Tæplega 1.578 milljóna króna tap varð á rekstri Flugleiða fyrstu sex mánuði ársins. Er þetta mun verri afkoma en á sama tíma á síðasta ári en stjórnendur félagsins segja að útlit sé fyrir bætta afkomu á síðari hluti ársins, þó þannig að reiknað er með að tap verði á rekstrinum þegar árið verður gert upp. Hins vegar er vonast eftir hagnaði á næsta ári.
Flugleiðir hætta flugi til og frá Lúxemborg og fresta áformaðri aukningu umsvifa 1.578 milljóna króna

tap á fyrri árshelmingi

Tæplega 1.578 milljóna króna tap varð á rekstri Flugleiða fyrstu sex mánuði ársins. Er þetta mun verri afkoma en á sama tíma á síðasta ári en stjórnendur félagsins segja að útlit sé fyrir bætta afkomu á síðari hluti ársins, þó þannig að reiknað er með að tap verði á rekstrinum þegar árið verður gert upp. Hins vegar er vonast eftir hagnaði á næsta ári. Stjórn Flugleiða ákvað í gær að fresta aukningu umsvifa og grípa til margvíslegra sparnaðaraðgerða. Meðal annars verður hætt að fljúga til Lúxemborgar en þar hafa Flugleiðir og Loftleiðir verið með starfsemi í 43 ár.

TAP á reglulegri starfsemi Flugleiða varð 1.577 milljónir króna á fyrri helmingi ársins, eins og fram kemur á meðfylgjandi töflu, en á sama tíma á síðasta ári var tapið 921 milljón. Á síðasta ári höfðu Flugleiðir hins vegar hagnað af sölu flugvélar, um 396 milljónir kr., þannig að tap tímabilsins varð 526 milljónir á móti 1.578 milljónum á sama tíma í ár.

Tap innanlands og á fraktflugi

Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, leggur á það áherslu að vegna árstíðasveiflu í rekstri félagsins sé að jafnaði tap á fyrri hluta ársins. Sem skýringar á meira tapi nú en í fyrra nefnir hann nokkur atriði. Vegna kjarasamninga á síðasta ári hefur launakostnaður Flugleiða aukist um 10% eða ríflega 600 milljónir kr. Sigurður segir að þetta sé mun meiri launahækkun en almennt á markaði erlendis og þótt gert hafi verið ráð fyrir þessu í rekstraráætlun sé ljóst að launahækkunin hafi skert samkeppnisstöðu félagsins.

Rekstrarafkoma Flugfélags Íslands hf. og fraktstarfsemi Flugleiða er lakari en á síðasta ári. Í báðum tilvikum er ástæðan sögð harðnandi samkeppni. Sigurður segir að framlegð í fraktflutningum sé minni en gert var ráð fyrir. Hins vegar séu teikn á loft um bætta stöðu í þeirri grein.

Flugfélag Íslands hf. var rekið með 216 milljóna króna tapi á fyrri árshelmingi. Flugleiðir eiga 65% hlutafjár og er hlutdeild félagsins í tapinu því 140 milljónir. Að auki gjaldfæra endurskoðendur félagsins 46 milljónir kr. í þessum reikningum, vegna hlutdeildar minnihluta í neikvæðri eiginfjárstöðu, en þetta er eingöngu reiknuð tala og standa vonir til að hún gangi til baka þegar dregur úr tapinu á síðari hluta ársins og eiginfjárstaðan lagast. Þótt reiknað sé með betri afkomu Flugfélags Íslands á síðari hluta ársins telja stjórnendur Flugleiða að tap verði af rekstri ársins í heild. Sigurður segir mikilvægt að halda áfram að lækka kostnað til þess að draga sem mest úr tapinu. Einnig sé óumflýjanlegt að hækka fargjöldin, annars sé ekki unnt að halda úti þessum rekstri.

