25. ágúst 1998 | Innlendar fréttir | 651 orð

Dómsmálaráðherra braut ekki jafnréttislög

Kærunefnd telur Harald hæfari

KÆRUNEFND jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið jafnréttislög með skipun Haralds Johannessen í embætti ríkislögreglustjóra. Í úrskurði nefndarinnar segir að það sé álit kærunefndar að starfs- og stjórnunarreynsla þess sem skipaður var, þ.e. Haralds Johannessen, hafi verið meiri en Hjördísar B.
Dómsmálaráðherra braut ekki jafnréttislög

Kærunefnd telur

Harald hæfari

KÆRUNEFND jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið jafnréttislög með skipun Haralds Johannessen í embætti ríkislögreglustjóra. Í úrskurði nefndarinnar segir að það sé álit kærunefndar að starfs- og stjórnunarreynsla þess sem skipaður var, þ.e. Haralds Johannessen, hafi verið meiri en Hjördísar B. Hákonardóttur, héraðsdómara, sem kærði embættisveitinguna. Sú reynsla geri að verkum að Haraldur teljist hæfari til skipunar í embætti ríkislögreglustjóra. "Telst skipun í stöðu ríkislögreglustjóra því ekki brot gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla," segir í úrkurðinum. Einn nefndarmanna, Helga Jónsdóttir, skilaði séráliti og kemst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi brotið gegn fyrrnefndum lögum þar sem Hjördís hafi verið að minnsta kosti jafnhæf.

Dómsmálaráðherra skipaði Harald Johannessen ríkislögreglustjóra frá 1. febrúar 1998 úr hópi 7 umsækjenda. Einn umsækjendanna, Hjördís B. Hákonardóttir, héraðsdómari, taldi að með embættisveitingunni væri brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga.

Hún taldi sig hafa meiri menntun og taldi ekki réttlætanleg þau sjónarmið í rökstuðningi ráðuneytisins að níu ára starf Haralds, sem forstjóra Fangelsismálastofnunar, væri látið vega þyngra en tveggja áratuga reynsla hennar sem dómara og sýslumanns.

Kærunefnd vék sæti

Bæði Haraldur og Hjördís hafa embættispróf í lögfræði. Bæði uppfylla embættisskilyrði dómara. Hjördís hefur einnig lokið MA prófi í réttarheimspeki en Haraldur hefur stundað framhaldsnám í afbrotafræði.

Þar sem Hjördís er aðalmaður í Kærunefnd jafnréttismála viku hún og aðrir fastir nefndarmenn sæti. Nefndina, sem fór með málið, skipuðu Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður, sem var formaður nefndarinnar, Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor, og Helga Jónsdóttir, lögfræðingur, starfsmaður Sjóvár- Almennra.

Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að ekki verði fram hjá því litið að Haraldur teljist vegna starfa sinna sem forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins um níu ára skeið og sem varalögreglustjóri í Reykjavík, hafa haft víðtækari og nýlegri reynslu af löggæslu- og afbrotamálum en kærandi. Þá komi til skoðunar hvort kostum Hjördísar vegna meiri menntunar verði jafnað við við stjórnunar- eða starfsreynslu þess sem ráðinn var.

"Fyrir liggur í málinu að framhaldsmenntun kæranda er ekki á sérsviði afbrotafræði eða löggæslu, þó svo að um ákveðin tengsl geti verið að ræða. Verður því að telja að framhaldsmenntun kæranda hafi hér minni þýðingu en ella. Óhjákvæmilegt er að líta til þess, að um var að ræða skipan í stöðu sem var nýleg og að mörgu leyti ómótuð. Í slíkum tilfellum verður að telja að meira svigrúm sé en ella til að leggja áherslu á stjórnunar- og starfsreynslu þess sem skipaður er, en þegar um er að ræða fastmótaða stöðu," segir í úrskurðinum.

Dómarastörfum fylgir ekki stjórnunarreynsla

Þar segir ennfremur: "Kærandi hefur um árabil starfað sem héraðsdómari og hefur öðlast mikla reynslu sem slíkur. Ekki verður hins vegar fram hjá því litið að dómarastörfum fylgir ekki almenn stjórnunarreynsla, þ.e. reynsla af því að bera ábyrgð á og reka stofnanir eða fyrirtæki. Sá sem skipaður var hafði á hinn bóginn samfellt 10 ára stjórnunarreynslu af rekstri embætta á vegum ríkisins, fyrst sem forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins frá stofnun árið 1988, en síðan sem varalögreglustjóri í Reykjavík, þar til að skipun í embætti ríkislögreglustjóra kom. Leggja má til grundvallar að stjórnunarstörf hjá umræddum embættum hafi falið í sér hvort tveggja umsvifamikið mannahald og umsjón með fjárreiðum. Er því óhjákvæmilegt að telja að sá sem skipaður var standi kæranda framar að því er almenna stjórnunarreynslu varðar og hafi að því leyti verið hæfari til að gegna forstöðumannsembætti ríkisstofnunar."

Sérálit

Helga Jónsdóttir skilaði séráliti þar sem fram kemur að hún telji að Hjördís hafi verið að minnsta kosti jafnhæf til þess að gegna embætti ríkislögreglustjóra og Haraldur. "Með vísan til þess hve fáar konur gegna störfum yfirmanna við þau embætti og þær stofnanir sem heyra undir dómsmálaráðherra og sérstaklega til kynjaskiptingar innan embættis ríkislögreglustjóra, er það mat mitt að ráðherra hafi brotið gegn ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 8. gr. sömu laga," segir í séráliti Helgu.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.