FRAMKVÆMDASTJÓRI Ísteka, Hörður Kristjánsson, undirbýr þessa dagana ásamt hrossabændum og dýralæknum blóðtöku úr fylfullum hryssum. Byrjað er á því að taka sýni úr merunum til að sjá hverjar séu fylfullar og hvort hlutfall frjósemishormónsins eCG,
Ísteka vinnur frjósemislyf úr blóði rúmlega 1000 hryssna í ár

Hugvitið virkjað í líftækni

Ísteka vinnur frjósemislyf úr blóðvökva hryssna sem er notað víða um heim til að stjórna gangmáli í búfé. Hryssunum sem blóð er tekið úr fjölgar um þriðjung í ár. Hildur Gróa Gunnarsdóttir fékk dr. Hörð Kristjánsson, framkvæmdastjóra Ísteka, til að lýsa því hvernig merarblóð verður að lyfi og fór með í blóðsýnatöku.

FRAMKVÆMDASTJÓRI Ís teka, Hörður Kristjánsson, undirbýr þessa dagana ásamt hrossabændum og dýralæknum blóðtöku úr fylfullum hryssum. Byrjað er á því að taka sýni úr merunum til að sjá hverjar séu fylfullar og hvort hlutfall frjósemishormónsins eCG, sem er sykruprótein hormón, sé orðið nógu hátt, en það framleiða þær á ákveðnum tíma meðgöngunnar. Teknir eru 5 lítrar af blóði í senn úr hverri hryssu og er blóð tekið fimm sinnum úr hverri með viku millibili.

Fyljunarhlutfall hátt á Íslandi

Í ár skiptir Ísteka við tæplega 40 bændur. Hingað til hefur Ísteka aðallega keypt blóð úr hryssum í Rangárvallasýslu en nú munu bændur úr Borgarfirði og Húnavatnssýslu einnig selja blóð úr hryssum sínum. Hörður býst við að tekið verði blóð úr 1000 til 1500 hryssum í ár og er það um 30% aukning frá því í fyrra. Hann segir fyljunarhlutfallið hátt á Íslandi og að hér séu einstakar aðstæður til að rækta hross með tilliti til frjósemi.

Í vikunni sem leið var Magnús Finnbogason á Lágafelli í Austur- Landeyjum að taka blóðsýni úr um 80 merum. Hann hefur tekið blóð úr merum sínum og selt allt frá 1980. Hann segir þetta alls ekki fara illa með þær og betur sé fylgst með þeim á meðgöngunni fyrir vikið. Bændur kynnist stóðinu líka betur með því að taka sýnin og blóðið reglulega. Hann segir þetta ágætis aukabúgrein þar sem tilkostnaður sé sama sem enginn, bændur þurfi einungis að leggja fram vinnu nokkra daga við blóð- og sýnatöku.

Þegar sýnin voru tekin á Lágafelli fyrir viku notaði Magnús tækifærið til að gefa folöldunum ormalyf, en stóðið er rekið í rétt. Magnús hafði tvo menn sér til aðstoðar, Fannar Bergsson sá um að rispa flipann og taka nokkra blóðdropa í bómullarpinna og Páll Imsland hélt utan um skráningu þeirra. Hver hryssa hefur númer en Magnús gefur þeim öllum nöfn en þar sem merarnar eru að nálgast hundraðið reynir á hugmyndaflugið og sagði hann að fjórar þeirra vantaði enn nafn. Þegar sýnatöku var lokið voru sýnin send til Ísteka í Reykjavík.

Þegar sýnin voru skoðuð daginn eftir kom í ljós að fyljunarhlutfall var 36%. Það þýðir að hægt verður að taka blóð úr 29 hryssum í þessari viku en áfram verða tekin sýni úr hinum til að kanna hlutfall frjósemishormónsins í blóðinu.

Hörður segir fyljunarhlutfallið úr þeim sýnum sem komin eru ívið lægra en verið hefur og er talið mögulegt að það séu eftirköst hrossasóttarinnar. Hann segir að hún hafi að öðru leyti engin áhrif á framleiðsluna þar sem vírusvarnarskref sé inni í framleiðsluferlinu.