Einnig varð tap á Flugfélagi Íslands þann tíma sem það var rekið á síðasta ári og var hlutur Flugleiða í því um 100 milljónir kr. Þrátt fyrir þetta hefur stjórn Flugleiða ákveðið að halda þessum rekstri áfram, að sögn Sigurðar Helgasonar.

Afkoma af alþjóða farþegaflugi Flugleiða varð lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, meðal annars vegna harðnandi samkeppni á Norður-Atlantshafsflugleiðum sem var félaginu þung í skauti á fyrstu mánuðum ársins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem Flugleiðir sendu frá sér í gær. Einnig er nefnt að harkalegt verkfall á Kaupmannahafnarflugvelli, langveigamesta viðkomustað Flugleiða erlendis, hafi jafnframt haft neikvæð áhrif á afkomuna. Auk þessa nefnir Sigurður Helgason að sjómannaverkfall og hitasótt í hestum hafi haft áhrif á afkomuna á þessu tímabili vegna minnkandi flutninga. Á síðasta ári var óhagstæð gengisþróun nefnd sem helsta skýringin á tapi Flugleiða. Spurður um þann þátt nú segir Sigurður að gengi gjaldmiðla sé félaginu óhagstætt, þótt ekki sé óhagræðið í ár hliðstætt því sem gerðist á síðasta ári.

Stefnt að hagnaði á næsta ári

Rekstrarafkoman yfir sumarið skiptir miklu fyrir heildarniðurstöðu ársins. Sigurður segir að reksturinn hafi gengið vel í júní og júlí og útlitið sé gott fyrir ágúst. Í gær var kynnt bráðabirgðauppgjör fyrir júlímánuð. Þar kemur fram að félagið skilaði 850 milljóna króna hagnaði í mánuðinum sem er um 370 milljónum króna betri afkoma en í sama mánuði í fyrra. Í fréttatilkynningu kemur fram að sala hafi gengið vel. "Endurskoðuð rekstraráætlun, sem kynnt var fyrir stjórn félagsins í dag, bendir til þess að afkoman seinni hluta ársins verði betri en í fyrra þótt ekki takist að vinna upp þau áföll sem félagið varð fyrir á fyrri hluta árs. Félagið leggur nú kapp á að styrkja forsendur rekstraráætlunar út árið og tryggja að afkomubati skili sér í hagnaði á næsta ári," segir í tilkynningunni.

Sigurður Helgason segir, spurður um þennan viðsnúning, að búið sé að byggja upp flutningakerfi af lágmarksstærð og rekstur þess gangi nú vel. Félagið njóti hagkvæmni stærðarinnar. "Til að ná góðum tökum á rekstrinum hefur verið ákveðið að staldra við og áformum um aukningu á næsta ári frestað. Við erum sannfærð um að hægt er að ná betri árangri út úr því flutningakerfi sem við höfum byggt upp. Það verður meginviðfangsefni næstu missera," segir Sigurður Helgason.

Fresta áformum um aukningu

Stjórn Flugleiða samþykkti í gær tillögu forstjóra um að fresta áformum um aukin umsvif á næsta ári, að hætta flugi til Lúxemborgar, að selja eina flugvél, hætta eigin afgreiðslustarfsemi á Kennedyflugvelli, að lækka kostnað um 400 milljónir kr., um aðgerðir í rekstri Flugfélags Íslands og áframhaldandi skipulagsbreytingar.

Félagið hafði áform um áframhaldandi aukningu í millilandaflugi á næsta ári. Þeim áformum hefur nú verið frestað og félagið einbeitir sér að því að bæta afkomu og árangur þess leiðakerfis sem byggt hefur verið upp í alþjóðafluginu undanfarin ár. "Vegna þeirrar uppbyggingar á félagið þess kost að breyta söluáherslum milli tímabila eftir því hvar vænta má meiri ábata. Undanfarna mánuði hefur söluáherslum til dæmis verið breytt með það í huga að auka sölu í Bandaríkjunum og Bretlandi vegna styrks sterlingspundsins og Bandaríkjadollarans. Þarna er að nást verulegur árangur. Sala í Bandaríkjunum það sem af er árinu hefur aukist um 33% og svipaða sögu er að segja af sölu í Bretlandi," segir í fréttatilkynningu.

