SUNDKAPPINN Kristinn Magnússon sló öll fyrri met þegar hann synti Viðeyjarsund sl. laugardag. Synti hann frá Viðey og að Suðurbugt í Reykjavíkurhöfn á einni klst. og 22 mínútum, en alls hafa 18 manns synt Viðeyjarsund frá upphafi. Kristinn sagði að sundið hefði gengið ágætlega, eftir að hann hefði náð áttum í sjónum.
"Náttúruöflin

léku sér að manni"

SUNDKAPPINN Kristinn Magnússon sló öll fyrri met þegar hann synti Viðeyjarsund sl. laugardag. Synti hann frá Viðey og að Suðurbugt í Reykjavíkurhöfn á einni klst. og 22 mínútum, en alls hafa 18 manns synt Viðeyjarsund frá upphafi.

Kristinn sagði að sundið hefði gengið ágætlega, eftir að hann hefði náð áttum í sjónum. "Ég gerði ekki ráð fyrir því að sjógangurinn væri svona mikill, og hann kom mér satt að segja illilega á óvart. Náttúruöflin léku sér að manni í sjónum, og fyrst í stað átti aldan það til að keyra mig í kaf, fara á undan mér eða berja mig. Ég var orðinn dálítið reiður út í náttúruöflin þegar ég náði stjórn á huganum, sætti mig við kringumstæður og hélt ótrauður áfram, en fyrsti hálftíminn var erfiðastur og lengi að líða," sagði Kristinn Magnússon um sundferðina.

"Gott að vita af góðu liði sér til stuðnings"

Tveir björgunarbátar fylgdu Kristni á sundinu og kvað hann öryggið skipta sig miklu máli. "Það hvatti mann áfram að hafa gott lið sér til stuðnings í bátunum tveimur, vitandi að maður gat stólað á það," sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið.

Að Kristni meðtöldum hafa átján manns synt Viðeyjarsund en það er 4 km og 300 metra langt. Fyrstur til að synda var Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, árið 1914 og síðan synti Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn það árið 1925. Pétur Eiríksson þreytti það tvisvar sinnum, árin 1935 og 1937, og átti hann besta tímann til þessa, eða 1 klst. og 30 mín.

Eyjólfur Jónsson hefur synt Viðeyjarsund oftast allra manna, eða tíu sinnum, og gerði hann það á árunum 1951­1961. Kristinn Einarsson trésmiður hefur synt það næstoftast eða þrisvar sinnum og ein kona hefur þreytt sundið, en það var Helga Haraldsdóttir sundkennari.Morgunblaðið/Þorkell "NÁTTÚRUÖFLIN léku sér að manni niðri í sjónum," sagði Kristinn og kvað kraft þeirra hafa komið sér á óvart.

KRISTNI var vel fagnað við landtökuna af unnustunni, Guðlaugu Kristjándsóttur, og Eyjólfi Jónssyni sem oftast allra manna hefur þreytt Viðeyjarsundið, eða tíu sinnum.