Sparistell á þjóðlegum nótum Af og til hafa sést í blöðum myndir af gömlum kaffistellum með íslenskri myndskreytingu. Ekki hefur hefur þar alltaf verið farið rétt með tilurð bollastellanna og nýverið var mynd af kaffistelli með Þingvöllum réttilega sagt vera málað í Japan, en fyrir Alþingishátíðina 1930.

Sparistell

á þjóðlegum nótum

Af og til hafa sést í blöðum myndir af gömlum kaffistellum með íslenskri myndskreytingu. Ekki hefur hefur þar alltaf verið farið rétt með tilurð bollastellanna og nýverið var mynd af kaffistelli með Þingvöllum réttilega sagt vera málað í Japan, en fyrir Alþingishátíðina 1930. Hins vegar voru bollastellin ekki flutt inn fyrr en árið 1933. Jóhann J. Ólafsson heildsali, sonur Jóhanns Ólafssonar, þekkir vel til þessara muna, enda flutti faðir hans þá inn. Dóra Ósk Halldórsdóttir hitti Jóhann og fékk að heyra söguna um bollastellin skemmtilegu.

Á HEIMILI Jóhanns J. Ólafssonar heildsala er margt fallegra muna. Athygli vekja stórir, handmálaðir veggplattar í borðstofunni, þar sem sjá má Þingvelli, Skógarfoss og Þórsmörk. "Faðir minn, Jóhann Ólafsson, var staddur í Þýskalandi árið 1929 í viðskiptaerindum. Hann var að heimsækja fyrirtækið Villeroy & Boch, sem voru þá með verksmiðjur í Dresden, og datt í hug að biðja þá um að mála íslenskt landslag á veggplatta eftir svart-hvítum póstkortum sem hann var með," segir Jóhann. Myndirnar eru málaðar á einhvers konar léreft eða grisju og síðan innbrenndar í glerunginn. "Skemmtilegt er við myndina frá Þingvöllum að hún sýnir gömlu Valhöll sem var þarna á völlunum áður en hún var flutt á núverandi stað árið 1930," segir Jóhann og bætir því við að þessir þrír veggplattar séu þeir einu sinnar tegundar í heiminum því fleiri voru aldrei framleiddir.

Hnattreisa fyrir stríð

Jóhann segir að faðir sinn hafi líklega verið fyrsti Íslendingurinn sem átti viðskipti beint við Japana, en árið 1931 og aftur árið 1933 fór Jóhann í hnattreisu, þar sem hann m.a. fór til Japans og keypti vörur. "Ég er ekki frá því að faðir minn hafi verið fyrsti Íslendingurinn til að fara í svona hnattreisu, ég hef í það minnsta ekki heyrt af öðrum sem gerðu það á undan honum," segir Jóhann og bætir við að faðir hans hafi farið frá Þýskalandi með skipi til New York, þaðan til San Francisco, Hawai og þaðan til Japan. Á heimleiðinni fór hann til Kóreu, tók Síberíuhraðlestina til Moskvu og fór þaðan aftur til Þýskalands og heim til Íslands.

Jóhann segir föður sinn hafa borið Japönum vel söguna. "Þeir voru kurteisir, friðsamir, hreinlegir og samningagóðir," hefur Jóhann eftir föður sínum. Vörur í Japan voru á mjög hagstæðu verði á þessum tíma, og þegar Jóhann Ólafsson heimsótti Chika Amachi verksmiðjuna í Japan 1933 sá hann hvernig þeir myndskreyttu postulín á þjóðlegum nótum og fannst þá tilvalið að fá þá til að skreyta sín bollastell með íslensku myndefni. Varð það úr að Japanirnir skreyttu nokkur bollastell fyrir Jóhann.