Hætt að fljúga til Lúxemborgar

Ákveðið hefur verið að hætta flugi milli Lúxemborgar og Íslands 9. janúar næstkomandi. Lúxemborg hefur verið viðkomustaður Flugleiða og áður Loftleiða frá árinu 1955 og var að heita mátti eini viðkomustaður í Evrópu fyrir Norður-Atlantshafsflug félaganna. Fyrir rúmum tíu árum þurfti félagið að taka ákvörðun um framhald starfseminnar í Lúxemborg en afkoma þess rekstrar hafði versnað vegna þess að markaðssvæði Lúxemborgarflugvallar í Evrópu minnkaði stöðugt með aukinni samkeppni í Norður-Atlantshafsflugi frá öðrum flugfélögum og öðrum evrópskum flugvöllum.

"Viðbrögð félagsins þá voru stóraukin áhersla á erlenda ferðamenn til Íslands frá öllum áfangastöðum og til að styrkja þann þátt starfseminnar voru öll flug til og frá landinu tengd þannig að hægt var að þjóna Norður-Atlantshafsmarkaðnum með flugvélum sem fyrst og fremst er ætlað að flytja farþega til og frá landinu. Þessi stefnubreyting hefur styrkt mjög flugið milli Íslands og ákvörðunarstaða í Evrópu. Markaðsstöðu Lúxemborgar hefur hins vegar haldið áfram að hraka, einkum yfir hafið og flutningar milli Lúxemborgar og Íslands hafa ekki náð að fylla í skarðið. Aðrir staðir á meginlandi Evrópu gefa mun meiri vonir um ferðamenn til Íslands, sem eru verðmætustu alþjóðafarþegar félagsins, og að auki stærri markað yfir Norður-Atlantshaf. Félagið mun því styrkja uppbyggingu á flugi til Frankfurt og Parísar," segir í fréttatilkynningu Flugleiða.

Sigurður Helgason segir að það hafi verið erfið ákvörðun að hætta flugi til Lúxemborgar. Félagið hafi flogið þangað í 43 ár og það hafi skapað mikil tengsl milli landanna. "En aðstæður hafa breyst. Þessi staður passar ekki lengur inn í flutningakerfi okkar. Þetta er því köld viðskiptaleg ákvörðun sem óhjákvæmilegt var að taka," segir forstjórinn. Vegna lokunar söluskrifstofu, bókhaldsþjónustu og flugvallarafgreiðslu Flugleiða í Lúxemborg fækkar starfsfólki félagsins um 13. Á næstu dögum verður lokið viðræðum við starfsfólkið um þann viðskilnað.

Flug til Parísar og Frankfurt verður aukið í vor og eftir það flogið þangað allt árið, daglega á sumrin en allt að fjórum sinnum í viku að vetrinum.

Áhersla á Boeing 757

Ekki verður af fjölgun flugvéla Flugleiða á næsta ári, eins og áformað hafði verið. Ný Boeing 757-200 flugvél kemur inn í reksturinn í apríl en það er sams konar vél og kom til landsins í janúar síðastliðnum. Í staðinn verður ein Boeing 737-400 vél seld í tengslum við niðurfellingu Lúxemborgarflugsins.

Þessi breyting á flugflota er jafnframt skref í þá átt að Flugleiðir verði með eina gerð flugvéla í millilandaflugi, það er að segja Boeing 757 sem er stærri gerð Boeing-vélanna sem félagið hefur rekið. Það mun að sögn stjórnenda félagsins skila verulegum fjárhagslegum ávinningi vegna sparnaðar í varahlutahaldi, betri nýtingar tækja og mikillar lækkunar þjálfunarkostnaðar flugmanna.

Hætta eigin afgreiðslu á Kennedyflugvelli

Flugleiðir hætta eigin afgreiðslustarfsemi á Kennedyflugvelli í New York um miðjan næsta mánuð. Samið hefur verið við British Airways um að taka við afgreiðslu Flugleiðavéla.

