8. ágúst 1998 | Menningarblað/Lesbók | 1685 orð

KJALNESINGAR FYRR OG NÚ EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Þessi bók er bæði stór og þykk og mikil náma af fróðleik um það fólk sem búið hefur á Kjalarnesi síðan 1890. Það er vel til fundið að bókin kemur út á þeim tímamótum þegar Kjalarneshreppur og Reykjavík hafa sameinazt í eitt sveitarfélag, sem hlýtur að hafa gífurlegar breytingar í för með sér undir Esjuhlíðum.

KJALNESINGAR

FYRR OG NÚEFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Blaðað í nýrri bók: Kjalnesingar - Ábúendur og saga Kjalarneshrepps frá 1890 - sem Þorsteinn Jónsson hefur tekið saman. Úútgefandi er Esjuútgáfan en Kjalarneshreppur hefur styrkt útgáfuna.

Þessi bók er bæði stór og þykk og mikil náma af fróðleik um það fólk sem búið hefur á Kjalarnesi síðan 1890. Það er vel til fundið að bókin kemur út á þeim tímamótum þegar Kjalarneshreppur og Reykjavík hafa sameinazt í eitt sveitarfélag, sem hlýtur að hafa gífurlegar breytingar í för með sér undir Esjuhlíðum. Er ekki seinna vænna að haldið sé til haga því sem þekkt er um jarðir og ábúendur á Kjalarnesi síðustu 100 árin og liðlega það. Þorsteinn Jónsson hefur mikla reynslu í samantekt og útgáfu á ættfræðibókum sem nýtist hér, en það gefur bókinni aukið gildi að fjallað er um sögu jarða og lífsbaráttuna í Kjalarneshreppi í aðgengilegum smágreinum, sem ríkulega eru prýddar myndum. Þorsteinn skrifar og formála, en inngangur bókarinnar er eftir Jón Ólafsson bónda í Brautarholti.

Nú er þéttbýli tekið að myndast á Kjalarnesi og eru því og fólkinu sem þar býr gerð skil. Þar eru góðar heimildir um þá Kjalnesinga sem ekki stunda búskap eins og Sigrúnu og Sören, sem hafa með sínu frábæra Gleri í Bergvík gert garðinn frægan. Þó er það svo, að umfjöllunin um býlin og fólkið frá aldamótum og fyrstu áratugum aldarinnar er það áhugaverðasta við þessa bók.

Fyrir utan myndir af löngu gengnu fólki hefur tekizt að finna ómetanlegar ljósmyndir af einstökum bæjum sem ekki eru lengur til og horfnum vinnubrögðum. Það er skemmtilegt að virða fyrir sér hvað allt þetta fólk er margvíslegrar gerðar. Við sjáum gráskeggjaðan öldung, Jón Jónsson á Melum, að koma úr róðri. Þessi gásleppukarl dó á tíræðisaldri 1940. Við sjáum athafnamanninn Thor Jensen sem rak stórbú í Arnarholti 1927-1943. Hann er í kjólfötum á myndinni og harla ólíkur Jóni á Melum. Annar þekktur bóndi er Ólafur Bjarnason í Brautarholti og er nú heldur reffilegur með Ástu sinni á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. Aðrir þjóðkunnir höfðingjar af Kjalarnesi eru að sjálfsögðu einnig í bókinni; Jónas Magnússon í Stardal í réttunum og Kolbeinn Högnason í Kollafirði á hestinum Tvisti.

Merkileg og minnisstæð er myndin af hjónunum í Bakkakoti, Sigurlaugu og Jóni og fjórum dætrum þeirra. Það er eins og að gægjast aftur í aldir að sjá þetta fólk; öll harðindi Íslandssögunnar samankomin í andlitum þeirra og ekki hefur verið slakað á hinum stríða alvörusvip þótt allir færu í sitt fínasta púss og sætu fyrir hjá ljósmyndara. Þetta er 19. aldar fólk; Jón fæddur 1830, en Sigurlaug 1837.

Hvernig tíminn og tízkan breytir fólkinu sést vel á mynd sem er tekin um 1930 af föngulegum kvennablóma á Kjalarnesinu: Heimasæturnar í Álfsnesi, sjö talsins, allt bráðmyndarlegar stúlkur og og eins og klipptar út úr tízkublaði. Kinlegir kvistir voru í hverri sveit og fulltrúi þeirra er Villi í Ósborg, sem raunar hét Vilhjálmur Theódórsson og Jón Kaldal ljósmyndari gerði ódauðlegan með meistaralegu portretti.Glæsibragur á aldamótafólkinu

Hve mikil reisn og glæsibragur gat verið yfir aldamótafólkinu sjáum við á mynd af hjónunum í Varmadal, Jóni Þorlákssyni og Salvöru Þorkelsdóttur. Þau giftust aldamótaárið en Jón dó úr lungnabólgu í blóma lífsins vorið 1916. Þau höfðu eignast 8 börn sem Salvör stóð ein uppi með, en henni tókst með einstæðum dugnaði að halda barnahópnum hjá sér og með tímanum eignaðist hún jörðina. Það voru líka töggur í sonunum sem urðu þjóðkunnir hesta- og íþróttamenn: Þar á meðal voru Þorgeir í Gufunesi, hestamaður og glímukóngur og svo vitað sé sá eini á landi hér sem hefur stokkið hæð sína í leikfimisstökki. Bróðir hans, Jón, sem tók við búi í Varmadal, var landskunnur hestamaður.

