SKOÐANIR OG SKÁLDLEG TILÞRIF Bókmenntir Erlendur Jónsson Bjarni Bjarnason: ÓTAL KRAFTAVERK. 70 bls. Augnhvíta. 1989. Ólafur Haraldsson: ÞÖGN. Saga. 95 bls. 1989. Við byggjum allt upp rangt. Þannig hefst síðasti kaflinn í Ótal kraftaverk.

SKOÐANIR OG SKÁLDLEG TILÞRIF Bókmenntir Erlendur Jónsson Bjarni Bjarnason: ÓTAL KRAFTAVERK. 70 bls. Augnhvíta. 1989. Ólafur Haraldsson: ÞÖGN. Saga. 95 bls. 1989. Við byggjum allt upp rangt. Þannig hefst síðasti kaflinn í Ótal kraftaverk. Bjarni Bjarnason er ádeiluhöfundur. Meining hans sýnist vera sú að úr því hið illa sé til í veröldinni - og meira en svo sé eins gott að það láti á sér kræla. Og hvimleiður er þessi heimur, svo mikið er víst: Mönnum líður illa, sama hvað þeir gera.

Texti Bjarna er kraftmikill, og víða er skörulega að orði komist. Ótal kraftaverk er heimsádeila sem byggir á lífspekilegum, pólitískum og sögulegum grunni: Engan efnivið hefur iðnaðarsamfélagið fært okkur sem við getum notað umfram þann efnivið sem Shakespeare hafði að moða úr. Þó sitthvað megi að þessari bók Bjarna Bjarnasonar finna - aðallega þó frágangi textans - stendur af henni kaldur og vekjandi gustur.

Þögn Ólafs Haraldssonar inniheldur minni íhugun en stefnir því meir í átt til skáldlegra tilþrifa. Að hætti margra nútímahöfunda rýnir Ólafur í hið tímalausa andartak og leitast við að draga upp raunsannar myndir úr hversdagsleika nútíma manneskjunnar. Eins og margur ungur höfundur bregður hann á leik annað veifið til að sanna að hann sé hvorki klassískur né gamaldags heldur töff og svalur. Annars er texti hans með köflum kunnáttu legur og að mínum dómi skemmtilegur. Sér í lagi getur Ólafi tekist að skrifa samtöl sem sum hver eru nöturlega raunsönn.

Báðar eru bækur þessar offset fjölritaðar og láta lítið yfir sér. Eigi að síður standa þær efnislega á sporði mörgu sem meira er borið í. Báðir hafa höfundarnir metnað til að láta að sér kveða. Eigin útgáfur af þessu tagi eru oft fátæklegar, t.d. sýnast höfundarnir sjaldan njóta aðstoðar við prófarkalestur. En þær veita höfundunum á hinn bóginn frelsi til að segja það sem þeim býr í brjósti - tæpitungulaust!