KJÖLUR nefnist skarðið sem liggur milli Lang- og Hofsjökuls. Það er í 600-700 m hæð y.s. og 25-30 km á breidd. Auk jöklanna setja tvö fjöll mestan svip á landslagið: Kjalfell, sem er nær miðju Kjalar og rís 400 m yfir umhverfið og Hrútfell (Hrútafell),

KJÖLUR OG

KJALVEGUR

EFTIR TÓMAS EINARSSON

Leiðin milli landsfjórðunga yfir Kjöl hefur verið kunn síðan á landnámsöld. Milli byggða eru um 150 km og fyrir bíla varð leiðin fær á fjórða áratugnum þegar Hvítá var brúuð og slóðin rudd til Hveravalla. Eftir að Seyðisá var brúuð hefur umferð hverskonar bíla mjög aukizt að sumarlagi og má gera því skóna að fjöldi landsmanna og erlendra ferðamanna verði á ferðinni á Kili.

KJÖLUR nefnist skarðið sem liggur milli Lang- og Hofsjökuls. Það er í 600-700 m hæð y.s. og 25-30 km á breidd. Auk jöklanna setja tvö fjöll mestan svip á landslagið: Kjalfell, sem er nær miðju Kjalar og rís 400 m yfir umhverfið og Hrútfell (Hrútafell), eitt svipmesta stapafjall landsins 1396 m y.s., vestan við Fúlukvísl. Á kolli þess er allvænn jökulkúfur. Norðlendingar nefndu fjallið Regnbúða- eða Regnbogajökul. Að austan, sunnan Hofsjökuls eru Kerlingarfjöll.

Tvær stórár fá hluta vatnsforða síns af Kjalarsvæðinu. Hvítá að sunnan og Blanda að norðan.

Víðáttumikið, dyngjulaga helluhraun þekur meginhluta svæðisins. Er talið að það hafi runnið skömmu eftir lok ísaldar. Gígurinn er þar sem hraunið ber hæst. Á börmum hans eru sérkennilega lagaðir klettar sem kallast Strýtur og setja sterkan svip á umhverfið. Hraunið er víða sandorpið og greiðfært yfirferðar. Í því eru hellar. Þekktastur er Grettishellir suður af Rjúpnafelli, skammt frá Kjalvegi hinum forna.

Ýmsir hafa velt Kjalarnafninu fyrir sér. Er það sótt til Noregs eða er það dregið af lögun landsins? Um það hafa verið skiptar skoðanir. Þarna eru vatnaskil og tilsýndar má greina form í landslagi sem líkjast báti á hvolfi.

Kjalvegur fundinn

Landnámabók greinir ítarlega frá hvernig landnemar Íslands helguðu sér land. Fyrst nærri sjó, en þaðan færðist byggðin inn til landsins. En í fjarska sáust fjöllin blá. Forvitnin vaknaði. Hvað skyldi vera handan þeirra?

Í suður frá dölum Skagafjarðar blasa við fannabreiður Hofs- og Langjökuls. Þær vöktu forvitni hinna skagfirsku landnema og þeir ákváðu að kanna það land nánar. Sagnirnar af þeim ferðum geymdust í minni manna uns þær voru skráðar í Landnámabók.

Hrosskell landnámsmaður að Ýrarfelli sendi Roðrek þræl sinn "upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann kom til gils þess, er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreksgil. Þar setti hann niður staf nýbirktan, er þeir kölluðu Landkönnuð, og eftir það snýr hann aftur".

Vékell hinn hamrammi bóndi á Mælifelli vildi vita meira. "Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar. Hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur".

Eiríkur Hróaldsson landnámsmaður að Hofi í Goðdölum var ekki sáttur við þessi málalok. Því sendi hann Rönguð þræl sinn "suður á fjöll ... Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi, að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga".

Engar frásagnir eru til um hvaða Sunnlendingur það var sem átti fótsporin er Rönguður fann.

Þórir dúfunef nam land í Skagafirði og bjó á Flugumýri. Þessa skemmtilegu frásögn er líka að finna í Landnámabók: "Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt, en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.

Örn hét maður. Hann fór landshorna í millum og var fjölkunnugur. Hann sat fyrir Þóri í Hvinverjadal er hann skyldi fara suður um Kjöl og veðjaði við Þóri, hvors þeirra hross mundi skjótara, því að hann hafði allgóðan hest, og lagði hvorr þeirra við hundrað silfurs. Þeir riðu báðir suður um Kjöl, þar til er þeir komu á skeið það, er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleikamunur hrossa er Þórir kom í móti Erni á miðju skeiði. Örn undi svo illa við félát sitt, að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið, er nú heitir Arnarfell, og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð eftir, því að hún var mjög móð".