Þessi bók er sneisafull af fróðleik um fólk og ættartengsl. Bókarhöfundur vitnar oft í minningargreinar og gefur það bókinni aukna vídd og breidd. Í minningargrein um hjónin á Vallá, Benedikt og Gunnhildi, hefur Jónas í Stardal skrifað svofellda lýsingu á húsfreyjunni: "Gunnhildur á Vallá var fönguleg kona í sjón og raun. Eftir myndum að dæma hefur hún verið glæsileg á yngri árum. Hún var stór og gerðarleg, vel farin í andliti, ekki smáfríð, einörð og djörf í framkomu og tali við hvern sem hún átti og hreinskilin. Hún var oft glettin í svörum og gat verið kuldaleg í orðum, svo jafnvel fannst að hún gæti verið harðlynd. En þeir sem þekktu hana betur vissu að innra bjó mikil hlýja, umhyggja og skilningur, umfram allt með öllu sem var minnimáttar, hvort sem áttu í hlut menn, sem aðrir hölluðu á, eða voru sjálfir minni máttar, eða skepnurnar sem hún umgekkst. Traust og nærgætni veitti hún öllum þeim."

Saga skólastarfs á Kjalarnesi er rakin skilmerkilega og í kafla um Jarðræktarfélag Mosfells- og Kjalarneshreppa kemur fram, að í heil 16 ár, frá 1929-1945 var til ein einasta dráttarvél í hreppnum, en það var ekki öðruvísi en þá tíðkaðist. Fram að vélabyltingunni eftir stríðið fór þessi dráttarvél með plóg og herfi milli bæja og ár hvert var reynt að slétta spildur úr túnunum, sem yfirleitt voru þýfð fyrir 1930.Landnámsjörðin Brautarholt

Eins og annarsstaðar á landinu er næsta fátt um sögulegar heimildir frá minni jörðum á Kjalarnesi, en á öðrum jörðum hefur meira borið við í fortíð og nútíð. Svo er um Brautarholt, sem er landnámsjörð ásamt Esjubergi, helzta höfuðból sveitarinnar og kirkjustaður síðan um kristnitöku. Sá hét Andríður, írskur maður, er þar nam land og "var skógi vaxið allt Kjalarnes", segir í Kjalnesinga sögu. Var rudd braut í skóginn þar sem bærinn var byggður og hlaut hann nafn þar af. Tæpan kílómetra undan ströndinni er Andríðsey, nefnd eftir landnámsmanninum. Hlunnindi þóttu góð í Brautarholti; æðarvarp, selveiði, hrognkelsaveiði, fugla- og eggjatekja þar á meðal. Í Jarðabókinni frá 1704 segir um Brautarholt: "Mótak nægilegt. Rekavon nokkur, hrognkelsafjara, lending góð, heimaræði árið um kring, sölvafjara í Andríðsey og eggver áður." Helztu annmarkar á jörðinni eru aftur á móti talin vera lök torfrista, engar engjar, landþröng og vatnsból sem þrýtur oft bæði sumar og vetur.

Ég sé í bókinni að afi minn og amma, Jón Einarsson og Guðrún Jónsdóttir, hafa búið í Brautarholti í upphafi þess tíma sem bókin spannar. Guðrún er því miður sögð Einarsdóttir í myndartexta, en hún var dóttir gestgjafanna á Kolviðarhóli, Jóns og Kristínar, og kemur það raunar fram bókartextanum. Þau Jón og Guðrún hófu búskap í Brautarholti 1890, en fluttu upp að Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd 1902.

Á árunum 1901-1909 eignuðust Brautarholtið þekktir athafnamenn; Sturlubræður sem svo voru nefndir, Friðrik Jónsson (faðir Sturlu Friðrikssonar náttúrufræðings) og Sturla Jónsson. Að auki áttu þeir Fitjakot á Kjalarnesi. Bústjóri hjá þeim í Brautarholti var Jón Jónatansson, þá nýútskrifaður búfræðingur frá Noregi og hélt hann námskeið í plægingum 1907 og sóttu það bændur og bændasynir víðsvegar að af landinu. Fræðileg kennsla var um ýmsar gerðir plóga og herfa, helztu aðferðir við plægingar, undirstöðuatriði jarðvegsfræðinnar, rótarávaxtarækt með tilliti til þess að nota hestaflið, en einnig var leiðbeint um tamningu plóghesta, grænfóðursplöntur og gildi og notkun áburðar.

