíga gosreinina, sem á kafla liggur samsíða Eldborgaröðum og aðeins um 10 km til hliðar, en hefur gosið efni, sem er ólíkt þeim, er það kvikuhlaup frá Kötlu?

Hvers vegna er verið að fjasa um það sem ótrúlegt þykir en samt gert ráð fyrir að skeð hafi?

Þegar ég virði fyrir mér myndina stórkostlegu af Bárðarbungu á bls. 63, sem gnæfir yfir allan vestanverðan Vatnajökul, þá vorkenni ég þessu tignarlega fjalli að það skuli vera sakað um að hafa valdið einu risavöxnu hlaupi, jafnvel öllum hlaupum meira svo að Gönuhlaup gæti verið eina orðið við hæfi. Ekki hef ég ástæðu til að efast um að hlaup, og það stórhlaup kunni að hafa farið niður eftir farvegum Jökulsár á Fjöllum, en eru ekki aðrar eldstöðvar líklegri en Bárðarbunga? Er ekki fullt eins líklegt að verið hafi fleiri hlaup en minni? Mér skilst að farið sé eftir stærð farvega við mat á stærð hlaupsins. Þótt eitthvað kunni að vera fræðilega mögulegt og jafnvel líklegt er hæpið að ganga út frá að verið hafi. Bárðarbunga hefur nú um skeið komist meira á blað en nokkru sinni áður, en er nú ekki farið að gera hana helst til fjölmáttuga?

Eldgjárgos og Eldgjárhraun er næst til umfjöllunar og þar hlýt ég að staldra við.

Í æsku þekkti ég karl einn, sem haldinn var fréttaflutningsgleði. Eftir að hafa þulið langa fréttaromsu átti hann til að bæta við "sagði kallinn". Brátt komst sá orðrómur á að "kall" sá væri ekki með öllu traust heimild, en sögumaður hafði baktryggt sig. Hér er allvíða notað orðatiltækið talið er og virðist í sama augnamiði. Um gosið í Eldgjá er byrjað á því að staðhæfa að það "tengist einu mesta gosi Íslandssögunnar" og neðar í sama dálki. Gosið úr henni, sem talið er hafa orðið 934, hefur fyllilega jafnast á við Skaftárelda og skilað sér hraun þaðan suður í Landbrot, Meðalland og Álftaver. "Fullljóst er nú að ekkert af þessu er rétt. Ártalið virðist vera uppsuða úr aldar gamalli hugmynd Þorvaldar Thoroddsen, en hann segir raunar að Eldgjá kunni að hafa gosið "i Slutningen af det 9. eller Begyndelsen af det 10. Aarh." (Geogr. Tidskr. 1894 bls. 218.) Hvernig svo sem þetta ártal er fundið hef ég ekki fundið önnur "rök" en tilvitnun Þorvaldar í frásögn Landnámu um flótta landnámsmannanna í Álftaveri, en samt hefur þetta ártal skartað á jarðfræðikortum a.m.k. frá 1982. Í höfuðritum Thoroddsens virðist frásögn Landnámu um eldgos og hraunrennsli á þessu svæði vera tekin alvarlega.

Rétt er það að enn hefur ekki komið fram almennt viðurkennd skýring á gosinu í Eldgjá eða því hvernig Gjáin varð til. Þó er það svo að nú liggja fyrir niðurstöður, studdar staðreyndum, sem ekki áður hefur verið hugað að, hvað séð verður, en sem hafa grundvallar þýðingu. Rannsóknir, sem ekki er lokið gefa eftirfarandi bráðabirgða niðurstöðu: Við eldvirkni inni á virku brotabelti hrundi það saman á kafla og Gjáin varð til í gosi sem varð ofsafengið en skammvinnt. Grunnvatnsstaða var há í brotabeltinu, sem var til frá ómunatíð og stórgos hafði áður orðið á, mörgum öldum, áður. Þessar rannsóknir bíða birtingar. Sá mikli sprengikraftur og mikla magn fastra efna, sem einkenna þetta gos, er afleiðing þess að hraunkvika þrengdist upp í grunnvatnsfyllt sprungubeltið. Hraunið, em austur úr Eldgjá rann milli Axla og Skælinga, náði aldrei niður í dal Skaftár hvað þá niður í Landbrot (Sbr. Náttúrufr. 57. 1997). Næsta ljóst er nú að gosið varð "1112 eða þar um bil" (Jón Steingrímsson 1973).