Kötlugos í japönskum litum

Jóhann á þrjá diska úr bollastellunum japönsku, sem sýna Gullfoss, Þingvelli og Skógarfoss og er skemmtilegt að sjá hvernig íslenskt landslagið er umlukið austrænni birtu og sterkum litum. Á Árbæjarsafni er til eitt af þessum kaffistellum til þar sem Kötlugosið 1918 er aðal myndefnið. Jóhann segir að þegar faðir hans hafi komið með bollastellin til landsins hafi þau verið seld á 75 krónur stellið, en þá hafi venjuleg japönsk stell kostað um 25 krónur.

"Þrátt fyrir hærra verð seldust öll bollastellin, enda ekki víst að þau hafi verið mjög dýr miðað við evrópsk bollastell," segir hann. "Ég tel að bollastellin hafi verið mjög vinsæl til brúðkaupsgjafa og eins hef ég heyrt af fólki sem fór til Vesturheims og hafði með sér bollastell til minja um gamla landið," segir Jóhann og hlær. Hann telur líklegast að flestir hafi notað stellin sem skrautmuni í stofu, og að þau hafi ekki verið notuð nema á hátíðastundum. "Þessi málun er viðkvæm og slitnar ef munirnir eru mikið notaðir því myndin er máluð á glerunginn," segir hann.

Hugmyndin endurvakin

Jóhann segist stundum sjá hluta bollastellana hjá fornsölum í bænum, en núna sé verðið ekki 75 krónur heldur nær 75 þúsundum króna. Ekki voru mörg bollastell flutt til landsins árið 1933 og líklegt er að fá heilleg stell séu eftir. En Jóhann endurvakti hugmynd föður síns þegar hann sendi japanska fyrirtækinu Noritake póstkort í lit frá Íslandi og bað þá um að mála á veggdiska árið 1965. Hann segir að 48 stykki af hverjum disk hafi verið framleiddir og allir selst. "Það sést á þessum diskum að málararnir hafa tekið sér meira skáldaleyfi í myndagerðinni og litirnir eru nær íslensku litaflórunni en á bollastellunum frá 1933," segir Jóhann.

Eins og áður sagði er á heimili Jóhanns margt fallegra muna og greinilegt að áhugi er á að varðveita anda gamalla tíma. En einnig vekja athygli skemmtilega litrík málverk eftir Harald Bilson, en hann sýndi verk sín í Gallerí Fold fyrir nokkrum árum. "Bilson er af íslenskum ættum og ég hreifst mjög af verkum hans," segir Jóhann og bætir því hlæjandi við að tíglarnir á hálsbindinu sem hann sé með séu í anda Bilsons.

Morgunblaðið/Jim Smart SPARISTELLIÐ skreytt Kötlugosi er í vörslu Árbæjarsafns.

VEGGPLATTI frá 1929 sem sýnir Þingvelli, áður en Valhöll var flutt á núverandi stað.

SKÓGARFOSS á þýskum veggplatta gerðum eftir svart-hvítu póstkorti.

ÞÓRSMÖRK máluð eftir póstkorti á veggplatta.

KÖKUDISKUR úr "Gullfossstellinu".

KÖKUDISKUR úr "Skógarfossstellinu".

KÖKUDISKUR úr "Þingvallastellinu".

HÉR er Jóhann Ólafsson á mynd með japönskum starfsmönnum Chika Amachi verksmiðjunnar árið 1933. Jóhann, er fyrir miðri mynd í ljósum jakkafötum.

JÓHANN J. Ólafsson með "Bilson-bindið" fyrir framan mynd eftir hinn íslensk ættaða Harald (Harry) Bilson.

HÉR hefur Jóhann Ólafsson ritað nafn sitt sem síðan var brennt í diskinn undir glerungnum. Ártalið er 1933.

JÓHANN J. Ólafsson lét gera þennan veggdisk í Japan árið 1965 eftir póstkorti í lit. Útsýnið er frá Landakotsturni.

GULLFOSS málaður í Japan eftir póstkorti í lit, 1965.