Daníel Daníelsson tók Brautarholt á leigu 1910 og hafði fyrir ráðsmann dugnaðarvíking sem vildi fá óheyrilega hátt kaup en þótti vinna fyrir því. Sá var Jörundur Brynjólfsson, síðar bóndi í Skálholti og alþingismaður. Frá 1915-1923 bjuggu í Brautarholti merkishjónin Jóhann Eyjólfsson og Ingibjörg Jóhanna Sigurðardóttir, sem áður bjuggu í Sveinatungu. Jóhann varð alþingismaður, þótti skáldmæltur og skjótur til svars og lét ógjarnan hlut sinn. Hann varð síðar fornsali í Reykjavík.

Árið 1923 urðu þau tímamót í Brautarholti að hjónin Ólafur Bjarnason frá Steinnesi í Sveinsstaðahreppi og Ásta Ólafsdóttir frá Hjarðarholti í Dölum hófu þar búskap. Synir þeirra, Jón og Páll, búa nú í Brautarholti, en í stað hefðbundins búskapar reka þeir saman graskögglaverksmiðju. Jón rekur síðan svínabú með sonum sínum.

Brautarholt er kirkjustaður og í kirkjugarðinum þar eru grafnir 13 þýzkir flugmenn sem skotnir voru niður á stríðsárunum. Þá reis braggahverfi í landi jarðarinnar og í ritverki sínu um síðari heimsstyrjöldina birtir Winston S. Churchill mynd af brezkum hermönnum með Brautarholtsbæinn og Esjuna í baksýn."Síðasti bærinn í dalnum"

Ein af smærri jörðunum á Kjalarnesi; Ártún, öðlaðist nokkra frægð um miðja öldina þegar Óskar Gíslason tók þar kvikmyndina "Síðasti bærinn í dalnum" og aftur var þessi torfbær notaður við kvikmyndun Sölku Völku. Lengi stóð bærinn uppi en vegfarendur um þjóðveginn hafa í áranna rás fylgst með því hvernig hann hefur horfið ofan í jörðina, svo þar er nú aðeins vallgróin þúst. Þótt ótrúlegt megi virðast, var Ártúnsá - stundum nefnd Blikdalsá - vegfarendum farartálmi og var hún ekki brúuð fyrr en 1928.

Það er ótrúlegt hvað hægt var að koma upp stórum barnahópum á svo litlum og hlunnindasnauðum jörðum sem Ártún var. Skömmu fyrir aldamót bjuggu þar hjónin Þorkell Ásmundsson frá Vallá á Kjalarnesi og Guðrún Jónsdóttir frá Langholti í Bæjarsveit. Hagur þeirra var þröngur í þessu litla og kostarýra koti, en samt áttu þau 8 börn og komu þeim öllum til manns.ÞÉTTBÝLISMYNDUN á Kjalarnesi: Grundarhverfi, nefnt eftir býlinu Grund. Fjær til vinstri sést Brautarholt. Ljósm: Jón Karl Snorrason.

"SÍÐASTI BÆRINN í dalnum", var hann oft nefndur þessi bær eftir að Óskar Gíslason tók þar samnefnda kvikmynd. Bærinn hét Ártún og er nú horfinn.

FJALLMYNDARLEGAR vinnukonur í Brautarholti við dúntekju í Andríðsey árið 1907. Ljósm.: Daníel Daníelsson.

HEIMILISFÓLKIÐ í Bakkakoti um eða fyrir síðustu aldamót, hjónin Jón og Sigurlaug og dæturnar fjórar.

FRÍÐ kona með fallegan barnahóp: Helga Finnsdóttir í Saltvík. Miklir erfiðleikar voru framundan hjá þessari konu þegar eiginmaðurinn, Bjarni Árnason frá Móum, fórst með togara á Halamiðum veturinn 1925.ERLENDIR ferðamenn við fjárhúsin á Esjubergi í byrjun aldarinnar.

KOLBEINN Högnason, hagyrðingur og bóndi í Kollafirði og Málfríður Jónsdóttir kona hans ásamt börnum sínum og fleira fólki. Fremstur á myndinni þekkist Sigurður E. Ólason hrl., tengdasonur Kolbeins og Málfríðar.

FITJAKOT á fyrrihluta aldarinnar.

UNG OG GLÆSILEG hjón í Varmadal árið 1906: Jón Þorláksson og Salvör Þorkelsdóttir ásamt Ágústi syni þeirra. Jón féll frá 10 árum síðar og Salvör stóð þá ein uppi með stóran barnahóp.

KNÁIR synir Varmadalshjóna, Þorgeir í Gufunesi lengst til vinstri, Jón í Varmadal næstlengst til hægri og lengst til hægri er Björgvin bróðir þeirra.TRÖLLAFOSS, ein af náttúruperlum Kjalarness. Myndin er tekin 1910 og Daníel Daníelsson bóndi í Brautarholti, sem var frumkvöðull í ferðamannaþjónustu, er við fossinn með hóp af erlendum ferðamönnum.

Heyvinna í SaltvíkAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.