23. júlí 1998 | Fólk í fréttum | 494 orð

FRUMLEIKI OG KRAFTUR

Geisladiskur FLUGAN #1

Flugan #1, safnskífa Error músík. Á plötunni eru lög með Botnleðju, Upplifun Ragnars Sólbergs, Stæner, Rennireið, Þórunni Magg, PRJ/Greys, Ampopp, Stolíu, Panorama, Woofer. Síðastnefndu eiga tvö lög hver, en aðrir á plötunni eitt lag. 59,30 mín.

FRUMLEIKI

OG KRAFTUR

TÓNLIST Geisladiskur FLUGAN #1 Flugan #1, safnskífa Error músík. Á plötunni eru lög með Botnleðju, Upplifun Ragnars Sólbergs, Stæner, Rennireið, Þórunni Magg, PRJ/Greys, Ampopp, Stolíu, Panorama, Woofer. Síðastnefndu eiga tvö lög hver, en aðrir á plötunni eitt lag. 59,30 mín. HAFNARFJÖRÐUR er mikill tónlistarbær og hefur verið frá því Reykvískir djassunnendur lögðu á sig mikið ferðalag til að hlýða opinmynntir á Gunnar Ormslev og félaga. Nú kemur hver afbragðssveitin af annarri frá Hafnarfirði eins og heyra má á nýrri safnskífu hafnfirsku útgáfunnar Error Músík. Þar eru ýmist sveitir sem hafa þegar lagt landið að fótum sér, eins og Botnleðja, eða sveitir sem eru líklegar til að leika sama leik, eins og Rennireið og Stæner. Það fer vel á því að helsta rokksveit landsins, Botnleðja, eigi fyrsta leikinn á Flugum. Lagið Dagur eitt er og fyrirtaks Botnleðjulag, þó ekki sé að merkja á því mikla þróun. Kemur sjálfsagt á væntanlegri breiðskífu. Fleiri feta rokkslóð á plötunni, til að mynda Stæner sem á afbragðs lag, með eilítið brotakenndri útsetningu. Rennireið á og gott lag, Endalaust líf, en ekki er síðra lag Upplifunar Ragnars Sólbergs, sem er primus motor í Rennireið; hörkuskemmtileg keyrsla. Ekki er þó bara rokk stundað í Hafnarfirði, eins og sannast af lagi Þórunnar Magg, Children of Love. Það er vel flutt en heldur lífvana, sérstaklega í miðju rokkinu og ekki bætir úr skák að á eftir fylgir magnaðasta rokklag síðustu ára. Það er reyndar tölvuunnið og afmyndað á skemmtilegan hátt án þess þó að óðurinn um partíbælið Hafnir missi um of marks, en engu er svosem bætt við. Titillag Ampop dregur út mönnum mátt og síðara lag sveitarinnar gefur ekki mikil fyrirheit þótt það sé ekki eins máttleysislegt og fyrrnefnda lagið. Stolía sendi frá sér prýðilega plötu á síðasta ári, vantaði reyndar nokkuð uppá í upptökum og hljóm, en framlag sveitarinnar er bráðgott á Flugunni #1. Sérstaklega er fyrra lag hennar, Greifinn af Íslandi, gott og tölvuhljómar og -tól renna vel saman við rafhljóðfærin. Síðara lag sveitarinnar, Broddgölturinn sítuðandi, er "hefðbundnara" Stolíulag, en bæði benda þau til þess að mikil gerjun sé í gangi innan Stolíu. Lítið hefur heyrst til hljómsveitarinnar Panorama á síðustu árum, en þeir Panoramafélagar hafa greinilega notað tímann vel. Að frátöldum slökum söng á slökum enskum texta í öðru laginu lofar sveitin mjög góðu því lögin eru prýðileg og hljóðfæraleikur. Sérstaklega er síðara lag sveitarinnar gott, enda liggur íslenskan betur fyrir söngvaranum. Woofer hefur aftur á móti verið áberandi á síðustu mánuðum; sendi frá sér tvær skífur í fyrra, aðra stutta og hina langa, of mikil útgáfa reyndar, en á Flugunni #1 má heyra að sveitin er að þróast ört í átt að kraftmeiri tónlist. Sérstaklega er síðara lag hennar gott, ekki síst fyrir frábæra frammistöðu Hildar söngkonu Guðnadóttur. Flugan #1 er fyrirtaks safnskífa sem sýnir að hafnfirskar rokksveitir standa flestum framar í frumleika og krafti. Raftónlistarmenn þar í bæ eiga aftur á móti nokkuð í land. Árni Matthíasson HLJÓMSVEITIN Woofer á lög á Flugunni #1.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.