Úr meraræðum í lyfjaglas.

Leið frjósemishormónsins eCG úr æðum meranna í lyfjaglös er löng og nokkuð flókin og Hörður bendir á að þetta sé eina líftækniafurðin sem unnin sé hér frá grunnhráefni og upp í fullunna vöru, lyf sem hægt er að gefa inn. Hörður segir fyrsta skrefið í framleiðslunni að fylgjast með því að hráefnið sé gott.

"Í því skyni er tekið blóðsýni úr merarstóðum og geta bændur sjálfir tekið þessi sýni. Þeir senda sýnin svo til Ísteka og þar er skoðað hversu hátt hlutfall frjósemishormónsins eCG er í hryssunum, þannig er hægt að velja besta hráefnið úr mörg þúsund sýnum sem við fáum," segir Hörður. Þegar hlutfallið er orðið gott taka dýralæknar úr þeim blóðið. Verðið sem fæst fer eftir gæðum blóðsins og er því skipt upp í 5 gæðaflokka. Lágmarkið eru 5000 krónur fyrir 25 lítra af blóði en fyrir þær sem best gefa fæst allt upp í 10.000 krónur.

Starfsgildi í verksmiðju Ísteka eru rúmlega fjögur en yfir sumarið vinna þar um 10 manns. Lyfið er unnið í þrepum og sent út tvisvar á ári og tekur um hálft ár að undirbúa hvora sendingu fyrir sig. "Við vinnum allan blóðvökvann upp á sama stigið í þrepum þar til komið er lyf tilbúið til áfyllingar. Þá er búið að frostþurrka það til að auka stöðugleika þess og er það þá orðið að dufti. Við frostþurrkun gufar ísinn upp í lofttæmi við mínus 30 gráður. Líftækniafurðir þola ekki dauðhreinsun með hitun sem er hluti af hefðbundinni lyfjaframleiðslu. Þess í stað er herbergið sem áfyllingin fer fram í dauðhreinsað og í því yfirþrýstingur svo ekkert óhreint í andrúmsloftinu komist inn í það. Fólkið sem vinnur þar þarf að vera í hálfgerðum geimbúningum og þarf að passa sig að hreyfa sig ekki of hratt því það getur truflað loftflæðið yfir áfyllingarlínunni," útskýrir Hörður.

"Lyfinu er svo dreift af hollensku fyrirtæki, Það er meðal annars keypt á Ítalíu og Frakklandi og er það notað til að stjórna gangmáli í sauðfé og svínum og er markmiðið að fá ferskt kjöt árið um kring," segir Hörður. Hann segir vaxandi áhuga hérlendis en markaðurinn sé of lítill til að fyrirtækið geti lagt út í skráningu hér því það sé mjög dýrt. Ef íslenskur bóndi vill kaupa lyfið sem upphaflega kom úr hryssunum hans þarf hann að hafa samband við íslenskt dreifingar fyrirtæki hollenska fyrirtækisins. Svo lyfið þarf að fara langa leið úr hryssunum hans yfir í ærnar.

Áhrif blóðtökunnar jákvæð

Áður en farið var að vinna frjósemislyf úr blóðvökva hryssna fóru fram rannsóknir á áhrifum blóðtökunnar á hryssur og folöld. Þær rannsóknir fóru fram um 1980 á vegum lyfjaheildverslunar G. Ólafsson. Hörður segir niðurstöðurnar hafa sýnt fram á að blóðtakan væri á engan hátt skaðleg og reynslan þyki sýna að ef eitthvað sé verði hryssurnar hraustari og folöldin fallegri.

"Upphaflega var blóðið selt til Danmerkur, en um 1985 var verksmiðjan sem Ísteka framleiðir lyfið í sett á fót af G. Ólafsson. Fyrstu fjögur árin gekk sala á lyfinu ekki vel og um 1990 var áhættufé frá Iðnþróunarsjóði, Iðnlánasjóði og Þróunarfélagi Íslands á þrotum.

Þróunarfélagið vildi þó láta reyna betur á og gefa framleiðslunni meiri tíma. Þá var stofnað líftæknifyrirtækið Ísteka og voru nokkrir starfsmenn ráðnir áfram.

