NÁÐST hafa samningar um áhættufjármögnun Betware Ltd., dótturfélags Margmiðlunar hf. Fjárfestarnir eru Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. ásamt sænsku fyrirtækjunumm Kinnevik og Cherry förtagen. Hugbúnaðardeild Margmiðlunar hf. hefur um árabil unnið að þróun lausna á sviði veðmálastarfsemi á netinu, meðal annars fyrir Íslenskar getraunir.
Margmiðlun hf. færir út kvíarnar Alþýðubankinn tekur þátt í fjármögnun Betware

NÁÐST hafa samningar um áhættufjármögnun Betware Ltd., dótturfélags Margmiðlunar hf. Fjárfestarnir eru Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. ásamt sænsku fyrirtækjunumm Kinnevik og Cherry förtagen.

Hugbúnaðardeild Margmiðlunar hf. hefur um árabil unnið að þróun lausna á sviði veðmálastarfsemi á netinu, meðal annars fyrir Íslenskar getraunir. Um er að ræða heildarlausnir og þjónustu fyrir sérsmíðaða hugbúnaðarvöndla sem innihalda allt það sem fyrirtæki þurfa til að starfrækja slíka vefi. Í fréttatilkynningu frá Margmiðlun kemur fram að markaður fyrir slíkar lausnir er takmarkaður hér á landi og því hafi Margmiðlun hf. verið að svipast um eftir tækifærum til markaðssóknar á erlendri grund. Í því skyni var Betware Ltd. stofnað.

Umtalsverð viðskiptasambönd

Samningar um áhættufjármögnun Betware Ltd. eru raktir til þátttöku Margmiðlunar í Ventura Market Iceland, verkefni á vegum Útflutningsráðs Íslands. Fram kemur að endapunktur verkefnisins, fjárfestingarráðstefna sem haldin var síðastliðið haust, hafi gefið af sér góða tengiliði. Í framhaldinu var Margmiðlun hf. valin úr hópi þátttökufyrirtækjanna til að taka þátt í fjárfestingarráðstefnu á vegum Evrópusambandsins. "Betware Ltd. hefur nú þegar aflað sér umtalsverðra viðskiptasambanda á erlendri grund, aðallega í Norður- og Mið-Evrópu, og veita nýgerðir samningar um áhættufjármögnun fyrirtækisins aukið afl í þá markaðssókn," segir í fréttatilkynningu.

Sænsku fyrirtækin sem lagt hafa fé í Betware Ltd. starfa í fjölmiðlun og á veðmálamarkaðnum. Kinnevik er umsvifamikið fjölmiðlafyrirtæki og Cherry förtagen sérhæfir sig í starfsemi á sænska leikja- og veðmálamarkaðnum.