En Fluga átti eftir að koma meira við sögu. Hún ól hestinn Eiðfaxa, sem var fluttur til Noregs. Þar varð hann svo illur viðureignar að hann drap 7 manns á einum degi. Það kostaði hann lífið. En Fluga sjálf "týndist í feni á Flugumýri".

Eftir að Skagfirðingar höfðu fengið vissu um greiða leið um Kjöl hófust ferðir um hann milli landshluta og hefur hún óefað verið mjög fjölfarin löngum, en með hléum af ýmsum orsökum.

Kjalvegur hinn forni

Reiðvegurinn frá Hólum í Biskupstungum (sem nú eru í eyði) að Mælifelli í Skagafirði er talinn um 150 km. Fara þurfti yfir tvö stórvötn, Hvítá og Blöndu, sem í vatnavöxtum voru miklir farartálmar.

Að sunnan var Hvítá fylgt uns komið var að vöðunum yfir hana skammt norðan við Jökulkvísl. Þau voru tvö, Skagfirðingavað rétt fyrir neðan brúna, mikið farið en varð ófært á fyrri hluta þessarar aldar og neðar, nær Jökulkvíslinni, Hólmavað sem mun vera fært enn í dag. Á síðari tímum var bátur við ána, sem gat flutt bæði fénað og ferðamenn.

Er komið var yfir ána gátu menn valið um tvær leiðir yfir Kjöl: þá eystri eða vestari.

Eystri leiðin liggur upp með Svartá, í Gránunes, sunnanvert við Kjalfell og yfir hraunið með stefnu á Rjúpnafell. Þaðan vestanvert við Dúfunefsfell og að Seyðisá. Þegar vestari leiðin er farin er stefnan fyrst tekin á Hrefnubúðir og síðan meðfram Fúlukvísl norður fyrir Hrútfell. Þar er beygt frá ánni og haldið austanvert við Þjófafell um Sóleyjardali og Tjarnardali að Seyðisá, en þar komu leiðirnar aftur saman. Við ána var fjárrétt og fyrrum hittust þar gangnamenn að sunnan og norðan og drógu fé sitt í sundur allt til 1937, en þá var gerð varnargirðing þvert yfir Kjöl milli jökla og hefur svo verið síðan. Báðar þessar leiðir liggja framhjá Hveravöllum og ef menn hugðust koma þar við var það aukakrókur.

Frá Seyðisá liggur leiðin að Blönduvaði og þaðan norður Eyvindarstaðaheiði um Mælifellsdal að Mælifelli í Skagafirði.

Til er skráð heimild sem bendir til þess, að fram undir 1800 hafi skriðjöklar Langjökuls ekki náð niður að Hvítárvatni og þá verið unnt að komast meðfram því að vestan. Það styðja vörðubrot, götuslóðar og merki um vegabætur, sem hafa fundist vestan undir Leggjabrjóti. Ef þetta er rétt hefur leiðin inn á Kjöl verið miklu auðveldari yfirferðar fyrrum, því þá losnuðu menn við hið stóra vatnsfall Hvítá.

Talið er að Kjalvegur hafi verið varðaður áður fyrr, en vörðunum misjafnlega haldið við í gegn um tíðina. Um síðustu aldamót ferðaðist danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun um Ísland. Kynnti hann sér hagi lands og þjóðar. Hvatti hann stjórnvöld til að endurreisa hrundar vörður og merkja fornar hálendisleiðir. Á fyrstu áratugum aldarinnar voru vörðurnar á Kjalvegi lagaðar til. Margar þeirra standa enn óhaggaðar og gegna nú nýju hlutverki, þ.e. vísa leið frístundafólki á skemmtiferðum um landið. Eftir að Hvítá var brúuð árið 1935 hófust bílferðir inn á Kjöl og tveimur árum síðar (1937) var orðið akfært að Hveravöllum. Bílaslóðin var rudd austar þ.e. um Hvítársanda, framhjá Fremri- og Innri- Skútum og að Blöndu austan við Rjúpnafell. Þaðan vestur fyrir Dúfunefsfell og síðan norður Auðkúluheiði í Blöndudal. Þessi leið mun vera 160-170 km milli byggða.

Nærri vatnaskilum á hárri melöldu, er minnisvarði við veginn, sem Ferðafélag Íslands lét reisa 1959 í minningu um Geir G. Zo¨ega vegamálastjóra, en hann var forseti félagsins 1937-1959. Aldan heitir síðan Geirsalda.

