Bolungarvík- Um verslunarmannahelgina var afhjúpaður hér í Bolungarvík minnisvarði sem bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur látið gera til að heiðra minningu hins mikla athafnamanns Einars Guðfinnssonar og konu hans, Elísabetar Hjaltadóttur. Bæjarstjórn ákvað sl. haust að minnast þessa merka manns og konu hans á aldarafmæli hans 17. maí sl.

Minnisvarði um Einar

Guðfinnsson afhjúpaður

Bolungarvík - Um verslunarmannahelgina var afhjúpaður hér í Bolungarvík minnisvarði sem bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur látið gera til að heiðra minningu hins mikla athafnamanns Einars Guðfinnssonar og konu hans, Elísabetar Hjaltadóttur.

Bæjarstjórn ákvað sl. haust að minnast þessa merka manns og konu hans á aldarafmæli hans 17. maí sl. en þann dag var opnuð Einarssýning í Náttúrugripasafni Vestfjarða í Bolungarvík og efnt var til hátíðardagskrár þar sem fjölmargir bæjarbúar heiðruðu minningu þeirra hjóna. Liður í því að heiðra minninu Einars og Elísabetar á aldarafmæli hans, var svo gerð þessa minnisvarða sem nú hefur verið afhjúpaður.

Minnisvarðanum var valinn staður framan við Félagsheimili Bolungarvíkur þar sem kominn er vísir að gróðurreit og útivistarsvæði Bolvíkinga.

Grjótið sótt í Skötufjörð

Listamaðurinn Jón Sigurpálsson sá um að hanna minnisvarðann sem heitir "Grjóthlað". Grjótið í minnisvarðann var sótt inn í Skötufjörð en fyrirmyndin að minnisvarðanum er einmitt þær hlöðnu girðingar sem eru í landi Litla-Bæjar í Skötufirði, æskustöðvum Einars. Á minnisvarðann er fest lágmynd af þeim hjónum sem unnin er af listakonunni Ríkeyju Ingimundardóttur.

Við minnisvarðann er áletrun þar sem segir m.a. "Ég erfði ekki fé, ég erfði dyggðir" sagði Einar Guðfinnsson sem hóf atvinnurekstur í Bolungarvík 1. nóvember 1924. Einar var helsti athafnamaður staðarins á sinni tíð.

Einar fæddist á Litla-Bæ í Skötufirði 17. maí 1898 og lést í Bolungarvík 29. okt 1985. Eiginkona hans, Elísabet Hjaltadóttir, fæddist í Bolungarvík 11. apríl og lést þar 5. nóvember 1981. Auk umsvifamikils atvinnureksturs tóku þau Elísabet og Einar virkan þátt í sveitarstjórnar-, félags- og menningarmálum og höfðu forystu um margvísleg framfaramál í byggðarlaginu á mótunarskeiði þess.

Það voru tvö elstu börn þeirra Einars og Elísabetar, þau Guðfinnur Einarsson og Halldóra Einarsdóttir, sem afhjúpuðu listaverkið að viðstöddum afkomendum þeirra hjóna og fjölda bæjarbúa.

Morgunblaðið/Gunnar SYSTKININ Guðfinnur og Halldóra Einarsbörn afhjúpuðu listaverkið til minningar um foreldra sína.