Ég minni á, svo ég tali eins og stjórnmálamenn, að aldursákvörðuð (14C) auðþekkt öskulög eru í þykkum jarðvegslögum undir hrauninu austan við Eldgjá svo sem sjá má við neðsta fossinn í Nyrðri Ófæru. Þau sömu öskulög eru ofan á því hrauni niðri í Langbroti, sem fullyrt var að væri úr Eldgjá. Þetta ætti að vera næg skýring, svo framarlega sem nennt er að staldra við og hugsa rökrétt. Þess ber að geta að engi þeirra, sem um Eldgjá hafa skrifað fyrir 1987 hafa, að eigin sögn, komið að þeim stað þar sem Eldgjárhraun var sagt að hverfi undir Skaftáreldahraun en hafa látið sér nægja orð Thoroddsens, en ekki heldur hann kom þar að.

Þeir, sem taka sér fyrir hendur að skrifa um landsvæði, sem þeir þekkja lítt af eigin sjón, verða ekki leystir undan þeirri skyldu að kynna sér það sem áður hefur verið um ritað og yfirdrifin nægjusemi verður það að teljast að gera sig ánægðan með aldargamla ágiskun. Sérhverjum ber að gera sér ljóst hvað veit og ekki veit. Að tengja hraun í Álftaveri hrauni, sem runnið hefur úr Eldgjársprungunni og niður með Hólmsá fær heldur ekki staðist þótt teiknað sé á kort. Hraun það hefur ekki náð að renna suður fyrir Atlaey.

Flangháls er austan við veginn inn til Laka og ekki yfir hann farið á þeirri leið. Kvísl sú sem, fyrir Eld, rann suður það gamla hraun, hét Melkvísl. Ásakvíslar voru austan við Ásavatn þar til þeim var veitt vestur í það og eru nú ekki til.

Langisjór kemur næst við sögu. Á bls. 103 stendur: "Rann þá stór hluti Skaftár í Langasjó." Engar sannanir eru fyrir þessu. Þegar jökullinn, á sínum tíma, lá fram á öldurnar norðan við vatnið, rann vatn úr honum suður í Langasjó svo sem farvegir enn sýna en það var ekki Skaftárvatn. Yfirborð Langasjávar er verulega hærra en Skaftár, ég áætlaði það, við Útfall, séð ofan af fjallinu, vera allt að 20 m. Þorvaldur Thoroddsen kom að upptökum Skaftár 1893 austan undir Fögrufjöllum og síðar tók hann eftir því að annað útfall úr jöklinum var austur undir Eldborgaröðum eða um 5 km austar. Það sem svo segir á bls. 108 að hluti af jökuljaðrinum, einmitt á þessu svæði, hafi ekki gengið fram 1994-1995 sýnist mér bera vitni um að ekki séu þau tengsl milli Langasjávar og Skaftár sem fullyrt var. Myndin á bls. 107 staðfestir þetta. Þar blankar á órólegt, leirmettað, hlaupvatn Skaftár austan Fögrufjalla, en hinum megin er Langisjór í blákaldri ró og bregður hvergi. Vonandi er stíflugerð á þessum stað, dauðfædd hugdetta. Það virðist tilheyra Íslendingaeðlinu, einhver frjósemi í fráleitni, að leita uppi eins miklar fjarstæður og framast getur til að hægt sé að skopast að, eins og jarðgöng milli lands og Eyja og fyrirhleðslur við jafn virkan jökul sem Vatnajökull er. Sumum virðist það ljúfast að láta vera að taka tillit til staðreynda. Eða er það markmiðið að afla fjár til sýndar rannsókna, sem ekki gefa annað af sér en gagnslausar skýrslur og gegndarlausan kostnað? Dæmin eru til. Ætti nú að stífla Skaftá með þetta fyrir augum þá þyrfti stíflukorn um minnst 5 km lengd og hæðin svo? Meðfram jökulröndinni frá Fögrufjöllum austur að Gæsabringum er land marflatt, aðeins lítið truflað við Eldborgaraðir og Rauðhóla. Á árunum 1920 og fram til um 1930 var Brunná tært bergvatn, því þá rann jökulþáttur hennar austur í Djúpá.