Hvítárnes ­ Hvítárvatn

Hvítárvatn er eitt af stærri stöðuvötnum landsins 29,6 ferkm að stærð, meðaldýpi um 28 m og mesta dýpi hefur mælst 84 m. Vestan við vatnið rís Skriðufellið 1235 m y.s. Fjórar ár falla í vatnið. Fúlakvísl, jökulá, sem kemur upp undan austurrönd Langjökuls, Tjarná, mynduð af uppsprettuvatni undan Tjarnheiði, Fróðá, allvatnsmikil á, sem kemur undan Leggjabrjóti og Svartá er kemur undan Kjalhrauni austur af Kjalfelli. Þrjár síðastnefndu eru bergvatnsár. Hvítá, eitt af stærstu vatnsföllum landsins fellur úr vatninu. Meðalsumarrennsli hennar er 50-75 rúmm. á sek. Á fyrri hluta aldarinnar gengu tveir skriðjöklar frá Langjökli ofan til Hvítárvatns beggja vegna Skriðufells. Syðri jökullinn hefur hopað mikið og nær nú ekki að vatninu, en sá nyðri gengur ofan í vatn og leggur hann til þá ísjaka, sem þar fljóta.

Karlsdráttur heitir smá vogur, sem gengur norður úr vatninu skammt austan við skriðjökulinn. Í skjóli jökulsins í brekkunum móti sól í 420-440 m hæð y.s. hafa fundist 84 tegundir háplantna. Dágóð silungsveiði er í vatninu og munu byggðarmenn hafa stundað hana stíft áður fyrr. Munnmæli herma að fyrrum hafi karl einn stundað netaveiði í Hvítárvatni. Hann var einsamall við þá iðju, en hafði folaldsmeri með í för. Batt hann folaldið öðrum megin við voginn, fór svo með hryssuna út fyrir voginn hinum megin, festi netið í tagl hennar og lét hana síðan synda með það yfir voginn til folaldsins. Þannig á nafnið Karlsdráttur að vera tilkomið.

Austan við norðanvert Hvítárvatn er víðáttumikið, votlent og grösugt gróðurlendi, sem nefnist einu nafni Hvítárnes. Er það að mestu myndað af framburði Fúlukvíslar og Fróðár. Ber þar mest á broki og gulstör, auk fleiri grastegunda. Þar eru sumarhagar ágætir bæði fyrir sauðfé og hross.

Árið 1930 byggði Ferðafélag Íslands fyrsta sæluhús sitt við Hvítárnes og var Jakob Thorarensen skáld og rithöfundur aðalsmiður hússins, Jón Jónsson bóndi frá Laug tók að sér að flytja byggingarefni (timbur og járn) í húsið frá Geysi, en þangað náði bílvegurinn þá. Alls voru þetta um 100 hestburðir. Verkið var mjög erfitt, Þá var ekki búið að brúa Hvítá, svo ferja þurfti allt efnið yfir ána. Þetta hús var talin mikil nýjung, því fram til þess tíma höfðu menn ekki vandað svo mjög til sæluhúsa á öræfum. Það sem einkum mun hafa ráðið þessu staðarvali voru húsarústir, sem þar eru. Sagnir herma að þar hafi fyrrum verið bær, sem nefndist Tjarnarkot. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem var skráð laust eftir 1700, segir að Regnubúðir heiti í Hvítárnesi og ætli menn að þar hafi verið búið. Sumarið 1897 gróf Daníel Bruun í þessar rústir. Taldi hann að þar hafi staðið 5 lítil hús. Koparbóla og tinnumolar fundust í rústunum og minjar um langeld í stærsta húsinu. Annað fannst ekki. Samkvæmt öskulagarannsóknum mun byggð við Hvítárnes hafa lagst í eyði um eða eftir Heklugosið mikla árið 1104. Rústir eru nú friðlýstar.

Sagnir hafa gengið um reimleika í sæluhúsinu. Á blá- eða gráklædd stúlka að vera þar á sveimi, og vitji hún einkum þeirra karlmanna, sem hafa lagst til svefns í neðri kojunni í innra herberginu bak við hurðina. Stúlkan á að vera meinlaus, en truflar samt svefn þeirra með blíðulátum.

Við gamla Kjalveginn spölkorn sunnan við sæluhúsið stendur stórt bjarg. Á það er festur minningarskjöldur um Tryggva Magnússon verslunarstjóra (1896-1943), en hann var einn af forvígismönnum Ferðafélags Íslands um árabil.

