ENGAR reglur eru til hér á landi um meðferð úrgangs frá svínabúum aðrar en þær að við búin skulu vera yfirbyggðar hauggeymslur sem geta tekið við sex mánaða haug. Nýlega skilaði starfshópur, sem umhverfisráðherra skipaði, tillögum um góða búskaparhætti, en óvíst er að tillögur starfshópsins verði settar í reglugerð.
Engar reglur á Íslandi um dreifingu búfjáráburðar Fjöldi svína ekki vandamál á Íslandi

ENGAR reglur eru til hér á landi um meðferð úrgangs frá svínabúum aðrar en þær að við búin skulu vera yfirbyggðar hauggeymslur sem geta tekið við sex mánaða haug. Nýlega skilaði starfshópur, sem umhverfisráðherra skipaði, tillögum um góða búskaparhætti, en óvíst er að tillögur starfshópsins verði settar í reglugerð. Kristinn Gylfi Jónsson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir að húsdýr séu svo dreifð á Íslandi að menn hafi ekki þurft að hafa áhyggjur af vandamálum í sambandi við húsdýraáburð enda miðist framleiðslan eingöngu við innanlandsmarkað. Bændur séu hins vegar meðvitaðir um að þeir verði að hafa þessi mál í lagi og Svínaræktarfélagið hefur markað sérstaka framleiðslustefnu sem m.a. tekur á geymslu og dreifingu úrgangs frá svínabúum.

Árlega eru framleiddir í kringum 60 þúsund sláturgrísir hér á landi og heildarframleiðsla á síðustu 12 mánuðum var tæplega 3.900 tonn. Umfangið í þessari grein landbúnaðar er því allt annað hér á landi en í Bandaríkjunum. Kristinn Gylfi sagði að hér á landi væru ekki vandamál eins og svínabændur í Bandaríkjunum, Danmörku og Hollandi stæðu frammi fyrir. Sama þróun hefði hins vegar orðið hér á landi og víða erlendis að búin stækki og þeim fækki. Á síðustu 10 árum hefði svínabúum á Íslandi fækkað um helming, en framleiðslan hefði tvöfaldast á sama tíma.

"Dreifing búfjáráburðar á Íslandi hefur ekki verið vandamál fram að þessu og það hafa ekki verið settar reglur um þessa hluti. Þéttleikinn í búskapnum hefur ekki verið það mikill hér á landi að menn hafi talið þörf á að setja reglugerð um dreifingu búfjáráburðar líkt og gert hefur verið t.d. í Danmörku og Hollandi. Á vegum umhverfisráðuneytisins hefur starfað nefnd sem var falið það verkefni að setja fram viðmiðunarreglur um góða búskaparhætti. Nefndin skilaði tillögum í vor þar sem m.a. er komið inn á geymslu og dreifingu búfjáráburðar. Settar eru fram viðmiðunarreglur um magn búfjáráburðar á einn hektara gróins lands. Það er ekki ljóst hvort þessar tillögur leiða til þess að sett verður reglugerð um þessa hluti einhvern tíma í framtíðinni.

Ég tel að það sé óhætt að segja að svínabændur á Íslandi séu meðvitaðir um að þeir verði að hafa þessa hluti í lagi. Við fylgjum ákveðinni framleiðslustefnu sem gengur út á að framleiða góðar og hollar afurðir í umhverfi sem er viðunandi með tilliti til dýravelferðar, öryggis framleiðslunnar og umhverfismála. Hluti af þessari stefnu er að hafa umhverfis- og frárennslismál í lagi."

Svínabú í nágrenni við þéttbýli

Á Íslandi eru flest stærstu svína- og kjúklingabú landsins á Suðvesturlandi í nágrenni við stærsta markaðssvæðið. Meira en allra svína á landinu eru á Reykjanesi og Suðurlandi og allra hænsnabúa eru á Reykjanesi. Stóru svína- og hænsnabúin eru mörg hver í nágrenni við þéttbýli eins og t.d. á Kjalarnesi þar sem lengi hefur verið öflugur landbúnaður. Kristinn Gylfi viðurkennir að íbúar í nágrenni svínabúanna hafi kvartað undan lykt frá búunum og undan lykt frá dreifingu búfjáráburðar. Hann sagði að báðir aðilar yrðu að taka tillit hvor til annars. Íbúar á Kjalarnesi yrðu hins vegar að gera sér grein fyrir því að þeir byggju á landbúnaðarsvæði.

Ekki er útlit fyrir að landbúnaður á Kjalarnesi dragist saman í náinni framtíð. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á búinu á Vallá og núna er unnið að stækkun á svínabúinu í Brautarholti. Við sameiningu Kjalarness og Reykjavíkur var lögð áhersla á að áfram yrði rekinn öflugur landbúnaður á Kjalarnesi. Merki um þessa stefnu sáust þegar Reykjavíkurborg ákvað að selja bóndanum á Vallá Saltvík, sem borgin var búin að eiga í 30 ár. Ástæðan fyrir kaupunum var m.a. sú að bóndinn hafði þörf fyrir stærra land til að koma fyrir búfjáráburði frá búi sínu.

Áhugi hefur vaknað á að nýta búfjáráburð frá búum á Kjalarnesi til gróðurverndar. Hugmyndir hafa verið settar fram um að nota búfjáráburð til uppgræðslu á gróðurlausum svæðum. Samtök um uppgræðslu í landnámi Íslands hafa m.a. sýnt áhuga á að gera tilraunir í þessa veru. Það er því flest sem bendir til að Ísland geti auðveldlega tekið við þeim búfjáráburði sem íslensk húsdýr láta frá sér. Vandinn snýst frekar um að nýta hann sem best.

MIKIL uppbygging hefur átt sér stað í svínarækt á Íslandi á síðustu árum. Svínabúin hafa stækkað, en þeim hefur jafnframt fækkað.