Við eina fagra mynd á bls. 102 er enn á það minnst, sem telst til Eldgjárgossins 934. Hefur höfundur textans þá ekki lesið prófritgerð Björns Jónassonar um Skaftársvæðið frá 1974?

Hann er fyrsti maður að nefna Kambagígi og slá því föstu að úr þeim sé hraunið í Landbroti komið og að gígaröðin sé á sömu sprungurein og Eldgjá. Af þessu ætti ljóst að vera að gosin tvö, í Kambagígum og, öldum síðar, í Eldgjá eru á sömu, þröngu sprungurein, en hún hefur raunar verið virkt brotabelti frá ómuna tíð og hefur lagt til tvær eldstöðvar. "Nær mun annar eldsær rísa?"

Nokkuð er um Skaftárkatla fjallað og velt upp spurningunni hvort virkni þeirra teljist til jarðhita eða smá gosa. Ekki sé ég neitt því til fyrirstöðu að ýmist sé. Benda má á að örugg merki um a.m.k. 8 smágos, sem vart hafa staðið nema nokkrar klukkustundir má finna á Reykjanesskaga, og vitað er um allnokkur gos í sjó úti á Reykjaneshrygg. Mér sýnist því að svona smágos tilheyri og jafnvel séu einkennandi fyrir eldvirkni á gosbeltinu.

Þá er ég kominn að því, sem ég verð að telja það furðulegasta sem sett er fram í texta þessarar bókar, staðhæfingunni að Landbrotshólar hafi orðið til "við upphaf sögualdar er hraun úr Eldgjá rann yfir vatn eða votlendi" (bls. 115). Í neðanmálsklausu á sömu síðu er svo bætt við: "Meðal heimamanna er sú skoðun uppi að Landbrotshólar og hraunið sé mun eldra en frá upphafi Íslandsbyggðar." Það getur ekki annað en vakið undrun hvernig höfundur þessa texta sneiðir hjá að nefna þá einföldu staðreynd að nú eru liðin 40 ár frá því að geislakols (14C) rannsókn sýndi að hraunið hafi runnið skömmu eftir upphaf okkar tímatals. Sá sem hér heldur á penna stóð fyrir þeirri rannsókn og hefur frá því 1958 verið að þreifa sig áfram varðandi aldur þessa hrauns. Áður nefnd rannsókn var gerð á birkistofni, sem gripinn var í flýti úr rofi ofan á hrauninu. Síðar gerðar 3 aldursákvarðanir á sýnum, sem tekin voru hvert upp af öðru og þar á meðal tvö sitt úr hvoru súru (líparít) öskulaginu. Það voru tvö auðþekkt öskulög, sem rekja má um héraðið allt. Þessi rannsókn leiddi í ljós að hraunið mundi vera meira en 5000 ára gamalt. Síðasta aldursákvörðunin á gróðurleifum ofan á þessu hrauni sýndi 6200 100 14C ár. Þetta sýni var tekið um 50 cm ofan við veðrað yfirborð hraunsins. Af því dreg ég þá ályktun að hraunið sé vart yngra en 7000 ára. Allar þessar niðurstöður hafa verið birtar í Náttúrufræðingnum.

Öllum má ljóst vera að þessar aldursákvarðanir eru algerlega sjálfstæðar rannsóknir og óháðar öllum skoðunum. Loks má svo minna á Bjarnagarð og álit heimamanna. Trúað gæti ég að sumir meðal minna fyrri sveitunga muni brosa við lestur þessarar klausu. Hvað höfundur þessa texta kann að hafa haft í huga, hafi nú ekki penninn ætt á undan hugsuninni, eða hvert markmið hans var með þessum línum er og verður mér leyndardómur, en fjarri er hann öllum þeim ístæru leyndardómum Vatnajökuls.

Sandfok það sem var að eyðileggja túnið á Klaustri, kom af Stjórnarsandi, sem fram yfir 1920 var gróðurlaus að kalla næstum austur að Heimsendaskeri, vikursandur og fokgjarn. Sandurinn var kominn heim undir tún eða sem næst að þeim stað þar sem verslunarhús Kaupfélagsins nú er.