Félagið og áður Loftleiðir hafa haft eigin flugstöðvarrekstur og farþegaþjónustu á Kennedyflugvelli í 35 ár. Flugleiðir hafa þjónað öðrum flugfélögum á vellinum og haft af því góðan ábata en úr þeirri starfsemi hefur dregið vegna breytinga á markaðsaðstæðum á vellinum og þeim hefur nú alveg verið hætt. Á sama tíma liggur það fyrir að Flugleiðir þurfa að taka afstöðu til þess hvort félagið vill halda áfram starfsemi á sama stað í flugstöðinni þar sem verið er að hefja algera endurbyggingu húsnæðis. Það myndi leiða til mun hærri leigu og meiri rekstraráhættu vegna verkefna fyrir önnur flugfélög. Niðurstaða Flugleiða var að kaupa flugvéla- og farþegaþjónustu hjá öðru fyrirtæki og hefur verið gengið frá samningi við British Airways um að taka við afgreiðslunni frá og með 15. september. Talið er að sparnaður félagsins vegna þessa nemi allt að 70 milljónum kr. á ári.

Flugleiðir munu áfram hafa 4 starfsmenn á Kennedy-flugvelli en þurfa að segja upp starfsmönnum í 15 stöðugildum. Hafa þeir flestir fengið aðra vinnu, meðal annars hjá British Airways.

Kostnaður lækkaður um 400 milljónir

Stefnt er að því að ná 400 milljóna króna kostnaðarlækkun á ári í framhaldi af ítarlegri skoðun um 20 vinnuhópa á öllum þáttum starfseminnar í vetur og vor. Samsvarar þetta um 2% af útgjöldum félagsins. Reiknað er með að með þessum aðgerðum verði unnt að lækka kostnað það sem eftir er af þessu ári um 200 milljónir. Meðal sparnaðaratriða má nefna verulega lækkun fjarskiptakostnaðar, liðlega 20 milljóna kr. sparnað í eldsneytiskostnaði, 10 milljóna kr. lækkun veitingakostnaðar og lækkun markaðskostnaðar um 40 milljónir.

Auk þess hefur félagið verið með strangar hömlur á nýráðningum og endurráðningum vegna starfsfólks sem lætur af störfum. Félagið er nú mannað töluvert undir því sem gert var ráð fyrir í rekstraráætlunum, eða um 59 manns, og að mati stjórnenda félagsins tekst því að halda uppsögnum vegna sparnaðaraðgerða í algeru lágmarki. Uppsagnirnar verða fyrst og fremst í erlendum starfsstöðvum en eins og áður hefur komið fram fækkar starfsfólki í Lúxemborg og á Kennedyflugvelli samtals um 28 manns.

Í framhaldi af fjölgun dótturfélaga hefur verið ákveðið að halda áfram skipulagsbreytingum sem miða að því að skýra rekstrarábyrgð stjórnenda í einstökum liðum starfseminnar. Verið er að leggja lokahönd á skipulag svokallaðra afkomueininga sem verða reknar innan móðurfélagsins en með mjög skýr rekstrar- og afkomumarkmið, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Meðal þeirra eininga sem verið er að skipuleggja með þessum hætti er stöðvarrekstur á Keflavíkurflugvelli, fraktrekstur, viðhaldsþjónusta, verslanarekstur, vildarkortakerfi og bílaleiga.

Eigið fé minnkar

Heildareignir samstæðu Flugleiða samkvæmt efnahagsreikningi nema nú 23,5 milljörðum kr. Félagið skuldaði 18,8 milljarða 30. júní síðastliðinn. Eigið fé nam 4,7 milljörðum en var tæpir 6 milljarðar á sama tíma á síðasta ári. Þessi minnkun stafar einkum af hallarekstri á þessu tímabili.