Hveravellir

Í fyrstu frásögnum af ferðum manna yfir Kjöl er nafnið Hveravellir óþekkt. En örnefnið Hvinverjadalir er að finna í Landnámabók. Þar segir, að Haraldur konungur hafi lagt fæð á Ásgrím Öndóttsson og viljað hann feigan. "Þá fór Ásgrímur til Íslands. Hann bjó að Glerá hinni nyrðri. Haraldur konungur sendi Þorgeir hinn hvinverska til Íslands að drepa Ásgrím. Hann var of vetur á Kili í Hvinverjadal og kom engu fram um hefndina". Í Sturlunga sögu er oft getið um mannfundi á Kili og er þá Hvinverjadalur oft nefndur, en síðan ekki meir. Menn hafa mikið rætt um hvar Hvinverjadalur sé og hallast flestir að því að hann sé dældin umhverfis hveravæðið. "Til forna kölluðu menn þetta landsvæði, þar sem Hveravellir eru, Hvinverjadali, en hverasvæðið var þá kallað Reykjavellir", segja Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson í ferðabók sinni, en þeir fór suður Kjöl árið 1752.

Segja má að Hveravellir séu á miðjum Kjalvegi hinum forna. 12 tíma reið var talin þangað frá Mælifelli í Skagafirði og álíka langt þaðan til efstu bæja í Árnessýslu. Hverasvæðið sjálft er norðan undir Kjalhrauni, en greinilegt er að hiti er víðar á svæðinu undir hrauni. Þetta eru allmargir vatnshverir og er vatn úr þeim m.a. notað til að hita upp þau hús, sem hafa verið byggð á svæðinu.

Gönguferð um hverasvæðið er áhugaverð. Alls staðar bullar og sýður, margskonar litabrigði ber fyrir augu, grænir, bláir og gulir litir mest áberandi, en hæst hvín í Öskurhólshver sem þeytir út gufu án afláts með miklum hávaða. Þar er Eyvindarhver með steinahleðslu, mannvirki er bendir til þess að hann hafi verið notaður til suðu. Í hraunsprungu skammt frá Eyvindarhver er tótt með hlöðnum veggjum. Hún er tvískipt. Hin stærri er 4.20 m á lengd og 1.20-1.35 á breidd, en hin minni er 1x2 m að stærð. Fyrir löngu fannst tágakarfa í þessum rústum. Hún er nú geymd í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Samkvæmt munnmælum á Fjalla- Eyvindur og Halla kona hans ásamt fleiri mönnum að hafa dvalið í þessum vistarverum á síðari hluta 18. aldar, en skjalfestar heimildir um þá dvöl munu vera torfengnar.

Eins og getið hefur verið um áður, mun sæluhús hafa staðið á Hveravöllum á Sturlungaöld, Hvað lengi er ekki vitað því Eggert og Bjarni minnast aðeins á rústir en ekki hús.

Árið 1922 voru Halldór Jónasson frá Hrauntúni í Þingvallasveit, og Helgi Sigurðsson, síðar hitaveitustjóri í Reykjavík, ásamt þriðja manni, ráðnir til að lagfæra vörður á Kjalvegi og reisa sæluhús á Hveravöllum fyrir menn og hesta. Eftir vinnu við vörðurnar byggðu þeir hús úr torfi og grjóti í hraunjaðrinum sunnan við hverasvæðið. Þetta hús hefur nú verið endurbyggt í upphaflegri mynd.

Sextán árum síðar (1938) reisti Ferðafélag Íslands sæluhús á Hveravöllum. Var keyptur járnvarinn verkamannaskáli úr timbri hjá Sogsvirkjun og fluttur þangað. Húsið var hitað upp með hveravatni og allt hið vistlegasta. Var slík framkvæmd á öræfum algjör nýlunda hérlendis á þeim tíma. 1958 var hlaðin baðlaug við húsið 3x6 m að stærð. Var kísilvatnið úr hverunum látið um að þétta veggina. Félagið byggði annað hús árið 1980 og er nú gistirými fyrir um 70 manns í þeim báðum.

HRÚTFELL er hæst og svipmest allra fjalla á Kili. Myndin er tekin af Kjalhrauni þar sem hinn forni Kjalvegur lá.

Ljósmyndir: Guðlaug Jónsdóttir.HVÍTÁRNES. Syðri skriðjökullinn og innsti hluti Jarlhettnanna í baksýn. á myndinni sést einnig sæluhús Ferðafélags Íslands.BRÚ Á Fúlukvísl við Þverbrekknamúla.KARLSDRÁTTUR við Hvítárvatn. Skriðufell í baksýn.Í KARLSDRÆTTI er falleg gróðurvin fjarri alfaraleið.