Ekki er það rétt, sem sagt er um Laka. Eldvirkni hefur verið þvert í gegnum fjallið, en aðeins í síðasta gosinu, Skaftáreldum. Hraun hefur runnið út úr fjallinu báðum megin og auk þess úr nokkrum gígkoppum norðan í því. Þar hefur hraun runnið út og þekur nokkrar dagsláttur. Á skerinu vestan við Laka hefur gosið aðeins einu sinni. þ.e. 1783. Óánægður er ég með myndina af austurgjánni sem tekin er ofan af Laka (bls. 119). Snjór getur hjálpað til að draga fram einkenni í landslagi, en ekki finnst mér það heppnast þarna. Þó vil ég benda á gígaröðina neðst á myndinni, en hún er í norðausturhlíð Laka. Efst eru hreinir "vestisvasa" gígir en þeir stækka er neðan dregur og eru neðst orðnir ámur. Falleg eldrás er út úr einum þeirra. Á sléttunni neðan við má sjá breidd sigdalsins, sem þar er 260 m breiður. Ekki virðist textahöfundur hafa áttað sig á því að gos, sem orðið hefur inni í stórum gíg, kann að vera og sannanlega oft er þúsundum ára yngri. Á bls. 110 er fullyrt: "Ekki hefur verið úr því skorið hvort þarna gaus í Skaftáreldum eða fyrr."

Þorvaldur Thoroddsen gekk á þennan háa gíg 9. ágúst 1893 og sló því þá föstu að hann væri eldri en frá Skaftáreldum. Sú niðurstaða er staðfest, en hraungígur eigi alllítill sunnan undir honum virðist hafa gosið 1783 og þá kann nokkur virkni hafa verið í aðalgígnum (aska, gas) því hann er tvöfaldur, gæti fengið að heita Tvíborg. Að telja gígi í Eldborgaröðum er meinlaust og gagnslítið gaman, sérstaklega ef hlutaðeigandi hefur ekki gert sér grein fyrir hvað tilheyrir hverju gosi, en nokkurs virði ætti að vera að taka inn í kennslugögn nýjungar í íslenskri jarðfræði. Trauðla verður því, með rökum mótmælt að þrisvar hafi gosið í Eldborgaröðum og að hvert gos hafi sín séreinkenni hvað varðar útlit efnisins, sbr. Náttúrufræðinginn 64. 1994. Ekki þekki ég heimild fyrir því að vatn hafi farið að safnast í Skaftárgljúfur strax eftir Eldmessuna. Séra Jón lætur þess getið að hraunrennsli fram úr gljúfrinu hafi hætt seint í september. "Þá var farið með fé og flutning yfir hraunið vestur af Skaftárdal, því svo var eldurinn mikill að fjallabaki að hann upþurrkaði öll vötn, sem voru fyrir norðan hann."

Stórgos hugmynda þeirra S.G. Berg og Guðmundar Sigvaldasonar hljóp boðflenna inn í íslenska jarðfræði. Eftir endilöngum Síðu- og Fljótshverfisfjöllum má rekja lög af jökulbergi. Á Síðu eru þau a.m.k. 4, en líklega 5 eða 6 og þau ganga þvert í gegnum það sem vera átti "mass-flow deposit" að bera það saman við myndun Dalsheiðar í Lóni er heldur vandræðalegt. Walker segir hugmynd sína "tentative" og mér finnst hún ekki aðgengileg.

Skaftárhreppur hefur orðið fyrir því að fá á sig þrjár ritgerðir, sem einkennast af rakalausum málflutningi, fullyrðingum, lítilsvirðingu á traustum frumheimildum og þögn um þekktar staðreyndir. Of mörgum vill gleymast að órökstuddar fullyrðingar eiga engan rétt á sér í vísindum. Að senda slíkt í fræðirit er bjarnargreiði við íslenska rannsóknastarfsemi og ber að láta ekki óátalið.

Ekki minnist ég þess að hafa heyrt fólk vestan sands blanda saman sandgígjum og gíg né heldur nefna jökulker, jakaker o.s.frv. gígi. Hvernig svo sem gígju-nafnið er til komið, þá eru þessar gömlu jökulöldur þarna og óvíst hvort efni standa til að tala um með myndugleik.