Ráðherra áhyggjufullur

Halldór Blöndal samgönguráðherra segist vera mjög áhyggjufullur vegna afkomu Flugleiða enda skili fyrirtækið drjúgum hluta gjaldeyristekna Íslendinga og sé forsendan fyrir þeim vexti í ferðaþjónustu sem stefnt sé að og menn þykist sjá að geti orðið á næstu árum.

Halldór segist þó vilja trúa því að Flugleiðum muni takast að snúa dæminu við með ráðstöfunum sínum. "Flugleiðir hafa náð mjög góðum árangri í sætanýtingu í fluginu milli Evrópu og Ameríku en þeim hefur ekki tekist að hækka meðalverðið nóg," segir hann.

Varðandi þá ákvörðun félagsins að hætta flugi til Lúxemborgar segir samgönguráðherra að viss ljómi sé yfir því flugi í huga Íslendinga. "Breyttar samkeppnisaðstæður valda því hins vegar að ekki eru forsendur fyrir því að halda áfram og við verðum að sætta okkur við það. Flugleiðir eru að byggja upp nýjar leiðir til Glasgow og Halifax og því fela þessar ráðstafanir sem betur fer ekki í sér að fyrirtækið sé að draga saman í rekstrinum."

Gengi hlutabréfa lækkar

Fjárfestar virðast hafa gert sér vonir um betri afkomu Flugleiða því gengi hlutabréfa félagsins lækkaði í gær úr 2,94 í 2,68, eða um 8,8%. Í spám verðbréfafyrirtækjanna sem birtar voru hér í blaðinu í lok júlí, um afkomu Flugleiða á fyrri árshelmingi, birtist nokkuð misvísandi mat. Flest fyrirtækin gerðu þó ráð fyrir að tapið yrði á bilinu 1,0 til 1,4 milljarðar. Eitt fyrirtækið, Viðskiptastofa Íslandsbanka, spáði reyndar 900 milljóna króna tapi. Raunverulegt tap Flugleiða, 1.578 milljónir, rúmaðist aðeins innan spár Kaupþings sem reiknaði með 1,3 til 1,7 milljarða króna tapi.

"Þetta kemur á óvart," segir Heiðar Guðjónsson, verðbréfamiðlari hjá Viðskiptastofu Íslandsbanka, þegar leitað er álits hans á afkomu Flugleiða. "Við sáum að ytri aðstæður voru félaginu frekar hagstæðar á fyrri hluta ársins. Gríðarleg olíuverðslækkun ætti að vega upp á móti launahækkunum. Sveiflur hafa verið litlar á erlendum gjaldmiðlum. Þá er aðeins eftir kjarninn í starfseminni sem virðist ekki vera nógu góður," segir Heiðar.

Hann vekur athygli á því að hótelrekstur Flugleiða gengur mun ver en fyrir ári síðan auk þess sem Flugfélag Íslands skilar verri afkomu. Því megi hugleiða hvort félagið eigi að halda áfram þessum rekstri.

Heiðar telur að Flugleiðir séu svo lítið félag á markaðnum að það eigi erfitt með að standast samkeppnina. Því verði erfitt að auka tekjurnar. "Við verðum að bíða og sjá hvernig til tekst með áformaða kostnaðarlækkun. Annars kemur það á óvart að kostnaðurinn skuli ekki hafa verið lækkaður fyrr, fyrst það er talið hægt nú."

Telur Heiðar að þær aðstæður sem ríktu á fyrri hluta ársins verði viðvarandi og það taki því nokkurn tíma að koma rekstrinum í gott horf. Hann metur það svo að þrátt fyrir verðlækkunina í gær hafi gengi hlutabréfa Flugleiða ekki náð botni, það gæti lækkað enn frekar. "Verðbréfamarkaðurinn bjóst við betri afkomu. Nú hefur þetta gerst í þrígang að gengið hefur lækkað eftir birtingu afkomutalna. Þegar áætlanir bregðast sífellt má búast við að fjárfestar leiti annað við ákvöxtun fjármuna sinna," segir Heiðar Guðjónsson.