Á árunum '90 til '94 er starfseminni haldið gangandi, mikil rannsóknarvinna fer fram og jafnframt unnið í markaðssetningu. Tæknisjóður Rannsóknarráðs og Norræni iðnaðarsjóðurinn stóðu fyrir fjármögnun á rannsóknarhlutanum. Velta Ísteka var þá um 10 milljónir, helmingurinn sala og hitt styrkir og áhættufé," segir Hörður. Hann telur Þróunarfélagið hafa sýnt áræði með því að reyna að varðveita þann vaxtarbrodd sem mögulega væri í framleiðslunni. Íslendinga skorti oft þolinmæði til að leyfa nýjungum að þróast og gefa þeim nauðsynlegan tíma til þess.

Framleiðslugeta

tvöfölduð með hugviti

Breytingar urðu árið '94 hjá fyrirtækinu, þá varð Hörður framkvæmdastjóri en hafði áður verið rannsókna- og þróunarstjóri og Hólmfríður Einarsdóttir var ráðin framleiðslustjóri. Árið '95 keypti Lyfjaverslun Íslands Ísteka og er Ísteka nú rekin sem sjálfstæð eining innan þess. Í febrúar 1994 náðust samningar við hollenskt fyrirtæki um dreifingu á lyfinu og segir Hörður að þá hefjist í raun nýtt skeið hjá fyrirtækinu. "Við unnum þá að því að færa þróunarvinnu fyrri ára yfir í framleiðsluferlið og þá var ég í góðri aðstöðu sem stjórnandi þar sem ég hafði áður unnið í þróuninni," segir Hörður.

Á þessum tíma náðist mjög góður árangur og miklar framfarir urðu. Verðmæti framleiðslunnar er nú komið upp í um 50 milljónir á ári. Hörður segir að hægt sé að þrefalda framleiðsluverðmætið með því að fullnýta verksmiðjuna, m.a. með áfyllingu á öðrum líftækniafurðum. "Með eldri aðferðum var unnið lyf sem innihélt 900-1000 einingar af hormóninu á hvert milligramm en lágmarkið var 900 og var síðar hækkað upp í 1000. Nú erum við að vinna lyf með að meðaltali 2700 einingar á mg," segir Hörður og segir hann nýtingu hráefnis nú 50% betri en áður en unnið hafi verið að betri nýtingu með styrk frá Tæknisjóði Rannsóknarráðs. Loturnar hafi verið stækkaðar og framleiðsluferli breytt svo framleiðslugetan hafi einnig aukist um 50%, þ.e. hægt sé að framleiða úr helmingi meira hráefni en áður var. Í heildina hafi því í raun orðið rúmlega tvöföldun á framleiðslugetu verksmiðjunnar án þess að lagt hafi verið út í verulegar breytingar eða tækjakaup heldur hugvitinu fyrst og fremst beitt.

Þegar Hörður er inntur eftir frekari möguleikum í líftækniiðnaðinum hér stendur ekki á svörunum. Hann segir Ísteka m.a. taka þátt í þróun lyfs sem sé unnið úr ensími ljósátu sem kemur úr Suðurskautshafinu af fyrirtækinu Norður ehf. í samstarfi við HÍ og breskt lyfjafyrirtæki. En Ísteka sér um frostþurrkun og pökkun eða um lokastigið í framleiðslunni. Hann segir að Ísteka sé einnig í samstarfi við bandarískt fyrirtæki um framleiðslu á líftæknilyfi sem hafi áhrif á fjölgun rauðra blóðkorna.

Líftækniiðnaðurinn er á fleygiferð að sögn Harðar og möguleikar lítilla eininga eins og Ísteka ágætir ef menn passi að hugsa alltaf fram í tímann og á heimsmælikvarða.

Morgunblaðið/Kristinn STÓÐIÐ á Lágafelli rekið að.

HÖRÐUR Kristjánsson framkvæmdastjóri Ísteka og Magnús Finnbogason bóndi á Lágafelli ræða málin.

FLIPINN er rispaður og nokkrir blóðdropar teknir í bómullarpinna.

FOLÖLDIN fengu sinn skammt af ormalyfi í leiðinni.