Þátturinn um Öræfin tekur til sín drjúgan hluta bókarinnar svo sem vera ber og er, að mínu mati, heilsteyptasti hluti hennar og jafnframt sá skemmtilegasti. Í honum fær Skaftafell með þjóðgarði og umhverfi þá umfjöllun, sem hæfir og vera ber. Það er þessi þáttur, sem ég mun oftast glugga í og ég ætla að flestum muni nýtast. Kort og afburða fallegar myndir af landslagi, gróðri og einnig dýralífi, en liðin mun sú tíð að satt sé það, sem sagt var í mínu ungdæmi, að hvorki væru kettir né mýs í Öræfum. Drög að sögu Öræfa er einkar verðmætt innlegg og verðmætt þeim sem kynnast vilja þessari sérstæðu sveit og, að nokkru, kjörum þess fólks, sem þar hefur alið aldur sinn. Orðlagðir voru bæirnir í Öræfum fyrir snyrtilega umgengni utan dyra, en víða í sveitum landsins hefur þar verið misbrestur á. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli fær mikla og ágæta umfjöllun með fróðleik á sviði gróðurfars og jarðfræði sem endast mun gestum og gangandi langt fram á næstu öld. Lýsingar á gönguleiðum eiga, það ég veit, ekki sinn líka, en vel hefði mátt sleppa þessari smá fáránlegu upptuggu "stórleikur landskaparins" þar sem "klæmst" er á tveim tungumálum til vanvirðu við land og tungu. Gönguleiðum á Öræfajökul er prýðilega lýst og frásögn af fyrstu ferð á Öræfatindinn fróðleg og skemmtileg.

Ekki er ég með öllu sáttur við að segja að Breiðamerkurjökull hafi grafið sig niður fyrir sjávarmál. Að minni hyggju var þar fljótsdalur fyrir, ekki jökulgrafinn, en efsti hluti þess, sem nú nefnist Breiðamerkurdjúp. Þegar líða tók að nýju jökulskeiði, jöklar sestir á fjöll, tóku jökulfljót að bera set í dalinn og ofan á það lagðist svo skriðjökull. Áin undir jöklinum tók að róta fram setlögunum og byggja úr jökulsand og strönd við hækkandi sjávarstöðu. Minnkandi jökull hefur rænt ána rofmætti og þar með framburði, sem nú bara er fíngert efni ónýtt til strandbyggingar. Því er nú hér framundan vandamál, sem ekki verður leyst með jarðgöngum.

Ekki er bók þessi vísindarit, en vel fræðirit, sem mark verður tekið á og líklega oft vitnað til og því er mér sárt það "missagt er í fræðum þessum."

Ég gat þess áður að bókin hafi valdið mér ergelsi, líklega mest vegna þess að ég átti ekki von á bakvindi úr þessari átt. Víst er það og að bókin hefur veitt mér mikla ánægju og þakkir fyrir fallegt verk skulu höfundar frá mér.

Það gerist nú tíska að stytta nöfn félaga og fyrirtækja með því að binda það í upphafsstöfum. Þetta hef ég leyft mér að gera og fæ þá: H.G.O.S. og þykir allvel fara og vona að engan styggi.

Það er furðu mikil vinna við að koma á framfæri rituðu máli og þótt minna sé en svona umfangsmikil bók. Eðlileg hagsýni mun nokkru um það hafa ráðið að koma bókinni út á meðan öll atvik á Jökli og Sandi enn voru í fersku minni. Þykir og líklegt að bókin hafi reynst dágott haustfrálag og skal þeim H.G.O.S. óskað til hamingju með verkið, þakkað og óskað góðra gönguleiða um framtíðar fjöll og eyðisanda.

Höfundur er jarðfræðingur.





Í HJARTA Skaftfellseldstöðvar. Líparít með innskotum í Kjós. Þumall í baksýn. Ein af mörgum fögrum myndum í bók Hjörleifs og Odds.

Ljósmynd: Guðjón Jónsson.







JARÐVEGSLÖG undir Eldgjárhrauni við neðsta fossinn í Nyrðri Ófæru. Örvarnar benda á aldursákvörðuðu öskulögin tvö.





NEÐSTI fossinn í Nyrðri Ófæru. Hægra megin við fossinn eru jarðvegslög með öskulögum sem hverfa inn undir Eldgjárhraun. Skælingar í baksýn.





HÉR ENDAR Eldgjárhraun, en ekki niðri í Landbroti. Á bak við eru Skælingar.









JARÐLÖG undir hrauninu, efst. Tommustokkurinn er 2 m. Þarna má fá efni í aldursákvarðanir frá jökultíma fram til "1112 eða þar um bil".